16. sep. 2021 : Heimboð í Verzló fyrir forráðamenn nemenda á 2. ári

Forráðamönnum nemenda á 2. ári er boðið í skólann mánudaginn 20. september klukkan 17:00. Við óskum eftir því að aðeins einn forráðamaður mæti frá hverjum nemenda. Kynning á skólanum fer fram í Bláa sal (2. hæð) þar sem farið verður yfir ýmis atriði sem lúta að námi við skólann. Jafnframt mun fulltrúi frá stjórn NFVÍ segja frá því sem ber hæst á árinu.

Grunnthaettir-menntunar

10. sep. 2021 : Grunnþættir menntunar í Verzló

Mikilvægur þáttur í skólastarfi Verzlunarskóla Íslands er að meta starfið og sjá hvað vel er gert og gera umbætur þar sem þurfa þykir. Síðastliðið vor var efnt til starfsdags meðal starfsmanna skólans til að rýna í hvernig og hversu mikið unnið er með grunnþætti menntunar. Grunnþættir menntunar birtast í menntastefnu Aðalnámskrá framhaldsskólanna frá 2011 sem reist er á sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og loks sköpun. Þessum sex grunnþáttum er ætlað að fléttast inn í allt skólastarfið. Við gerð námskrár skólans sem tók gildi árið 2015 var sérstaklega tekið mið af grunnþáttunum og þótti því áhugavert að sjá hvernig til hefði tekist nokkrum árum síðar. Fyrir áhugasama má lesa nánar um grunnþætti menntunar á blaðsíðu 14 í Aðalnámskrá framhaldsskólanna.

Á starfsdeginum rýndu fögin í áfanga sína og stoðdeildir skólans í skólastarfið sem birtist fyrir utan skólastofurnar. Þátttakendur voru beðnir um að skrifa með hvaða hætti unnið væri með hvern og einn grunnþátt í áföngunum eða í öðru sem sneri að skólastarfinu og gefa hverjum þætti einkunn frá einum til fimm. Einkunnir sem starfsfólk skólans gaf grunnþáttunum sést á kökuritinu hér fyrir neðan.

10. sep. 2021 : Viðhaldsúttekt jafnlaunakerfis Verzlunarskóla Íslands 2021

Fyrir ári síðan fékk skólinn jafnlaunavottun og í júní sl. fór fram viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu sem skólinn stóðst án athugasemda. 

Verzlunarskóli Íslands starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til allra starfsmanna Verzlunarskólans. Markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með þessu á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni. Jafnlaunakerfi Verzlunarskóla Íslands hefur hlotið vottun frá vottunarstofunni iCert og í kjölfarið hefur Jafnréttisstofa veitt skólanum heimild til að nota Jafnlaunamerkið. Jafnlaunamerkið er skráð vörumerki og er því ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir feli ekki í sér kynbundna mismunun.

10. sep. 2021 : Núvitundarstundir fyrir nemendur og starfsmenn

Skólinn býður nemendum og starfsmönnum upp á hugleiðslu og núvitund á önninni en verkefnið er eitt af þeim þróunarverkefnum sem skólinn stendur fyrir.

Markmið verkefnisins er að nemendur og starfsmenn staldri við í önnum dagsins og finni hvernig iðkun núvitundar og hugleiðslu eykur vellíðan í leik og starfi.

Verkefninu stýrir Kristín Norland kennari við skólann, sem hefur aflað sér sérþekkingar í núvitundarfræðum.

6. sep. 2021 : Veikindatilkynningar í INNU

Ekki er lengur tekið við fjarvistarskráningu í síma heldur skulu foreldrar og forráðamenn ólögráða nemenda tilkynna veikindi nemenda í INNU. Tilkynna skal alla veikindadaga samdægurs. Lögráða nemendur tilkynna sjálfir veikindi sín samdægurs í INNU. Misfarist skráning skal senda tölvupóst á verslo@verslo.is. Alvarleg veikindi þarf aðeins að tilkynna í upphafi, enda skili nemandi læknisvottorði strax og skólasókn hefst að nýju. Nemendur geta leitað aðstoðar og fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa á skrifstofu skólans.

Þurfi nemandi leyfi í einstaka tímum að degi til, t.d. vegna tannlæknatíma eða ökuskóla, nægir að koma með kvittun þar að lútandi á skrifstofu skólans. Fjarvistarskráning er svo lagfærð eftir á þegar nemandi hefur skilað inn staðfestingu.

