25.09.2025 Skólaheimsón írskra nemenda frá Wilson‘s Hospital School Dagana 11. – 15. september tók Verzlunarskóli Íslands á móti nemendum frá Wilson’s Hospital School á Írlandi. Írsku nemendurnir dvöldu hjá íslenskum nemendum á öðru og þriðja ári og fengu tækifæri til að kynnast bæði skólastarfinu og íslenskri menningu. Í heimsókninni sátu gestirnir íslenska tíma í skólanum og upplifðu daglegt skólastarf. Þeir fóru einnig í draugagöngu um miðbæ Reykjavíkur og nutu slökunar í Sky Lagoon. Á laugardeginum var boðið upp á skemmtidagskrá og sameiginlegan kvöldverð í skólanum þar sem hóparnir blönduðust saman. Á sunnudeginum var farið í hina klassísku ferð um Gullna hringinn, þar sem hópurinn heimsótti meðal annars Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Einnig var komið við í Friðheimum þar sem nemendur snæddu saman hádegisverð. Heimsóknin var hluti af jarðfræðiferð írsku nemendanna, en íslensku nemendurnir nýttu tækifærið til að æfa sig í ensku og kynnast nýjum vinum. Ferðin heppnaðist afar vel og var öllum til mikillar ánægju. Í lok febrúar á næsta ári heldur íslenski nemendahópurinn til Írlands og mun dvelja á heimilum írsku nemendanna í fjórar nætur. Þar munu nemendur kynnast írsku skólalífi, ruðningi, skólabúningum, Dublin og ýmsu fleira.