Spurt og svarað um innritun

Hefur þú áhuga á að sækja um skólavist í Versló? Hér fyrir neðan má nálgast algengar spurningar og svör.

Hvernig sæki ég um skólavist?

Nemendur gera það rafrænt í gegnum heimasíðu Menntamálastofnunnar, https://mms.is/um-innritun

Hver eru inntökuskilyrðin í skólann?

Í Aðalnámskrá grunnskóla er hæfniviðmiðum á bak við hvern bókstaf lýst. Þegar umsóknir nemenda eru metnar þá er reiknaður út stigafjöldi fyrir hvern og einn umsækjanda þar sem notast er við tölur frá Menntamálastofnun, sbr. það sem sjá má hér að neðan:

 A B+ C+   D
 4  3,75  2,75  2

Þetta er eingöngu gert til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna. Tvöfalt vægi á íslensku og stærðfræði og tvær hæstu einkunnir í ensku, dönsku, samfélagsfræði og/eða náttúrufræði lagðar saman og meðaltal fundið. Nemendur verða að hafa náð að lágmarki B í þeim greinum sem lagðar eru til grundvallar útreiknings stiga.

Hvaða námsbrautir eru í boði?

Allar upplýsingar um námsbrautirnar má nálgast hér.  Námsframboð til stúdentsprófs. 

Get ég byrjað á ákveðinni braut og skipt yfir í aðra ef mér líkar hún ekki?

Nei nemendur geta ekki treyst á að hægt sé að skipta um braut. Hins vegar er hvert tilvik skoðað.

Ef ég lendi ekki með besta vini mínum í bekk, get ég þá skipt um bekk innan sömu brautar?

Nei nemendur geta almennt ekki skipt um bekk eftir að búið er að raða í bekki. Það er okkar reynsla að langoftast myndast mjög skemmtilegur bekkjarandi í þeim bekkjum þar sem fæstir þekkjast.

Hvað eru margir bekkir á hverri braut?

Tekið er inn á brautir, en ekki er ákveðið fyrir fram hve margir bekkir verða á hverri braut. Horft er til þess hversu margar umsóknir eru á hverja og eina braut.

Hver er fjöldi nemenda í hverjum bekk fyrir sig?

Almennt er miðað við 25 – 27 nemendur í bekk.

Eru sömu inntökuskilyrði inn á allar brautir?

Já.

Hver eru skólagjöldin?

Skólagjöldin eru 215.000 og 11.000 nemendafélagsgjald, eða samtals 226.000 vilji menn vera í nemendafélaginu. Eindagi greiðslu skólagjalda er í byrjun ágúst þegar skrifstofan opnar eftir sumarleyfi.

Er hægt að sækja um niðurfellingu skólagjalda ef fjárhagsstaða er bág?

Já, Nemendasjóður Verzlunarskóla Íslands var stofnaður árið 1908. Í skipulagsskrá fyrir sjóðinn stendur m.a.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja þá nemendur Verzlunarskóla Íslands, sem af einhverjum ástæðum skortir fé til þess að halda áfram námi við skólann.

Nemendur geta sótt um niðurfellingu skólagjalda að hluta eða öllu leyti. Nemendum er bent á að hafa samband við Kristínu Huld Gunnlaugsdóttur náms- og starfsráðgjafa varðandi frekari upplýsingar.

Jafnframt er til Námsbókasjóður Verzlunarskóla Íslands. Tilgangur sjóðsins er að styrkja nemendur skólans sem lítið fé hafa milli handanna til námsbókakaupa. 

Ég bý úti á landi, get ég sótt um jöfnunarstyrk?

Já, jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. Sjá nánar, Hvað er jöfnunarstyrkur?

Er hægt að fá inngöngu í skólann eftir að hafa verið eitt ár í öðrum skóla?

Já, það eru fordæmi fyrir því, að settum ákveðnum skilyrðum. Nemendur sem óska eftir að sækja um skólavist í Verzlunarskólanum um áramót eða að hausti inn í efri bekki hafa kost á því með því að fylla út umsóknarblað, sjá nánar hér: Umsókn um skólavist á 1. (vorönn), 2. og 3. ár

Þegar valið er inn í skólann, skoðið þið þá mætingareinkunn?

Í inntökuferlinu er fyrst og fremst verið að skoða einkunnir en það hefur gerst að ef val stendur á milli tveggja jafnhæfra umsækjenda eru aðrir þættir skoðaðir eins og t.d. einkunnir í öðrum greinum. Framhaldsskólar fá ekki upplýsingar um mætingu nemenda.

