24. okt. 2014

Einar Kárason í heimsókn

Einar Kárason rithöfundur heimsótti 6. bekkinga í gær og ræddi við þá um ritunartíma Njáls sögu og þann jarðveg sem þetta meistaraverk er sprottið úr, Sturlungaöld. Einar hefur að undanförnu ritað nokkuð um tengsl Sturlunga sögu og Njáls sögu og dustað rykið af þeirri tilgátu að Sturla Þórðarson (1214-1284), höfundur Íslendinga sögu úr Sturlungusafninu, sé höfundur Njálu. Ræddi hann við nemendur um þessa tilgátu og svo virtist sem það væri ekki nokkrum vafa undirorpið að Sturla hefði samið Njálu, slík væru líkindin með henni og fyrrnefndu verki hans. Ekki er þó víst að áheyrendur hafi allir sannfærst enda kom m.a. fram sú áleitna spurning hvort höfundarnir hafi hugsanlega getað verið fleiri en einn þar sem vinnubrögð sagnaritara á miðöldum voru giska ólík þeim sem nú tíðkast. Þessa iðju hefur Einar einmitt sviðsett í skáldsögu sinni, Skáld, sem kom út árið 2012 en þar er Sturla Þórðarson aðalpersónan.

Skáld er sem kunnugt er þriðji hluti af sagnabálki Einars þar sem viðfangsefnið er Sturlungaöld en fjórða bókin í þeim flokki er nú nýútkomin og ber titilinn Skálmöld. Þar er Sturla Sighvatsson, föðurbróðir Sturlu Þórðarsonar, aðalsöguhetjan.

Sjá einnig: „Hver var Sturla Þórðarson?“, http://www.visindavefur.is/svar.php?id=60305


Fréttasafn