26. okt. 2022

Poppmenning í Madríd

Hópur af nemendum í spænska valfaginu Poppmenning fór til Madrídar í vetrarfríinu.

Ferðin hófst á göngutúr um Madríd þar sem kennararnir Sigrún Björk og Eva Ösp sýndu nemendum miðbæinn og kenndu á metro. Einnig var farin dagsferð til Toledo, þar sem leiðsögumaður frá svæðinu leiddi hópinn um bæinn og fræddi  um þann suðupott menningar sem borgin var fyrr á öldum, en þar bjuggu saman kristnir, múslimar og gyðingar. Nemendur gæddu sér á tapas, churros og paella sem eru frægustu réttir spænskrar matarmenningar og kom það þeim á óvart hvað maturinn smakkaðist vel.

Á laugardeginum var farið í ratleik um Madríd sem kennararnir undirbjuggu með forritinu Actionbound. Þannig sáu nemendur nokkra þekktustu staði Madrídar, eins og konungshöllina og Plaza de España. Í leiknum þurftu þeir einnig að leysa ýmsar þrautir, svara spurningum og tala á spænsku. Fótboltaleikur milli Madrídar og Sevilla fór fram í Madríd og nemendur tóku þátt í stemningunni og horfðu saman á leikinn.

Markaðurinn Mercado San Miguel var skoðaður og nemendur unnu í verkefnavinnu tengdum áfanganum. Safnið El Prado var heimsótt og farið í göngutúr um almenningsgarðinn El Retiro áður en haldið var heim.

Nemendurnir voru allir til fyrirmyndar og kennararnir mjög stoltir og ánægðir með hópinn og ferðina.

Fréttasafn