Ef nemandi fer utan sem skiptinemi á öðru ári er hægt að ná því upp með fjarnámi?

Með mjög góðu skipulagi gæti það vel gengið upp. Krakkarnir sem hafa farið út í 1/2 ár hafa gjarnan gert þetta, þ.e. tekið hluta námsins í fjarnámi svo þeir missi ekki af sínum árgangi - en hinir sem hafa farið í eitt ár seinka sér gjarnan um eitt skólaár. Annars er staða hvers nemanda skoðuð sérstaklega.

Þegar þið veljið nemendur inn í skólann, er þá horft til lítið þið þá á einkunna úr valfögum eins og íþróttafræði, spænsku og fleiru?

Almennt er það ekki gert nema þegar velja þarf á milli nemenda með sama stigafjölda.

Ef ég er í tónlistarnámi, get ég fengið það metið?

Nemendur geta fengið nám sem er viðurkennt af Menntamálaráðuneytinu metið til eininga í vali, s.s. tónlistarnám eða listdansnám. Nemandi þarf þá að hafa lokið ákveðnum stigum og þarf að skila inn gögnum þess efnis.

Er mikið heimanám?

Nám við Verzlunarskólann er kröfuhart nám og mega því nemendur búast við því að þurfa að sinna hluta af námi heima fyrir. Hins vegar er lögð áhersla á að stærsti hluti námsins fari fram á skólatíma.

Ef nemendi æfir einhverja íþrótt getur hann fengið hana metna í staðinn fyrir leikfimi?

Nei, það eru engar undantekningar veittar frá leikfimi vegna íþróttaiðkunar. Allir nemendur mæta í leikfimi, óháð því hvað þeir æfa utan skólatíma.

Ég er búin með áfanga í fjarnámi, fæ ég það metið?

Til þess að fá áfanga metna þarf nemandi að hafa tekið áfangann í framhaldsskóla, með lokaeinkunn sjö eða yfir. Hægt er að sækja um að fá alla áfanga metna nema stærðfræði og íslensku. Allt nám sem nemendur taka í fjarnámi Verzlunarskólans er metið þótt einkunnin nái ekki sjö

Þarf að senda einkunnir til skólans eða sendast þær sjálfkrafa?

Einkunnir sendast sjálfkrafa til skólans frá nemendum sem koma beint úr 10. bekk. Einkunnir úr öðrum framhaldsskólum getur skólinn nálgast í Innu eftir að umsókn hefur verið lögð inn.

Takið þið inn nemendur sem hafa búið erlendis og eru ekki með skólaeinkunnir úr 10. bekk?

Nemendur sem koma erlendis frá eða hafa ekki vitnisburð frá íslenskum grunnskóla, þurfa einnig að sækja um í gegnum vef Menntamálastofnunar og verða metnir út frá þeim gögnum sem fylgja þeim frá viðkomandi skóla. Gott er að snúa sér til náms- og starfsráðgjafa varðandi frekari upplýsingar eða senda póst á verslo@verslo.is til að nálgast nánari upplýsingar.

Ég er með annað heimamál en íslensku, er tekið tillit til þess við inntöku í skólann?

Já, nemendur með annað heimamál en íslensku geta óskað eftir því að íslenska fái einfalt vægi og í staðin verði tvöfalt vægi á annarri grein.

Er aðstaða í skólanum til að læra?

Já, á bókasafni skólans er afar góð lestrar- og vinnuaðstaða fyrir nemendur, þar eru bæði einstaklingsborð og hópvinnuborð. Einnig er lesstofa á bókasafninu þar sem nemendur geta verið ef þeir kjósa algjöran vinnufrið. Víðsvegar á göngum skólans má finna svæði með borðum og sófum þar sem nemendur geta einnig stundað heimalærdóm.

Hvernig er félagslífið?

 Félagslífið í skólanum er bæði mikið og fjölbreytt. Undir stjórn Nemendafélags VÍ (NFVÍ) sitja yfir hundrað nemendur í ýmsum nefndum og ráðum sem standa fyrir margvíslegum uppákomum eins og skólaböllum, söngvakeppnum, blaðaútgáfu, leiksýningum, íþróttaviðburðum og söngleikjum.

Kostar eitthvað að taka þátt í félagslífinu?

Eins og kom fram varðandi skólagjöld þá borga nemendur 11.000 á ári ef þeir vilja vera í nemendafélaginu. Að öðru leyti borga nemendur ekkert vegna þátttöku í félagslífinu nema aðgangseyri á einstaka skemmtanir.

Hér má horfa á kynningarmynd Verzlunarskóla Íslands

Kynningarmyndband