1. okt. 2014

Nemendaheimsókn frá Falun

Vikuna 14.-18. september heimsóttu 30 sænskir nemendur Verzlunarskólann ásamt þremur kennurum. Dvöl þeirra var liður í Nordplus nemendaskiptaverkefni Verzlunarskólans og Kristinegymnasiet í Falun Svíþjóð.

Sænsku nemendurnir gistu á heimilum íslenskra kollega sinna og fylgdu þeim í skólann hluta af vikunni en dagskrá vikunnar var mjög fjölbreytt og skemmtileg. Meðal annars var farið í heimsókn í Ölgerðina en þar fengu nemendur kynningu á starfsemi fyrirtækisins ásamt því sem húsakynni og framleiðslusalir voru skoðaðir. Þá var Hellisheiðarvirkjun heimsótt og starfsemi hennar skoðuð. Sænsku nemendurnir fóru einnig á kynningu hjá Kauphöll Íslands og skoðuðu sýningu í Þjóðminjasafninu. Farin var dagsferð á Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Bláa Lónið var einnig heimsótt og vakti sú heimsókn mikla hrifningu erlendu gestanna.

Vikan gekk vel og allir héldu til síns heima glaðir og eftirvæntingin er mikil fyrir næstu heimsókn sem verður í Falun í byrjun nóvember.

Fréttasafn