Valgreinar
Valgreinar 2021-2022
BÓKF2BT05 - Bókfærsla II (í boði fyrir alla nema viðskiptabraut)
Lýsing áfangans:
Í áfanganum læra nemendur að færa flóknara
bókhald bæði dagbókarfærslur og uppgjör. Einnig læra nemendur um skuldabréf og
verðtryggingu skuldabréfa. Kynnt er hvernig nota má upplýsingakerfi á borð við
Reglu til færslu bókhalds. Nemendur kynnast ótvíræðum kostum þess að færa
bókhald með aðstoð tölvu. Helstu kerfi eru kynnt svo sem fjárhags-, viðskipta-,
sölu-, birgða-, lánadrottna- og launakerfi ásamt því hvernig kerfin mynda eina
heild. Kennsla byggist á innlögn kennara, umræðum, dæmatímum og verkefnavinnu.
Lögð er áhersla á að nemendur séu sjálfstæðir í vinnubrögðum og geri sér grein
fyrir eigin ábyrgð. Nemendur vinna mest sjálfstætt.
Námsmat:
Verkefni og vinna nemanda yfir önnina ásamt
lokaprófi.
BÓKF3SS05 - Bókfærsla III (í boði fyrir viðskiptabraut – hagfræðilínu)
Lýsing áfanga:
Nemendur læra
að gera upp bókhald út frá ófullkomnum upplýsingum og um sameiningu fyrirtækja.
Nemendur læra að setja upp sjóðstreymi og taka tillit til skattareglna í
uppgjöri. Einnig læra þeir að
meta gengi hlutabréfa. Kennslan
byggist á innlögnum, umræðum, dæmatímum og verkefnavinnu. Lögð er
áhersla á að nemendur séu sjálfstæðir í vinnubrögðum og geri sér grein fyrir
eigin ábyrgð. Nemendur
vinna mest sjálfstætt.
Námsmat:
Í lok
áfangans er skriflegt próf sem gildir á móti ýmis konar vinnu, skyndiprófum,
verkefnum og ástundun
nemandans á önninni.
DANS3DK05 - Danskar kvikmyndir (í boði fyrir alla)
Lýsing á áfanga:
Lögð
er áhersla á danskar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, danska þekkta leikara og
leikstjóra. Kynnt er dönsk kvikmyndasaga í máli og myndum. Fjallað er um
leikara og leikstjóra sem skarað hafa fram úr í danskri kvikmyndagerð og einnig
um nokkrar kvikmyndir sem taldar eru tímamótaverk og eru samnefnari fyrir þá
strauma og stefnur sem ríkjandi hafa verið á ákveðnum tímabilum.
Áfanginn á að auka færni nemenda í dönsku; hlustun, ritun, lestri og tali. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur fái
innsýn inn í grundvallarhugtök sem notuð eru um kvikmyndir og beitt er í
kvikmyndarýni.
Námsefni: Danskar kvikmyndir og þættir. Greinar um kvikmyndir, kvikmyndagagnrýni og kvikmyndasögu á netinu
Námsmat: Áfanginn er símatsáfangi sem gerir kröfur um 90% mætingu nemenda ásamt ákveðnum skilaverkefnum.
EÐLI2DL05 - Eðlisfræði I (Í boði fyrir Viðskiptabraut - hagfræðilína)
Lýsing áfanga:
Áfanginn er grunnáfangi í eðlisfræði, þar sem æfð er framsetning og
lausn hagnýtra verkefna sem tengjast einfaldri hreyfingu hluta eftir línu,
fallhreyfingu, lögmálum Newtons, vélrænni orku og raforku. Kennslan fer
aðallega fram með samblandi af fyrirlestrum og dæmareikningi, auk
verkefnavinnu. Verklegar æfingar eru einnig hluti kennslunnar þar sem nemendur
vinna saman í hópum og skila verkbók.
Námsmat:
Byggir á lokaprófi, tímaprófum, verklegum æfingum, vinnusemi í
kennslutímum, heimanámi og hópvinnu.
EFNA3LE05 - Lífræn efnafræði (í boði fyrir náttúrufræðibraut)
Lýsing á áfanga:
Inngangur
að lífrænni efnafræði sem er undirstöðugrein fyrir læknisfræði, líftækni,
lyfjafræði og fleiri greinar heilbrigðisvísinda, umhverfisfræði, verkfræði og
efnafræði. Megináhersla áfangans er á byggingu og IUPAC nafngiftir helstu
lífrænna efna og efnaflokka. Virkir hópar, einfaldar fjölliður (prótein, teflon, vinyl), rúmfræði
sameinda og nokkrar helstu tegundir lífrænna efnahvarfa. Hefðbundin kennsla fer fram í kennslutímum,
þar sem hvatt er til umræðu og fyrirspurna eftir því sem tilefni gefast til. Mikil
áhersla er lögð á að vinna verkefni. Auk þessa eru verklegar æfingar í
raungreinastofu. Nemendum er ætlað að tileinka sér og öðlast skilning á efni
kennslutexta og viðbótarefni sem fram kemur í kennslustundum.
Námsmat:
Lokapróf,
annarpróf, verklegar æfingar, heimadæmi.
ENSK3NV05 - Vísindaenska (í boði fyrir náttúrufræðibraut)
Lýsing
áfanga:
Námið miðar að því að nemendur auki færni sína í
enskri tungu og bæti bæði vísindaorðaforða og almennan orðaforða svo og
málskilning. Nemendur eru þjálfaðir í ritun með ýmsum verkefnum sem tengjast
vísindum. Einnig eru nemendur þjálfaðir í töluðu máli, m.a. með umræðum. Mikil
áhersla er lögð á ábyrgð og frumkvæði nemenda og þeir fá tækifæri til að velja
sér viðfangsefni skv. áhuga. Dæmi um slík viðfangsefni gætu verið
gróðurhúsaáhrif, geimrannsóknir, líftækni, gervigreind o.s.frv.
