16. ágú. 2020

Stundatafla, valgreinar og sóttvarnarhólf

Stundatafla nemenda er nú aðgengileg á INNU. Stundataflan er með breyttu sniði hvað varðar lengd kennslustunda og fjölda tíma í töflu í hverjum áfanga fyrir sig. Hver áfangi (fyrir utan lífsleikni og íþróttir) er með 2 tíma í töflu sem hvor um sig er 75 mínútur. Annar tíminn er skráður á stofu sem heitir HEIMA og þýðir það að viðkomandi tími verður kenndur í fjarkennslu. Hinn tíminn er skráður á tvær kennslustofur og þýðir það að viðkomandi tími verður kenndur í skólanum og nemendum bekkjarins verður skipt niður í þessar tvær kennslustofur. Þrátt fyrir þessar breytingar í stundatöflu er gert ráð fyrir að yfirferð á námsefni sé það sama og venjulega. Kennarar skipuleggja yfirferð og verkefnavinnu með þetta nýja fyrirkomulag í huga. Nemendur þurfa að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og nálgast viðfangsefni sín með opnum huga.

Nemendur á 3ja ári sjá nú valgreinar sínar í stundatöflunni. Fyrst um sinn verða valgreinar alfarið kenndar í fjarkennslu þar sem mikil blöndun nemenda er í þeim hópum.

Kennsla hefst í skólanum samkvæmt þessari nýju stundatöflu á miðvikudaginn. Taflan er byggð þannig upp að aðeins einn árgangur er í skólanum hverju sinni. Það þýðir einnig að einungis er hluti kennara skólans í húsi hverju sinni. Skólanum hefur verið skipt upp í 7 sóttvarnarhólf til að uppfylla 100 manna samkomutakmarkanir. Hver bekkur fær tilkynningu í tölvupósti með upplýsingum um hvaða inngang á að nota þegar komið er í skólann og þegar farið er heim að lokinni kennslu.

Framkvæmd þessa nýja fyrirkomulags kallar á mikla samvinnu nemenda og starfsmanna skólans. Nemendur eru beðnir að virða þær reglur að samgangur á milli sóttvarnarhólfa er ekki leyfður. Matbúð, mötuneyti nemenda er lokuð og eru nemendur hvattir til að koma með nesti. Skólinn er tvísetinn og það þýðir að sá árgangur sem mætir í staðkennslu fyrir hádegi þarf að yfirgefa skólann strax að loknum síðasta tíma fyrir hádegi. Árgangurinn sem mætir eftir hádegi má mæta í skólann 15 mínútur áður en kennsla hefst. Þetta eru nauðsynlegar ráðstafanir svo hægt sé að sótthreinsa svæði á milli hópa.

Skólanum er skipt upp í 8 hólf vegna fjöldatakmarkana. Hvert hólf hefur sinn sérstaka inngang (og sama útgang) og það má ekki fara aðra leið inn í skólann en þá sem tilheyrir hólfinu. Aldrei eru fleiri en tveir bekkir saman í sóttvarnarhólfi. Hverjum bekk er skipt í tvær stofur og eru einungis 14 nemendur í hvorri stofu.

Hólfin eru eftirfarandi:

  • Hólf 1: stofur 4-5 og 6-7: Inngangur á Marmara og beint upp í stigahúsið á vinstri hönd.
  • Hólf 2: stofur, 11-12, 13-14: Gengið inn hjá nemendakjallara og beint upp á 4. hæð.
  • Hólf 3: 401-406, 402-405: Gengið inn hjá bílastæði kennara og þaðan inn í nýbyggingu
  • Hólf 4: Salts-SH og SÍF-VR: Inngangur á Marmara og beint í stigahúsið á vinstri hönd
  • Hólf 5: 301-306, 302-305: Gengið inn hjá bílastæði kennara og þaðan inn í nýbyggingu
  • Hólf 6: Hagkaup-Hafskip, Eimskip-Flugleiðir: Gengið inn hjá íþróttahúsi/vaktmanni
  • Hólf 7: 201-206, 202-205: Inngangur fyrir aftan hús, milli Versló og Verkís. Farið upp um brunastigann.

Athugið að nemendur mega alls ekki fara á milli sóttvarnarhólfa. Það er til þess að minnka líkur á hópsmiti ef upp kemur smit á innan skólans. Einnig er mikilvægt smitrakning gangi vel ef upp kemur grunur um smit á meðal nemenda.

Fréttasafn