Quidditch mót
Hið árlega Quidditch mót Versló var haldið í fyrsta skipti í hádeginu miðvikudaginn 26. október. Keppnin var hörð. Fyrsti leikurinn var milli Slytherin og Ravenclaw og höfðu þeir fyrrnefndu sigur, eftir að þeir náðu gullnu eldingunni, 40-10. Leikmenn Slytherin gengu nokkuð hart fram og einhverjir höfðu á orði að þeir hefðu beitt svartagaldri, en dómarinn varð ekki var við neitt slíkt.
Næsti leikur var milli Hufflepuff og Gryffindor, ekki síður spennandi leikur, enda ákafafólk í báðum liðum. Snemma seig aðeins á ógæfuhliðina hjá Gryffindor (þó vissulega sé það besta og mikilvægasta vistin, um það er ekki deilt) og gengu Hufflepuffliðar fram af mikilli festu og höfðu sigur 50-20.
Úrslitaleikurinn var svo milli Slytherin og Hufflepuff – æsispennandi leikur, voru þar mikil tilþrif sýnd og mikið hlaupið. Hafi Slyterinliðar verið með eitthvert kukl virkaði það ekki því Hufflepuff sigraði nokkuð örugglega, 50-20.
Allmargir áhugamenn um þessa göfugu íþrótt sóttu viðburðinn og var það ljóst að stuðningsmenn Hufflepuff höfðu sig mest í frammi. Ljóst má telja að í þessum hópi gæti leynst framtíðarlandsliðsfólk í íþróttinni. Dómgæslu sinnti Ármann Halldórsson af yfirvegun og öryggi, og línuverðir voru Helga Benediktsdóttir og Rebekka Árnadóttir. Maður dagsins er líklega Daði Pálsson sem stóð svo sannarlega undir nafni sem gullna eldingin.