Námsmat:
Námsmat er í formi símats. Sem
dæmi um verkefni má nefna umræður, áhugasviðsverkefni og kvikmyndaverkefni.
ENSK3HP05 -Enska, Harry Potter (í boði fyrir alla)
Lýsing áfanga:
Í
þessum áfanga er fjallað um bækur og kvikmyndir J.K. Rowling um Harry Potter.
Valin bók verður lesin og efni hennar rætt. Horft verður á eina kvikmynd og
verkefni unnið úr henni. Auk þess verða persónur og atburðir fleiri bóka og
kvikmynda tekin fyrir og bækurnar verða bornar saman við kvikmyndirnar og
fleiri afleidd verk. Mikil áhersla verður á munnlega tjáningu, ritun og
skapandi þátttöku nemenda. Nemendur vinna mikið í hópum og áfanginn er að miklu
leyti leikjamiðaður. Öll vinna í námskeiðinu fer fram á ensku.
Námsmat:
Byggt á stuttum verkefnum, bæði formlegum og skapandi, ritgerðum
og frjálsari stuttum textum. Unnið er lokaverkefni þar sem nemendur fjalla um
efni að eigin vali og hafa mikið frelsi með efnistök og úrvinnslu. Ætlast er
til að nemendur taki virkan þátt í tímum og umræðum.
ENSK3YE05 - Yndislestur á ensku (í boði fyrir alla)
Lýsing áfanga:
Markmið áfangans er að gefa nemendum tækifæri að lesa bókmenntir á
ensku til að auka færni þeirra og uppgötva ánægjuna við að lesa, skilja og
fjalla um góðar bókmenntir. Áfanginn sameinar því tvennt, lesfærni og talfærni
á ensku. Hann gagnast mjög vel öllum þeim sem vilja viðhalda góðri
enskukunnáttu og auka orðaforðann en ekki síst þeim nemendum sem hyggja á nám
þar sem hluti af lesefninu er á ensku. Valáfanginn byggist á sjálfstæðum vinnubrögðum nemandans og skipulagshæfni.
Nemandinn velur sér 5 enskar skáldsögur af bókalista, les þær sjálfstætt á
tilteknum tíma og gerir kennara grein fyrir þeim á ensku í einkaviðtölum.
Námsmat:
Engin skrifleg verkefni eru í áfanganum og byggist lokamatið sem er
annað hvort staðist eða ekki staðist á munnlegri frammistöðu nemandans í
áfanganum.
FJMÁ2TP05 - Fjármál (í boði fyrir alla nema viðskiptabraut)
Lýsing áfanga:
Í áfanganum læra nemendur um fjárfestingar og
þær aðferðir sem beitt er til þess að meta hagkvæmni þeirra. Þá er farið í
helstu tegundir verðbréfa, skuldabréfa og hlutabréfa og virðingu þeirra.
Kennsluhættir eru í formi fyrirlestra, umræðutíma, dæmatíma og verkefnavinnu. Lögð er áhersla á að
nemendur geti nýtt tölvutæknina við lausn verkefna og geti skilað verkefnum á
tölvutæku formi. Markmið er að kennsluhættir stuðli að sjálfstæðum vinnubrögðum
nemenda. Námsefni áfangans má gróflega skipta í þrennt. 1) Umfjöllun um
fjárfestingar og útreikningar tengdir þeim. Nemendur læra að meta núvirði
fjárfestinga miðað við gefnar forsendur og í framhaldinu ákvarða hvort
fjárfesting sé arðbær eða ekki. 2) Umfjöllun um algengustu tegundir skuldabréfa
og útreikningum tengdum þeim. Nemendur læra m.a. um mismunandi greiðsluflæði
mismunandi skuldabréfa og hvernig samspil ávöxtunarkröfu og greiðsluflæðis
hefur áhrif á markaðsvirði skuldabréfa. 3) Umfjöllun um hlutabréf og
kennitölur. Nemendur læra að meta virði hlutafjár miðað við gefnar forsendur og
mynda sér skoðun á rekstrar- og fjárhagslegri stöðu fyrirtækis.
Námsmat:
Í lok áfangans er skriflegt lokapróf sem
gildir á móti ýmis konar vinnu, tímaprófum, verkefnum og ástundun nemandans á
önninni.
FRAN2FD05 - Franska IV (í boði fyrir alla nema alþjóðabraut)
Lýsing áfanga:
Byggt er markvisst á þeirri
kunnáttu sem nemendur hafa þegar tileinkað sér. Haldið er áfram að þjálfa
nemendur jöfnum höndum í öllum færniþáttum tungumálsins í samræmi við evrópska
tungumálarammann. Áhersla er lögð á að auka orðaforða og að vinna markvisst með
talað mál. Áhersla er lögð á að nemendur geti notað tungumálakunnáttu sína við
margvíslegar aðstæður daglegs lífs og að þeir geti aflað sér upplýsinga á
sjálfstæðan hátt í gegnum helstu gagnaveitur. Auk þess öðlast nemendur skilning
á þjóðlífi með því að fara sérstaklega í sögu, landafræði og menningu
landsins.
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi.
