16. jún. 2014

Að endurtaka áfanga í fjarnámi

Því miður gerist það á hverju ári að nemendur ná ekki þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar í áföngum og þá er mikilvægt að þeir og foreldrar þeirra kynni sér vel hvaða reglur eiga við þegar nemandi fellur í áfanga. Í meginatriðum gerist eftirfarandi:

Nemendur í dagskóla sem falla á vorönn (maí) verða að endurtaka áfangann og verða próf haldin í júní. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka júníprófin eða ekki. Hins vegar er hér um "tækifæri" númer 2 hjá nemendum að ræða hvort sem þeir taka prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn í fjarnámi VÍ og verða próf haldin í ágúst.

Nemandi má að hámarki endurtaka 3 áfanga. Falli hann í fleirum en þremur áföngum þá telst hann fallinn á árinu. Ef nemandi fellur þrisvar í sama áfanga telst hann endanlega fallinn. (Unnið úr skólareglum á netinu.)

Athugið að nemendur skólans eiga að endurtaka áfangana í fjarnámi VÍ. Þeir nemendur skólans sem ekki hafa lokið áföngum sínum eftir endurtektarprófin verða að skrá sig sjálfir í fjarnámið á fjarnámsvefnum (www.verslo.is/fjarnam ). Opið verður fyrir skráningu út júnímánuð. Athugið að strax að skráningu lokinni á tölvupóstur að hafa borist nemanda. Berist tölvupóstur ekki hefur skráning misfarist og þá þarf að endurtaka skráninguna.

Fréttasafn