NÁT123

Markmið

nemendur: • þekki atómkenninguna og þróun hennar, öreindir og meginatriði í gerð frumefna, geti gert grein fyrir megingerðum efnasambanda og efnahvarfa, geti sett upp einfaldar efnajöfnur, og þekki meginatriðin í uppsetningu lotukerfisins og hvaða upplýsingar er þar að finna. • öðlist skilning á meginatriðum varðandi einkenni og samsetningu gufuhvolfsins, geti útskýrt loftþrýsting og átti sig á breytingum sem efnamengun í andrúmslofti getur valdið. Einnig að þeir geti gert grein fyrir hringrás vatns við yfirborð jarðar og vatnsorkuvirkjunum. • þekki meginatriði aflfræðinnar og séu færir um að framkvæma einfalda aflfræðiútreikninga • þekki orkuhugtakið, varðveislulögmál orkunnar, tengsl orku og efnis, helstu orkumyndir, orkuframleiðslu og orkunotkun. Lögð er sérsök áhersla á að nemendur geri sér grein fyrir meginatriðum í framleiðslu og nýtingu orku hér á landi. • kunni skil á rafsegulbylgjum, náttúrulegri geislavirkni, kjarnorku og sólarorku, og öðlist nokkra þekkingu á kjarnorkuverum og nýtingu sólarorku, til dæmis sólarrafhlöðum. • öðlist þjálfun í skýrslugerð og tölfræðilegri úrvinnslu gagna.

Kennsluhættir

Hefðbundin kennsla fer fram í kennslutímum, þar sem hvatt er til umræðu og fyrirspurna eftir því sem tilefni gefast til. Auk þessar eru verklegar æfingar í raungreinastofu. Í raungreinastofu er tölvubúnaður sem gerir nemendum kleift að hefja skýrslugerð og útreikninga jafnframt tilrauninni. Lögð er áhersla á að nemendur noti tölvuforrit (t.d. Excel) við úrvinnslu niðurstaðna. Nemendum er ætlað að tileinka sér og öðlast skilning á efni kennslutexta og viðbótarefni sem fram kemur í kennslustundum. Einnig eiga þeir að ná tökum á skýrslugerðarformi og tölfræðilegri úrvinnslu gagna í verklegum tilraunum.

Námslýsing

Megináhersla er lögð á eftirfarandi þætti: •Grundvallaratriði efnafræðinnar, svo sem lotukerfið, atómið, efnasambönd og efnahvörf. Einig eðli vatns, hringrás vatns og andrúmsloftið. •Meginatriði aflfræðinnar, orka, orkunotkun, rafsegulbylgjur, geislavirkni og kjarnorku.

Efnisatriði

Saga vísindanna, grunneiningar, markverðir stafir og eðlismassi. Atómkenningin, atóm og sameindir, frumefni, lotukerfið, öreindir, samsætur, efnasambönd, efnajöfnur, sameindir, jónir, efnablöndur, efnahvörf, formúlumassi, mól og mólmassi. Lögmál Newtons, hreyfing, hraði, hröðun, hemlunarvegalengd, massi og þyngd, núningskraftur, stöðuorka, hreyfiorka, frjálst fall, vinna,rafmagn og orkulögmálið. Hringrás vatns, varmaorka, eðlisvarmi, fasaskipti, raforkuframleiðsla og orkuflutningur. Lofthjúpurinn, gróðurhúsaáhrif og ósonlagið, jarðeldsneyti, loftmengun, vistvænir orkugjafar, rafgreining, kjarnorka, efnarafalar og rafhlöður. Sólarorka, vindorka, vetnisframleiðsla, metangas sem eldsneyti. Rafsegulbylgjur. Innlendir orkugjafar á farartæki, rafhlöður, efnarafalar, rafgreining.

Námsmat

Skriflegt lokapróf í lok annar gildir 70%. Áfangapróf, heimaverkefni o.fl. gilda 30%. Til að vinnueinkunn reiknist inn í lokaeinkunn þarf nemandi að hafa leyst 45% lokaprófsins rétt.