Lokaeinkunn færst með því að nota fjölbreytt námsmat sem endurspeglar markmið
áfangans í öllum færniþáttum í samræmi við evrópsku tungumálamöppuna. Lokaeinkunn
byggir á mati á virkni og verkefnaskilum þar sem færniþættirnir fjórir lestur,
hlustun, tal og ritun eru metnir jöfnum höndum.
FRUM3FS05 -Frumkvöðlafræði (í boði fyrir alþjóðabraut og náttúrufræðibraut)
Lýsing
áfanga:
Áfanginn felst í því
að nemendur mynda hópa, þróa sína eigin vöru og stofna fyrirtæki og reka. Vinna
nemenda felst í því að halda utan um allt sem viðkemur fyrirtækinu en þau hafa
nokkuð frjálsar hendur um viðfangsefni fyrirtækisins. Við rekstur fyrirtækjanna
nota nemendur þá þekkingu, leikni og hæfni sem þeir hafa hlotið í öðrum áföngum
sínum svo sem
bókfærslu, fjármálum og hagfræði. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð
nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Nemendur taka
þátt í keppni Ungra frumkvöðla, sem er keppni sem haldin er meðal
framhaldsskólanna. Sigurvegarar keppninnar taka þátt í evrópukeppni Ungra
frumkvöðla erlendis. Versló hefur marg oft unnið keppnina innanlands á síðustu
árum og hefur sigrað evrópukeppnina.
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi þar sem unnið er að rekstri fyrirtækisins alla
önnina.
HAGF3PS05 - Peningar sigra heiminn (í boði fyrir alla)
Lýsing
áfanga:
Námskeiðslýsing:
Hvað eru peningar? Hvernig urðu þeir til? Hvernig gátu þeir orðið ósýnilegir og
birst okkur aðeins sem tölur á skjá? Vorið 2008 kostaði jarðarför í Zimbabwe
eina milljón Zimbabwe-dollara. Hvernig getur verðbólga orðið svona rosaleg?
Hvers vegna verða regluleg hrun á mörkuðum? Getur þekking á fjármálasögunni
hjálpað okkur að sjá fyrir möguleg áföll? Í námskeiðinu
Peningarnir sigra heiminn verður leitast við að svara þessum spurningum og
mörgum fleirum. Þar verður sögð sagan af því hvernig fjármálakerfi heimsins eru
í lykilhlutverki við framþróun mannlegs samfélags. Fyrirtæki og stofnanir verða
heimsótt og gestir munu líta í kennslustundir.
Námsefni:
Niall Ferguson: Peningarnir sigra heiminn. Fjármálasaga veraldarinnar og valdir
leskaflar.
Námsmat:
Áfanginn er
símatsáfangi.
HEIL1NY05 - Yoga og næringafræði (í boði fyrir alla)
Lýsing áfanga:
Áfanginn verður samsettur af a) yoga b)
næringarfræði. Hvort um sig 2 stundir í viku.
a) Yoga
Yoga þýðir = sameining líkama – huga – sálar. Unnið verður út frá þessari
kenningu. Það er einkum gert með því að framkvæma yoga stöður (asanas), öndunar
æfingar (pranayama) og slökun (savasana). Einnig verður farið í nokkrar
aðferðir í hugleiðslu. Annar tíminn í vikunni verður byggður upp á Sivananda
yoga kerfi. Það eru ákveðnar æfingar sem eru í Hatha yoga (flokknum). Nemendur
læra stöðurnar og lögð verður áhersla á að gera þessar stöður vel og geta fylgt
flæðinu. Hinn tíminn verður líka byggður upp á æfingum úr þessu kerfi og síðan
aðrar yoga samsetningar kynntar og rætt um þætti sem tengjast yogaiðkun.
Námsmat:
Þessi hluti
áfangans er verklegur og verður matið byggt á mætingu og ástundun í tímunum.
b) Næringarfræði
Lýsing: Markmið næringarhluta áfangans er að nemendur öðlist þekkingu á
grundvallarþáttum næringarfræðinnar, verði færir um að draga sjálfstæðar
ályktanir um hvað sé hollt og hvað óhollt og verði meðvitaðir um eigin ábyrgð á
góðri næringu og heilsu. Fjallað
verður um grunnorkuþörf, ráðlagða dagskammta, orkuefnin, vítamín, steinefni,
þyngdartap, þyngdaraukningu, næringarþarfir sérstakra hópa, íþróttir og
næringu, aukefni, fæðutengda sjúkdóma, fæðuofnæmi og óþol.
Námsmat:
Þessi hluti áfangans verður kenndur á fyrirlestraformi og
verður kennslumatið byggt á verkefnum, mætingu og ástundun í tímum.
HÖNN2SM05 - Stafræn hönnun I (í boði fyrir alla nema nýsköpunar- og listabraut)
Lýsing áfanga:
Í áfanganum verður unnið með
forrit frá Adobe. Sérstök áhersla verður lögð á Photoshop og InDesign.
Í áfanganum fá nemendur að kynnast Grafískri hönnun og ferlinu í kringum
hana. Í lok áfangans eiga nemendur
að geta unnið með Photoshop við alhliða myndvinnslu og lagfæringar, sett upp
bækling í Indesign og útbúið efni fyrir stafræna birtingu og prentun. Áfanginn er góður
undirbúningur fyrir þá sem hafa áhuga á grafískri hönnun, auglýsingagerð og
meðhöndlun efnis til birtingar. Áfanginn er símatsáfangi þar sem nemendur vinna
verkefni yfir önnina. Ekkert lokapróf er í áfanganum.
Námsmat:
Verkefnaskil 75% og símat á
önninni 25%.
HÖNN2TF05 - Textílhönnun/fatahönnun (í boði fyrir alla)
Lýsing á áfanga:.
