MEN103

Markmið

Að nemendur • kynnist menningu, siðum, hugmyndaheimi og stjórnarháttum þeirra þjóða sem lagt hafa mest til evrópskrar menningar, þ.á.m. íslenskrar, og samspili þessara þátta. • öðlist sjálfstæða vitund um umhverfi sitt, réttindi og skyldur, stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum og víðsýni gagnvart fjölbreytileika í menningu og siðum þjóða. • þekki hugtök sem notuð eru í umræðu um þjóðmenningu og alþjóðamenningu. • öðlist skilning á menningarlegum margbreytileika í samfélagi manna.

  • geri sér grein fyrir því hvernig reynsla, hugsun og tjáning manna mótast og kemur fram, meðal annars í margvíslegum greinum lista og fræða
  • þekki hugtök á borð við frelsi, lýðræði og sjálfstæði og geti beitt þeim
  • geri sér grein fyrir hugmyndum Vesturlandaþjóða um stjórnskipan og áhrif þeirra
  • öðlist færni til að afla sér upplýsinga og meta þær með aðstoð margvíslegra miðla
  • efli með sér hæfni til sjálfstæðis í hugsun og vinnubrögðum sem og samstarfs
  • þjálfist í að meta umhverfi sitt og eigin hugmyndir á uppbyggilegan hátt í krafti þekkingar og skarprar hugsunar

Kennsluhættir

Margvíslegum aðferðum er beitt til að ná settum markmiðum. Kennsla fer meðal annars fram með fyrirlestrum, þar sem kennari kynnir viðfangsefni og leggur út af því, og notar til þess glærur, kort og myndefni. Ýmiss konar verkefnavinna nemenda (fyrirlestrar og framsöguerindi þar með talin) og samræða samkvæmt leiðbeiningum kennara eru mikilvægur hluti námsins.

Námslýsing

Í áfanganum er fjallað um menningu og menningarhugtakið út frá ólíkum sjónarhornum. Leitar er fanga í ólíkum fræðigreinum, t.d. hugmyndasögu, félagsfræði, bókmenntafræði, listfræði og kvikmyndafræði, til að varpa ljósi á mismunandi birtingarmyndir menningar.

Efnisatriði

Hugtök sem notuð eru til umfjöllunar um menningu. Mikilvægir þættir í menningarsögu Vesturlanda. Hugmyndir og umræður um þjóðernishyggju og ólík sjónarhorn á viðfangsefnið ,,þjóð". Sérstök áhersla er lögð á umfjöllun um Ísland og Íslendinga í þessu samhengi.

Námsmat

Mat fyrir áfangann byggist á eftirfarandi þáttum: Lokapróf í desember: 60%, annarpróf, verkefni og ástundun: 40%. Lágmarkseinkunn á lokaprófi til að standast áfangann er 4,5 án námundunar. Lágmarkslokaeinkunn (vegið meðaltal lokaprófs og vinnueinkunnar) er 5,0 (sbr. skólareglur).