1. sep. 2021 : Tveir fyrrverandi nemendur VÍ fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Síðastliðinn mánudag tóku tveir fyrrverandi nemendur Verzlunarskólans, þau Auðun Bergsson og Kolbrún Sara Haraldsdóttir, við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum.

Verzlunarskólinn óskar þeim til hamingju.

30. ágú. 2021 : Kynningarfundur með foreldrum og forráðamönnum nýnema

Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema verður haldinn í skólanum (Bláa sal) mánudaginn 6. september. Fundurinn verður tvískiptur vegna fjöldatakmarkana og óskum við eftir að aðeins einn forráðamaður frá hverjum nemanda mæti á fundinn. Fundurinn er klukkan 17:00 fyrir foreldra/forráðamenn nemenda á viðskiptabraut og lista- og nýsköpunarbraut og klukkan 18:00 fyrir foreldra/forráðamenn nemenda á náttúrufræðibraut og alþjóðabraut.

Dagskráin hefst á ávarpi skólastjóra en að því loknu verður farið yfir ýmis atriði sem lúta að námi við skólann. Að því loknu munu fulltrúar frá stjórn NFVÍ og foreldrafélagsins segja frá því sem þar ber hæst á árinu.

30. ágú. 2021 : Útskrift

Föstudaginn 27. ágúst voru sex nemendur útskrifaðir frá Verzlunarskóla Íslands.

Arna Guðjónsdóttir Stúdentspróf
Birna Ósk Gunnarsdóttir Fagpróf í verslun og þjónustu
Björgvin Haukur Bjarnason Stúdentspróf
Hinrik Ari Laufdal Ingólfsson Stúdentspróf
Höskuldur Freyr Sveinsson Stúdentspróf
Thea Möller Þorleifsson Stúdentspróf

 

24. ágú. 2021 : Kynningarfundi fyrir foreldra og forráðamenn frestað

Kynningarfundur fyrir foreldra og forráðamenn sem átti að halda fimmtudaginn 26. ágúst hefur verið frestað vegna fjöldatakmarkana. Ný dagsetning verður auglýst síðar.

23. ágú. 2021 : Snara.is

Nemendur skólans hafa aðgang að uppflettiritum Snöru frá staðarneti skólans. Nemendur sem kjósa að kaupa aðgang að Snöru heimavið geta fengið ársaðgang á aðeins 990 kr. Nemendur þurfa skrá sig inn á Snöru með Microsoft-innskráningu og skólanetfanginu. Opna Snöru, smella á „Innskráning“, smella á „Innskrá með Microsoft“ og skrá sig inn með skólanetfanginu.

23. ágú. 2021 : Skólinn settur í 117. skipti og móttaka nýnema

Verzlunarskóli Íslands var settur þann 19. ágúst síðastliðinn í 117. skipti. Guðrún Inga Sívertsen nýráðinn skólastjóri, setti skólann. Samtals eru 1058 nemendur skráðir í dagskóla á þessari önn og af þeim eru 362 nýnemar sem skiptast niður í 14 bekki.
Að skólasetningu lokinni fengu nýnemar kynningu á ýmsum þáttum varðandi skólastarfið. Þeir hittu til að mynda umsjónarkennara sína og fóru í myndatöku fyrir Innu. Jafnramt fóru nýnemar í svokallaða hringekju þar sem umsjónakennarar fóru með nemendur í hring um skólann þar sem þeir hittu meðal annars nemendaþjónustuna og kíktu í heimsókn á bókasafnið. Mikil spenna og eftirvænting var meðal nýnema og var ekki betur séð en að þeir hefðu farið út með bros á vör.

23. ágú. 2021 : Bókasafn VÍ

Bókasafnið er staðsett á fjórðu hæð skólans. Mjög góð vinnuaðstaða er fyrir nemendur, þar sem nemendur geta annars vegar valið sér einstaklingsborð og hins vegar lítil og stór hópvinnuborð. Á safninu eru sæti fyrir 110 nemendur, þar er einnig hópvinnuherbergi sem nemendur hafa aðgang að. Á neðri hæð bókasafnsins er lesstofan okkar, þar eru 30 lesbásar og á því svæði ríkir mikill vinnufriður.

Síða 2 af 70