Áfanginn er textílhönnunar- /
fatahönnunaráfangi þar sem lögð er áhersla á endurhönnun. Hugmyndin era ð gefa
gömlum flíkum og hlutum nýtt líf. Nýttar eru fjölbreyttar aðferðir, nemendur
læra t.d. að prenta á föt með einföldum hætti og lita og aflita. Nemendur nýta
tæki í stafrænni smiðju og læra að nota vinylskera til að búa til límmiða á föt
og hluti og prófa að lazerskera í efni.
Engar forkröfur er í áfangann, sem þýðir að allir eru
velkomnir sem hafa áhuga,það þarf ekki að hafa lært eitthvað í sjónlistum áður.
Námsmat:
Áfanginn er verklegur símatsáfangi þar sem nemendur
vinna bæði stór og smá verkefni og er áhugi, vinnuframlag og afurð það sem
stuðst er við í mati verkefna.
HÖNN3SM05 - Stafræn hönnun II framhaldsáfangi (í boði fyrir nýsköpunar- og listabraut)
Lýsing á áfanga:
Framhaldsáfangi Stafrænnar hönnunar. Kafað verður dýpra í Adobe forritin
Photoshop, Illustrator og Indesign með meiri áherslu á Indesign en áður.
Nemendur vinna fjölbreytt verkefni í áfanganum þar sem sérstök áhersla er lögð
á sjálfstæð vinnubrögð og sköpunargleði nemanda.
Undanfari: HÖNN2SM05.
Námsmat:
Áfanginn er
próflaus þar sem verkefni og vinnubrögð gilda til einkunnar.
ÍSLE3NG05 - Íslenska, norrænar glæpasögur (í boði fyrir alla)
Lýsing á áfanga:
Valáfanginn byggist á
sjálfstæðum vinnubrögðum nemandans og skipulagshæfni. Nemandinn velur sér fimm
norrænar glæpasögur (íslenskar eða þýddar á íslensku) af bókalista. Nemendur
lesa þær sjálfstætt á tilteknum tíma og gera kennara grein fyrir efni þeirra í
einkaviðtölum. Að öðru leyti er engin tímasókn.
Námsmat:
Engin skrifleg
verkefni eru í áfanganum og byggir lokamatið, sem er annað hvort staðist eða
ekki staðist, á munnlegri frammistöðu nemandans yfir önnina. Ekkert lokapróf er
í áfanganum.
KYNJ2GR05 - Kynjafræði (í boði fyrir alla)
Lýsing
áfanga:
Kyn er grundvallarstærð í tilverunni
og eitt af því sem skapar margbreytileika mannlegs samfélags rétt eins og
kynhneigð, þjóðerni, aldur, stétt, fötlun og fleiri félagslegir áhrifaþættir. Fjallað verður um kyn, kyngervi,
staðalmyndir og fleira. Nemendur beina sjónum sínum að eigin samfélagi og skoða
tímarit, kvikmyndir, stjórnmál og fjölmiðla út frá hugmyndum kynjafræðinnar.
Námsmat:
Byggist
á verkefnum, umræðum og lokaverkefni. Áfanginn er próflaus.
LIGR2NL05 - Sjónlistir/Nýlistir (í boði fyrir alla)
Lýsing
á áfanga:
Sjónlist / myndlist, í áfanganum er unnið með
mismunandi aðferðir sjónlista t.d. ljósmyndun, málun, teikningu. Unnið með
tvívíð og þrívíð form með möguleika á að færa yfir i
lazerskera. Nemendur læra að nota mismunandi verkfæri til listsköpunar og nýta
sér t.d. smáforrit í snalltækjum. Skoðuð er list og liststefnur á 20. og 21.
öldinni og er það notað sem innblástur. Markmið
áfangans er að kynna fyrir nemendum hversu fjölbreyttar aðferðir er hægt að
nota til listsköpunar og hvernig það getur gefir aðra sýn á umhverfið. Engar
forkröfur er í áfangann, sem þýðir að allir eru velkomnir sem hafa áhuga,það
þarf ekki að hafa lært eitthvað í sjónlistum áður.
Námsmat:
Áfanginn er verklegur símatsáfangi þar sem
nemendur vinna bæði stór og smá verkefni og er áhugi, vinnuframlag og afurð það
sem stuðst er við í mati verkefna.
LIGR2SK05 - Sketsaskrif og spuni (í boði fyrir alla)
Lýsing áfangans
Í áfanganum læra nemendur undirstöðuatriðin í hvernig á að skrifa grín sketcha. Farið verður yfir undirstöðuhugtök úr grín fræðum eins og “game”, “crazy/straight” og mismunandi tegundir sketcha. Í áfanganum munu nemendur skrifa sketcha í hverri viku og fara kennslustundir í samlestur og greiningu á sketchum sem eru skrifaðir af nemendum ásamt sketchum sem horft verður á. Áfanginn verður byggður upp eftir aðferðafræði sem er kennd við UCB í Los Angeles og IO Theater í Chicago en þaðan hafa farið margir leikarar í Saturday Night Live og fleiri þætti. Aðferðafræðina má einnig nýta í skrif á uppistandi. Nemendur munu bæði vinna í hópum og sjálfstætt.
Námsmat
Byggt á þáttöku í tímum,
einstaklingsverkefnum og hópverkefni. Unnið er lokaverkefni þar sem nemendur munu
taka upp sketcha. Nemendur munu eiga safn af grín sketchum í lok áfangans.
