14. maí 2020 : Spænsku- og enskukennari

Kennari í spænsku:
Auglýst er eftir kennara í 100% starf í spænsku. Umsækjandi þarf að hafa háskólapróf í spænsku eða skyldum greinum.

Kennari í ensku:
Auglýst er eftir kennara í 100% starf í ensku. Umsækjandi þarf að hafa háskólapróf í ensku eða skyldum greinum.

Við bjóðum:
Góða vinnuaðstöðu.
Góðan starfsanda á framsæknum vinnustað.

14. maí 2020 : Brautskráning 23. maí kl 14:00

Brautskráning stúdentsefna fer fram í Verzlunarskóla Íslands laugardaginn 23. maí nk. kl. 14. Athöfnin verður snertilaus og send út í beinni útsendingu á verslostudent.is þar sem nemendur og aðstandendur geta fylgst með athöfninni. Engir gestir fyrir utan nýstúdentana verða leyfðir inni í skólahúsinu. Gera má ráð fyrir að athöfnin taki um 2 klst.

14. maí 2020 : Opið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Forsætisráðuneytið vekur athygli á að opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13 til 18 ára frá öllum landshlutum. Valdir verða tíu nýir fulltrúar í ráðið sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna frá og með september 2020 og út vorönn 2021. Tveir fulltrúar frá fyrra starfsári munu halda sæti sínu í ráðinu. Ungmennaráðið mun funda sex sinnum á höfuðborgarsvæðinu og þess á milli í gegnum fjarfundabúnað. Þá mun ungmennaráðið jafnframt funda einu sinni með ríkisstjórninni. Umsóknarfrestur er til og með 24. maí 2020. Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum ungmennarad@for.is

6. maí 2020 : LÚVÍ 2020

LÚVÍ, Listahátíð útskriftarnema á Nýsköpunar- og listabraut, er að þessu sinni haldið á netinu. Opnun hátíðarinnar er 6. maí og stendur frá kl. 14 – 15:30 en á þeim tíma raðast listaverkin inn á viðburðinn (sjá dagskrá). Hátíðin verður svo opin fyrir gesti fram að útskriftardegi þann 23. maí.

6. maí 2020 : Nemendur í áfanganum Umhverfisfræði keppa til úrslita í dag

Nemendur í áfanganum Umhverfisfræði eru komnir í undanúrslit í keppni á vegum Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar. Tíu framhaldsskólar tóku þátt í samkeppninni og verða þau bestu verðlaunuð í dag. Verðlaunaafhendingin hefst klukkan 13:00 og verður viðburðinum streymt. Við hvetjum alla áhugasama til þess að horfa á streymið sem má nálgast hér. 

4. maí 2020 : Skápar og dót úr kennslustofum

Nemendur geta komið og nálgast dót sitt úr kennslustofum og skápum á miðvikudaginn (6. maí) frá 13-15 og fimmtudaginn (7. maí) frá 11-13.

Gengið er inn hjá vaktmanni (hjá íþróttahúsi) sem opnar fyrir nemendum.

4. maí 2020 : Náms-og starfsráðgjafar í prófunum

Í prófatímanum verða náms- og starfsráðgjafar í húsi milli klukkan 10-12. Einnig er hægt að setja sig í samband við þá í gegnum Teams eða tölvupóst, eftir samkomulagi.  

3. maí 2020 : Stúdentafagnaði frestað

Fyrirhuguðum stúdentafagnaði sem vera átti 15. maí 2020 hefur verið frestað til haustsins. Nánari dagsetning verður auglýst síðar.

2. maí 2020 : Úrslit Fyrirtækjasmiðjunnar 2020 - Fyrirtæki ársins og aðrir verðlaunahafar

Nemendur Verzlunarskólans voru í fyrsta og öðru sæti í fyrirtækjakeppni Ungra frumkvöðla. Í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla stofna nemendur og reka eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Að þessu sinni vann fyrirtækið Dyngja sem stofnað var af þremur strákum í 3-E þeim Magnúsi Benediktssyni, Jóni Hauki Sigurðarsyni og Alexander Sigurðarsyni. Þeir útbjuggu fjárfestingarapp sem leyfir notendum sínum að fjárfesta með gervipening á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Í öðru sæti var fyrirtækið Piskís sem framleiðir hunda og kattanammi úr þorskroði og eru það nemendur úr 3-D sem standa á bak við það þau Andri Már, Gunnar Axel, Rebekka Berta og Hrund. Auk þess voru tvö önnur fyrirtæki frá Verslunarskólanum sem unnu til verðlauna í keppninnni, Vösk fyrir umhverfisvænustu lausnina og Rætur sem fékk verðlaun fyrir samfélagslega nýsköpun. Við erum mjög stolt af þessum nemendum og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

27. apr. 2020 : Bókasafn VÍ opið í prófunum

Bókasafn VÍ verður opið í prófunum. Til að framfylgja reglum um fjöldamörk samkomubanns og tveggja metra reglunni þurfa nemendur að bóka tíma á bókasafnið. Nemendur geta bókað sig í annaðhvort fyrra hólf (10:00-13:00) eða seinna hólf (13:00-16:00). Nemendur hringja í Klöru bókasafnsstjóra í síma 6912079 til að fá úthlutaðan tíma. 

Sjá nánari upplýsingar hér. BÓKASAFN VÍ

20. apr. 2020 : Útgáfa Verzlunarskólablaðsins

Föstudaginn 17. apríl sl. var útgáfudagur Verzlunarskólablaðsins. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu nemendur fyllt hátíðarsal skólans og tekið þátt í hátíðlegri athöfn útgáfunnar. Ritnefndin stóð ekki aðgerðalaus og bauð nemendum skólans í rafrænt útgáfuhóf þar sem hægt var að horfa á athöfnina í gegnum síma eða tölvu. Að loknu útgáfuhófinu var nokkurs konar bílalúgu komið upp á bílastæði skólans þar sem ritnefndin afhenti blaðið beint í bílinn til nemenda.

Vel gert ritnefnd Verzlunarskólablaðsins og til hamingju með Verzlunarskólablaðið!

Síða 2 af 60