Stafsetningarkeppni var haldin á Marmaranum í hádeginu í dag í tilefni af Degi íslenskrar tungu
Stafsetningarkeppni var haldin á Marmaranum í hádeginu í dag í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Það var Málfundafélag V.Í. sem hafði veg og vanda af keppninni. Sex nemendur komu í pontu og fengu úthlutað orðum sem stafsetja átti í heyranda hljóði auk þess sem gefa þurfti dæmi um notkun þeirra í íslensku máli. Fengu keppendur m.a. að spreyta sig á orðum eins og „ímugustur“, „þrákelkni“ og „stássstofa“.
Keppendur stóðu sig með miklum ágætum en í lokaeinvígi hafði Geir Zoega sigur úr býtum. Hlaut hann í verðlaun bókina Orð að sönnu, sem geymir upplýsingar um íslensk orðtök og málshætti.
Dómnefnd skipuðu Ólafur Víðir Björnsson, Gunnar Skarphéðinsson og Guðrún Ingibjörg Karlsdóttir íslenskukennarar. Stjórnandi var Magnús Jóhann Ragnarsson formaður Málfundafélagsins.