LIGR2UT05 - Upptökur og lagasmíð (í boði fyrir alla)
Lýsing áfangans:
Í áfanganum læra nemendur undirstöðuatriðin í
lagasmíðum og upptökum. Í því felst að vinna lag frá grunni og koma því yfir á
stafrænt form. Farið verður yfir ferlið frá því að hugmynd kviknar yfir í það
að lag verður til og nemendur þjálfaðir í að nota ákveðin verkfæri sem nýtast
þeim við lagasmíðarnar. Má þar nefna notkun ólíkra hljóðfæra við útsetningar,
ólík lagaform, uppbyggingu, hljómasamsetningar og kynningu á ólíkum
tónlistarstefnum. Þá fá nemendur þjálfun í upptökum og notkun tölvubúnaðar
ásamt því að fá leiðsögn í hljóðblöndun, notkun tækjabúnaðar og öðru sem
tengist útgáfu tónlistar. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur vinni saman í
hóp að sínum eigin tónsmíðum.
Áfanginn er kenndur í samstarfi við tónlistarmiðstöðina Tónhyl og verður bæði kenndur í skólanum og utan hefðbundinnar stundaskrár í tónlistarmiðstöðinni Tónhyl. Nemendur verða að gera ráð fyrir því að hluti námsins fari fram í lotum og þá jafnvel á laugardögum.
Námsmat:
Verkefnavinna og virkni nemenda yfir önnina ásamt lokaverkefni.
LÍFF3LL05 - Líffræði og lífeðslisfræði (í boði fyrir náttúrufræðibraut)
Lýsing áfanga:
Í þessum líffræðiáfanga er farið í skipulagsstig líkamans, vefjafræði,
líffærakerfin og grundvallarhugtök líffærafræðinnar og skyndihjálp.
Megináherslan er lögð á beina- og vöðvakerfi líkamans, vefi og taugakerfi.
Áfanginn er byggður upp á fyrirlestrum, á einstaklings- og hópavinnu, vettvangsferðum, verklegum æfingum, nemendafyrirlestrum ásamt öðrum verkefnum.
Námsmat:
Símat á formi hlutaprófa, verkefnavinnu, flutnings nemendafyrirlestra,
verklegra æfinga og vettvangsferða.
LÖGF3LR05 - Lögfræði (í boði fyrir náttúrufræðibraut og alþjóðabraut)
Lýsing áfanga:
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur fái innsýn í réttarreglurnar
(alþjóðlegar og íslenskar) og geri sér grein fyrir hvernig þær verka á
samskipti manna og öðlist almenna fræðslu um íslenska lögskipan. Lögð er
áhersla á frumkvæði, ábyrgð og færni í vinnu með gögn af ýmsum toga ásamt færni
í samskiptum. Nemendur öðlist hæfni í meðferð heimilda og geti beitt tilteknum
hugtökum varðandi lausnir á lögfræðilegum álitaefnum og geti rökstutt mál sitt
í tengslum við þau. Lögð er rík áhersla á sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og að
námið nýtist sem góður undirbúningur fyrir frekara nám eða störf. Kennslan
byggist einkum á verkefnavinnu nemenda og skilum á verkefnum og lögð er áhersla
á að nemendur verði færir í rökhugsun.
Námsmat:
Námsmat í áfanganum tekur mið af ástundun nemenda yfir önnina,
verkefnavinnu og skilum, æfingum og skriflegu prófi í lokin.
RITL3SR05 - Ritlist (í boði fyrir alla nema nýsköpunar- og listabraut)
Lýsing áfanga:
Í áfanganum fá nemendur leiðsögn og tækifæri til að skrifa ýmsar gerðir
ritsmíða er ekki falla undir hefðbundin akademísk skrif. Áhersla verður lögð á
ritsmíðar á borð við sögur, smásögur og ljóð. Nemendur verða þjálfaðir í
sögugerð og ritun eigin texta og áhersla lögð á að þeir skapi sér persónulegan
tjáningarstíl, finni eigin rödd og aðferð til að miðla efni og upplýsingum á
lipurlega rituðu máli. Nemendur lesa valda kafla eftir íslenska rithöfunda og
er sérstaklega unnið með eina skáldsögu. Einnig lesa nemendur stuttar greinar
um skapandi skrif. Unnið verður í
rithringjum og nemendur þjálfast í að rýna í texta hvors annars. Gestir koma
reglulega í heimsókn.
Við lok áfangans setja nemendur lokaverkefni sín, smásögur, saman í smásögusafn. Smásögusafnið verður prentað sem bók og nemendur fá sitt eintak afhent í síðasta tíma áfangans, sem um leið er útgáfuhóf, þar sem höfundar lesa upp úr verkum sínum.
Námsmat:
Símatsáfangi. Verkefni 50%, mæting og virkni 20% og lokaverkefni 30%.
SAGA2LS05 - Listasaga (í boði fyrir alla nema nýsköpunar- og listabraut)
Lýsing á áfanga:
Í áfanganum fá nemendur innsýn inn í heim vestrænnar listar og
listsköpunar frá fornöld til dagsins í dag. Einkum er lögð áhersla á myndlist,
byggingarlist og höggmyndalist. Fjallað verður um þróun listarinnar og helstu
listastefnur. Skoðuð verða verk eftir helstu listamenn sögunnar, t.d. Leonardo da Vinci, Michelangelo,
Vincent Van Gogh, Pablo Picasso, Fridu Kahlo og marga fleiri. Rík áhersla er á
að fara í vettvangsferðir á listasöfn, gallerí, um miðbæ Reykjavíkur og í
merkilegar byggingar. Nemendur eru virkjaðir til að rýna sjálfir í og greina
listaverkin sem eru til umfjöllunar. Markmið áfangans eru að nemendur kynnist þróun vestrænnar
listsköpunar frá fornöld til okkar daga, þeir þekki og geti greint helstu
listastefnur, einkenni þeirra og þann jarðveg sem þær spruttu úr, öðlist
grunnþekkingu í að greina ýmis tákn og merkingu út úr listaverkum og geti metið
þau á gagnrýninn og sjálfstæðan hátt og að sóttar séu sýningar og listasöfn
m.a. til að kynnast listum líðandi stundar
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi. Nemendur vinna nokkur
stærri verkefni, svo sem kynningar og skýrslu. Að öðru leyti samanstendur
námsmatið af minni verkefnum úr efni áfangans og mætingu og virkni nemenda í
tímum. Ekkert lokapróf er haldið.
