2. okt. 2015

Velheppnað foreldrakvöld

  • Foreldrafundur

Metaðsókn var á foreldrakvöld Foreldráðs VÍ síðastliðinn þriðjudag en um 200 manns mættu enda dagskráin ekki af verri endanum. Fulltrúar NFVÍ fluttu góða kynningu á stórbrotnu félagslífi vetrarins í máli og myndum og Páll Ólafsson félagsráðgjafi, flutti áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur um jákvæð samskipti foreldra og unglinga. Framsetning hans og túlkun á mikilvægum atriðum og ráðum voru frábær, hlátrasköllin voru allsráðandi enda gátu margir sett sig í þær aðstæður sem Páll tók fyrir. Hægt er að nálgast glærur Páls á facebooksíðu hans „Jákvæð samskipti“.

Mikill fjöldi foreldra gaf kost á sér í ballgæslu vetrarins sem er til fyrirmyndar og þakkarvert - auk þess bárust nokkur ný framboð í stjórn foreldrafélagsins. Munu þeir einstaklingar bætast í hóp þeirra foreldra sem halda áfram í foreldraráðinu.

Ársskýrsla og fundargerð frá aðalfundinum verður fljótlega sett á síðu foreldrafélagsins sem er á heimasíðu Verzlunarskólans sem og ljósmyndir frá kvöldinu inn á facebooksíðu foreldrafélagsins.

Allir foreldrar eru hvattir til að greiða valfrjálsa félagsgjaldið, 1500 kr. sem fyrst en það ætti að vera komið í heimabanka allra. Með félagsgjaldinu getur foreldraráðið staðið undir enn öflugra foreldrastarfi í vetur t.a.m. með áhugaverðum viðburðum og með veglegum vinningum í edrúpottinum.

Foreldraráð þakkar öllum sem sáu sér fært að mæta fyrir komuna og skemmtilega samveru.

Fréttasafn