19. okt. 2022

Skólaþróunarverkefni

Strax eftir vetrarfríið, þann 25. október, munu allir nemendur á 1. ári taka þátt í tveggja vikna þróunarverkefni. Um er að ræða samþættingarverkefni dönsku, ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkunar. Yfirskrift verkefnisins er samvinna og sjálfræði og grunnurinn er heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nemendur munu vinna í teymum og fá þeir tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður.

Hugmyndafræðin að baki verkefninu er meðal annars sótt í aðalnámskrá framhaldsskóla, stefnu Verzlunarskólans, skólaþing og nýlegar íslenskar og erlendar menntarannsóknir. Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.

Allir nemendur á 1. ári mæta í Bláa sal þriðjudaginn 25. október kl. 8:30 þar sem verkefnið verður kynnt og því formlega hleypt af stokkum.   

Fréttasafn