SAGA3HF05 - Saga helfararinnar (í boði fyrir alla)
Lýsing á áfanga:
Saga nasismans, gyðinga og útrýmingar á hendur
þeim verður rakin í máli og myndum, einnig verður fjallað um stöðu ýmissa hópa
í Þýskalandi nasismans og ofsóknir á hendur þeim.
Sérstök áhersla er á útrýmingabúðirnar í Auschwitz og þau voðaverk sem þar voru
framin og þá eru eftirmálum helfararinnar gerð skil. Lesnar verða valdar
greinar um efnið ásamt því sem heimildamyndir og önnur miðlunarform verða notuð
eftir fremsta megni.
Námsmat:
Áfanginn
er símatsáfangi þar sem nemendur vinna ýmis verkefni yfir önnina. Ekkert
lokapróf er í áfanganum.
SÁLF2GR05 - Sálfræði I (í boði fyrir alla nema alþjóðabraut)
Lýsing áfanga:
Áfanginn er grunnáfangi í sálfræði. Nemendur
kynnast fræðigreinini sálfræði, eðli hennar, sögu og þróun. Helstu
sálfræðistefnur eru kynntar og grunnhugtök greinarinnar skýrð. Starfssvið
sálfræðinga verður skoðað sem og hagnýtt gildi sálfræði í daglegu lífi svo sem
við nám og mótun hegðunar. Fjallað er um samspil hugsunar, hegðunar og
tilfinninga, sjálfsmynd, mannleg samskipti, þróun náinna sambanda og almennt um
mannlegt eðli. Loks eru helstu rannsóknaraðferðir kynntar. Kennslan er me
fjölbreyttu sniði, fyrirlestrar kennara og nemenda, umræður og verkefni.
Áhersla verður lögð á að nemendur þekki helstu rannsóknaraðferðir sálfræðinnar
og þjálfist í vísindalegri hugsun og vinnubrögðum með því að framkvæma einfalda
tilraun og skrifa skýrslu um niðurstöður samkvæmt viðurkenndum reglum.
Námsmat:
Símat.
SÁLF3FR05 - Sálfræði II framhaldsáfangi (í boði fyrir alþjóðabraut og þá sem hafa lokið við SÁLF2GR05)
Lýsing áfanga:
Í áfanganum fá nemendur frekari innsýn í
þroskasálfræði og félagssálfræði. Fjallað verður um þroskaferli barna og
unglinga, eins og kynþroska, líkams- og hreyfiþroska, vitsmunaþroska,
tilfinninga- og félagsþroska. Einnig verður fjallað um ýmis vandamál barna og
unglinga eins og geð- og þroskaraskanir, námsvandamál, streitu og álag. Þá
verður fjallað um félagslega hegðun og viðhorf fólks, hvernig við skynjum annað
fólk, tengjumst því og höfum áhrif á það. Fjallað verður sérstaklega um
fordóma, staðalmyndir, sjálfsmynd, viðhorf, fortölur, hópþrýsting og hóphegðun.
Farið verður í þær leiðir sem fólk notar þegar það metur annað fólk, fyrstu
kynni og náin sambönd. Einnig verður fjallað um hvaða lögmál sálfræðinnar eru
að baki auglýsingasálfræði og hafa áhrif á auglýsingar. Að lokum verður farið í
valin viðfangsefni í vinnusálfræði, afbrotasálfræði og íþróttasálfræði.
Undanfari: SÁLF2GR05
Námsmat:
Símat.
SPÆN2SD05 - Spænska IV (í boði fyrir alla nema alþjóðabraut)
Lýsing áfanga:
Byggt er markvisst á þeirri kunnáttu sem nemendur hafa þegar
tileinkað sér. Haldið er áfram að þjálfa nemendur jöfnum höndum í öllum
færniþáttum tungumálsins í samræmi við evrópska tungumálarammann. Áhersla er
lögð á að auka orðaforða og að vinna markvisst með talað mál. Áhersla er
lögð á að nemendur geti notað tungumálakunnáttu sína við margvíslegar aðstæður
daglegs lífs og að þeir geti aflað sér upplýsinga á sjálfstæðan hátt í gegnum
helstu gagnaveitur.
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi. Lokaeinkunn færst með því að nota
fjölbreytt námsmat sem endurspeglar markmið áfangans í öllum færniþáttum í
samræmi við evrópsku tungumálamöppuna. Lokaeinkunn byggir á mati á virkni og
verkefnaskilum þar sem færniþættirnir fjórir lestur, hlustun, tal og ritun eru
metnir jöfnum höndum.
