Alþjóðafræði

Námsgreinarnar: Alþjóðafræði (7 ein), alþjóðahagfræði (2 ein) og menningarfræði (6 ein).

Inngangur

Markmið með kennslu í alþjóðagreinum (alþjóðafræði, alþjóðahagfræði og menningarfræði) er að auka möguleika nemenda á að takast á við viðfangsefni sem tengjast alþjóðasamskiptum í síbreytilegum heimi. Með auknum samskiptum við aðrar þjóðir, bæði hvað snertir viðskipti, nám, hreyfanleika á atvinnumarkaði og frístundir er mikilvægt að kynna framhaldsskólanemum umheiminn í víðu samhengi. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist viðskipta- og menningarumhverfi þeirra þjóða og heimsálfa sem Íslendingar eiga mest samskipti við. Tilgangurinn er að auka þekkingu og skilning nemenda á ólíkum viðmiðum og aðstæðum manna í margbreytilegum heimi sem einkennist í æ ríkari mæli af hnattvæðingu og ört vaxandi samskiptum á sviði menningar- og markaðsmála. Enn fremur að efla sjálfstæði nemenda og gagnrýna hugsun með það í huga að auka víðsýni og jákvætt viðhorf til umheimsins. Þessi þekking nýtist nemendum á margvíslegan hátt í daglegu lífi, bæði í starfi og námi.
Meginmarkmið með kennslu í alþjóðafræði er að auka þekkingu nemenda á tilteknum þáttum í eigin þjóðfélagi og þeim löndum Evrópu og annarra álfa, sem við höfum veruleg samskipti við, svo þeir geti gert sér grein fyrir stöðu Íslands í alþjóðaumhverfinu.

Lokamarkmið:

  • stefnt skal að því að nemendur fái innsýn í menningu helstu viðskiptalanda okkar og viti deili á helstu alþjóðastofnunum.
  • stefnt skal að því að þroska með nemendum virkni, sköpun og ábyrgð á eigin námi með því að nota vinnuaðferðir sem reyna á þessa þætti.
  • stefnt skal að því að auka vægi erlendra tungumála með því m.a., að auk beinnar kennslu í tungumálunum, verði hluti af námsefninu á ensku, Norðurlandamálum og, að eins miklu marki og mögulegt er, á þriðja tungumáli (frönsku/þýsku).

Kennsluhættir:

Efnið er kennt með fyrirlestrum, umræðum, verkefnavinnu, leit að upplýsingum á Netinu og samskiptum nemenda við aðra á Netinu. Lögð er áhersla á að nemendur sýni frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum. Verkefnavinnan skiptist í einstaklingsverkefni og hópverkefni sem krefjast agaðra vinnubragða og samvinnu.
Með verkefnavinnu næst:

  • sjálfstæði í vinnubrögðum
  • ábyrgð á eigin verki (námi)
  • sköpun
  • samþætting námsgreina
  • tjáning í máli og ritun

 

Alþjóðafræði (7 ein)

Markmiðið er að veita nemendum innsýn í viðskiptaumhverfi bæði Evrópulanda og landa annarra álfa. Jafnframt að efla sjálfstæði í vinnubrögðum, en ekki síður að stuðla að virkni og áhuga nemenda á eigin umhverfi í tengslum við önnur þjóðfélög. Nemendur munu afla sér upplýsinga og vinna með efni sem tengir Ísland umheiminum.
Til þess að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð verða mörg verkefni unnin og gjarnan í tengslum við erlendar menntastofnanir. Lögð verður áhersla á að verkefnin séu raunhæf og gerðar verða verulegar kröfur til nemenda um öguð vinnubrögð.
Nemendur þurfa að vera reiðubúnir til að taka á móti erlendum gestum og fara í heimsóknir í tengslum við alþjóðaverkefni og greiða þann kostnað sem því fylgir.

Alþjóðahagfræði (2 ein)

Hagfræðigreinar fjalla um efni sem snerta daglegt líf allra einstaklinga, hver sem staða þeirra og hlutverk er í samfélaginu. Hagfræðileg og viðskiptaleg efni eru stöðugt til umfjöllunar í fjölmiðlum og samtölum fólks. Þjóðhagfræðin fæst við grundvallarspurningar og tekur fyrir helstu stofnanir efnahagslífsins og skoðar samspil þeirra. Efnahagsþróun og helstu markmið og leiðir í stjórn efnahagsmála eru veigamikil umfjöllunarefni í alþjóðahagfræði.

Menningarfræði (7 ein)

Markmiðið er að kynna nemendum samfélög þeirra þjóða og heimsálfa sem Íslendingar eiga mest samskipti við. Áhersla er lögð á menningu, siði, hugmyndaheim og stjórnarhætti, samspil þessara þátta, rætur og þróun.
Í náminu er leitað fanga í ólíkum fræðigreinum til að varpa ljósi á mismunandi samfélagsþætti og má þar nefna heimspeki, sögu, félagsfræði, stjórnmálafræði, mannfræði, landafræði og bókmenntir.
Markmið námsins er enn fremur að efla sjálfstæða vitund nemenda um umhverfi sitt, stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum og auka víðsýni þeirra gagnvart fjölbreytileika í menningu og siðum þjóða.