26. mar. 2015

Stúdentspróf á þremur árum

 

Viðskiptaráð Íslands, sem hefur verið bakhjarl Verzlunarskólans áratugum saman, hefur lengi talað fyrir því að námstími til stúdentsprófs verði styttur um eitt ár. Með nýjum lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008 sköpuðust undirstöður sem nauðsynlegar eru til þess að leggja í slíka vegferð. Skólanefnd skólans og stjórnendur fengu það hlutverk að leggja mat á hvort ekki væri grundvöllur fyrir Verzlunarskólann að stytta námstímann til stúdentsprófs. Vorið 2013 var því samþykkt í skólanefnd Verzlunarskólans að fela skólastjóra að vinna að því að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár. Vinnan hófst af fullum krafti þá um haustið og komu yfir 50 starfsmenn að vinnunni í nokkrum hópum. Rík áhersla var lögð á að halda sömu gæðum og að sú menntun sem yrði í boði væri ekki síðri eða lakari á nokkurn hátt. Afraksturinn má sjá á heimasíðu skólans.

Allar brautir skólans eru nú þriggja ára námsbrautir til stúdentsprófs og munu fyrstu nemendurnir innritast á þær nú í vor 2015. Við undirbúning brautanna voru aðgangsviðmið háskólanna höfð til hliðsjónar og skólinn getur boðið upp á nám sem undirbýr nemendur á þremur árum fyrir hvaða nám sem er á háskólastigi.

Fréttasafn