STJÓ2LJ05 - Stjórnmálafræði (í boði fyrir alla nema alþjóðabraut)
Lýsing á áfanga:
Áfanginn er inngangur að stjórnmálafræði sem
fræðigrein en einkum verða þrjú meginhugtök notuð sem útgangspunktar. Lýðræði, jafnrétti
og mannréttindi. Farið er ítarlega í hugmyndir og kenningar um lýðræði. Lýðræði á Íslandi og
íslenska stjórnkerfið tekið sérstaklega fyrir. Jafnréttishugtakið skoðað frá mörgum
sjónarhornum, t.d. út frá hugtökum á borð við kyn, kynhneigð, kynþáttur o.fl. Unnið með
mannréttindahugtakið í tenglsum við jafnrétti. Kennsluaðferðir eru í meginatriðum þrenns
konar. Í fyrsta lagi eru fyrirlestrar kennara þar sem námsefnið er reifað og hugtök útskýrð. Þá eru
umræður og loks verkefnavinna nemenda; úr námsefninu sjálfu eða öðru sem því tengist.
Nemendur kynna sér sjálfir ýmislegt efni sem tiltækt er á netinu og vinna verkefni, jafnt
einstaklings- sem hópaverkefni. Gert er ráð fyrir að nemendur sæki kennslustundir og taki virkan þátt í
umræðum og verkefnavinnu.
Námsmat:
Símat sem byggir m.a. á verkefnum
STÆR3BD05 - Stærðfræði (í boði fyrir viðskiptabraut)
Lýsing áfanga:
Efni áfangans er margþætt. Breiðbogaföll, runur, raðir og
þrepasannanir, tvinntölureikningur, lausnir annars stigs línulegra diffurjafna
með rauntölustuðlum, fylkjareikningur, aðferð Eulers og Taylor margliður. Hvern
þátt má túlka sem kynningu þannig að nemendur „hafi séð” efnið þegar á næsta
þrep kemur. Kennslan fer jöfnum höndum fram með fyrirlestrum kennara þar sem
nýtt efni er kynnt og útskýrt og með vinnu nemenda. Gerðar eru kröfur um að
nemendur vinni verkefni og standi skil á þeim annað hvort í kennslustund eða
með því að skila verkefnum skriflega.
Námsmat:
Byggir á verkefnum sem nemendur vinna í kennslutíma og heima,
skyndiprófum og virkni í tímum. Í lok annar er skriflegt lokapróf.
STÆR3FF05 - Stærðfræði (í boði fyrir alþjóðabraut og nýsköpunar- og listabraut)
Lýsing
áfanga:
Lögð er áhersla á að nálgast
fyrirbæri í náttúrunni og í samfélaginu með opnum huga hvað varðar stærðfræði.
Til þess er nemendur látnir vinna með vísis- og lograföll, diffrun einfaldra
falla og kynnast notagildi diffrunar.
Mismunarunur og kvótarunur þar sem áhersla er lögð á tenginu við
vaxtaútreikning. Kynning á hugtakinu vigur.
Kennslan fer fram með fyrirlestrum og dæmareikningi. Nemendur vinna ýmist
sjálfstætt, í pörum eða í hópum.
Námsmat:
75% lokapróf á móti 25% annað námsmat.
STÆR3RF05 - Stærðfræði (í boði fyrir náttúrufræðibraut)
Lýsinga áfanga:
Efni áfangans er rúmfræði í víðum skilningi sem skiptist í útdrátt úr sögu stærðfræðinnar, þrívíða
hnitarúmfræði, kúluhornafræði og endanlega rúmfræði. Verulegan hluta efnisins
kynna nemendur sér sjálfir en þar sem um fjölmargar setningar er að ræða og
sannanir á þeim þá eru sannanirnar oft skýrðar nánar í fyrirlestrum. Fyrirlestrar (þó í litlum mæli), dæmatímar, hópvinna, nemendur kynna
sér efnið sjálfir.
Námsmat:
Byggir á verkefnum sem nemendur vinna í kennslutímum og heima, skyndiprófum
og virkni í tímum. Í lok annar er
munnlegt próf (ekkert skriflegt lokapróf).
STJÖ2HJ05 - Stjörnufræði (í boði fyrir alla)
Lýsing
áfanga:
Efni áfangans er uppruni, þróun
og endalok alheimsins, vetrarbrauta, stjarna, reikistjarna og lífs í alheimi. Ekki er reiknað með sérstakri
þekkingu í raungreinum, en í námskeiðinu er farið nokkuð ítarlega og fræðilega
í hlutina og ekki um gefins einingar að ræða. Námskeiðið hentar þeim sem vilja
skilja alheiminn og hið kosmíska samhengi mannlegrar tilveru. Kennslubók er á íslensku.
Námsmat:
Ekki er lokapróf, en námsmat
byggist á tímaprófum og ritgerð.
Farið verður í
stjörnuskoðunarferð út fyrir borgina og stjörnuljósmyndun prófuð ef áhugi er á
því.
TÖLV2FV05 - Forritun (í boði fyrir alla nema náttúrufræðibraut)
Lýsing áfanga:
Fyrri hluti (ca 3
vikur):
Farið er yfir sögu tölvutækninnar
þ.á.m. forritunarmála og nemendur læra að breyta tölum milli talnakerfa
(aðaláhersla á tvíundarkerfið). Nemendur lesa sér til um byggingu tölvunnar,
helstu vélarhluta og samband hennar við umheiminn. Farið verður yfir efni um
minni, gögn og mismunandi tegundir hugbúnaðar. Nemendur fá kynningu á því hvað
algrím, flækjustig og reiknanleiki eru þegar kemur að tölvum.
Seinni hluti (ca 13
vikur):
Nemendur fá
undirstöðuþjálfun í forritun í hlutbundna forritunarmálinu Java. Nemendur læra
að skrifa hefðbundin forrit sem keyra í texta- og gluggaham. Forritin verða oft
með stærðfræðitengdar lausnir. Innlögn kennara verður á formi lesefnis,
fyrirlestra, upptaka, verkefna og skilaverkefna.
Áfanginn er mjög góður undirbúningur fyrir alla þá forritun og rökhugsun sem er mikilvægur hluti af mörgum tæknigreinum háskólanna s.s. verkfræði, stærðfræði, tölvunarfræði og fleiri tengdum greinum. Í áfanganum er farið í kynningu í háskóla þar sem nemendur fá kynningu á námi í tölvunar-, verk- og tæknifræði.
Námsmat
Lokapróf 55%
Símat á önninni og verkefnaskil 45%
TÖLV3FG05 - Forritun framhaldsáfangi (í boði fyrir náttúrufræðibraut)
Lýsing áfanga:
Notast verður við
forritunarmálin Java og C# þar sem nemendur takast á við flóknari forrit.
Nemendur greina, hanna, og forrita forrit með hlutbundnum aðferðum.
Vinnsluklasar og -föll eru notuð í uppbyggingu forrita. Farið verður dýpra í
forrit þar sem lausnirnar krefjast texta- og fylkjavinnslu. Áhersla er lögð á
vel skipulögð og vönduð vinnubrögð við mótun og framsetningu forrita.
Áfanginn er mjög góður undirbúningur fyrir fyrir alla þá forritun og rökhugsun sem er mikilvægur hluti af mörgum tæknigreinum háskólanna s.s. verkfræði, stærðfræði, tölvunarfræði og fleiri tengdum greinum.
Námsmat:
Verkefnaskil 75%
Símat á önninni 25%
UMHV2SL05 - Umhverfisfræði (í boði fyrir alla)
Lýsing áfanga:
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem sett voru
fram í þágu mannkyns, Jarðarinnar og hagsældar eru þungamiðja áfangans.
Sérstaklega verður litið til þeirra markmiða sem tengjast sjálfbærni og loftslagsbreytingum. Hvernig
getum við stuðlað að betri heimi og hvernig getum við haft áhrif á samfélagið
með því að vinna að þessum markmiðum.
Fjallað verður um náttúruauðlindir og nýtingu
þeirra, sjálfbæra þróun og hvernig það hugtak snertir líf allra Jarðarbúa og
helstu alþjóðasamþykktir á svið umhverfismála. Í því samhengi er samspil
hagkerfa og vistkerfa Jarðarinnar til að þróa sjálfbær og skilvirk
efnahagskerfi tekin til athugunar. Skoðuð verða í því skyni mismunandi fyrirtæki með hliðsjón af viðhorfum
þeirra og framlagi til umhverfismála. Fjallað verður m.a. um samfélagsábyrgð,
grænt bókhald, samgöngur, ferðamannaiðnað, neyslu og leiðir til sjálfbærni. Nemendur læra verkferla umhverfisstjórnunar sem verkefnið
Skólar á grænni grein byggir á. Þeir beita sjálfir áhrifum sínum á aðgerðamiðaðan
hátt í átt að aukinni sjálfbærni innan skólans og nærsamfélagsins með því að
vinna að markmiðum Grænfánaverkefnisins jafnt og þétt yfir önnina.
Námsmat:
Símat, verkefni, hópvinna og vettvangsvinna
ÞJÓÐ2HK05 - Þjóðhagfræði (í boði fyrir alla nema viðskiptabraut- hagfræðilínu)
Lýsing áfanga:
Áfanginn
miðar að því að auka skilning nemandans á helstu kenningum hagfræðinnar og
starfsemi þjóðarbúsins.
Samband sparnaðar og fjárfestinga verður skoðað, hagvaxtarfræði kynnt og helstu kenningar er
varða þróun hagkerfa. Áhersla er
lögð á fræðilegt inntak og hagnýtt gildi námsefnisins með því að tengja sem
mest við þau
efnahagsmál sem eru efst á baugi á Íslandi sem og erlendis. Áhersla er lögð á
almennar þjóðhagsstærðir
og að nemendur öðlist þá hæfni að leita sér upplýsinga um hagfræðilega tengd málefni.
Kennslan er byggð á fyrirlestrum, verkefnavinnu og umræðutímum. Lesefni er að
mestu á ensku og er lögð áhersla á að nemandinn geti skilið og tileinkað sér
hugtök og efnisatriði á ensku sem og íslensku.
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi.
ÞÝSK2ÞD05 - Þýska (í boði fyrir alla nema alþjóðabraut)
Lýsing áfanga:
Byggt er markvisst á þeirri
kunnáttu sem nemendur hafa þegar tileinkað sér. Haldið er áfram að þjálfa
nemendur jöfnum höndum í öllum færniþáttum tungumálsins í samræmi við evrópska
tungumálarammann. Áhersla er lögð á að auka orðaforða og að vinna markvisst með
talað mál. Áhersla er lögð á að nemendur geti notað tungumálakunnáttu sína við
margvíslegar aðstæður daglegs lífs og að þeir geti aflað sér upplýsinga á
sjálfstæðan hátt í gegnum helstu gagnaveitur. Auk þess öðlast nemendur skilning
á þjóðlífi með því að fara sérstaklega í sögu, landafræði og menningu
landsins.
Námsmat:
Áfanginn er símatsáfangi.
Lokaeinkunn færst með því að nota fjölbreytt námsmat sem endurspeglar markmið
áfangans í öllum færniþáttum í samræmi við evrópsku tungumálamöppuna.
Lokaeinkunn byggir á mati á virkni og verkefnaskilum þar sem færniþættirnir
fjórir lestur, hlustun, tal og ritun eru metnir jöfnum hönd