Ársskýrsla Foreldraráðs

Veturinn 2015-2016

Lögð fram á aðalfundi 27. September 2016

Aðalfundur Foreldrafélags Verzlunarskóla Íslands var haldinn þann 29. september 2015 í skólanum. María Björk Óskarsdóttir formaður félagsins bauð foreldra velkomna, Hafsteinn Sv. Hafsteinsson var kosinn fundarstjóri og Helga Sverrisdóttir fundarritari. Um 200 foreldrar sátu fundinn.

Dagskrá aðalfundar er skv. 4. gr. laga félagsins

a) Kosning fundarstjóra og fundarritara
b) Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins
c) Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
d) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning og afgreiðsla hans
e) Lagabreytingar
f) Starfsáætlun lögð fram til kynningar og afgreiðslu
g) Kosning í stjórn félagsins
h) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Hafsteinn setti fundinn og gengið var til dagskrár.
María Björk gerði grein fyrir ársskýrslu stjórnar og störfum félagsins árið 2015-2016 m.a. fundum félagsins, bæði stjórnarfundum og með skólastjórnendum sem og helstu verkefnum foreldraráðsins það árið. Engar lagabreytingar tóku gildi.

Kosning í stjórn: Margir úr núverandi stjórn gáfu kost á sér áfram enda hafði verið mikil nýliðun árið á undan. María Björk Óskarsdóttir, Helga Sverrisdóttir, Hafsteinn Sv. Hafsteinsson, Svandís Sturludóttir, Sæunn Gísladóttir, Helga María Rúnarsdóttir og Þórdís Guðmundsdóttir buðu aftur fram krafta sína auk þess sem nokkrir nýir buðu sig fram í stjórn foreldraráðsins. Almennt er kosið til 2ja ára í senn.

Nýir í stjórn foreldraráðsins: Brynja Kristinsdóttir (barn á 1.ári), Hjördís Björgvinsdóttir (barn á 1.ári), María Fjóla Pétursdóttir (barn í 4. bekk), Margrét Ármann (börn í 4. og 5. bekk), Þorlákur Traustason (barn á 1. ári).

Allir frambjóðendur voru samþykktir einróma og það var ánægjulegt að stjórnin var skipuð foreldrum nemenda úr öllum árgöngum skólans.

Eyrún Baldvinsdóttir og Elsa K. Elísdóttir gáfu kost á sér sem skoðunarmenn reikninga og voru samþykktar samhljóða á fundinum.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Styrmir Elí Ingólfsson forseti NFVÍ kynningu á félagsstarfinu og eftir kaffihlé kom Páll Ólafsson félagsráðgjafi og hélt frábæran fyrirlestur um jákvæð samskipti, hvað ber að varast í samskiptum við unglingana okkar og hvert annað. Það er óhætt að segja að fyrirlesturinn sló í gegn, allir gátu séð sig í hinum mismunandi aðstæðum og mikið var hlegið.

Fundir:

Haldnir voru 5 formlegir stjórnarfundir í vetur þar sem farið var yfir mál er snerta skólann og skólalífið, skipulagningu ballgæslu og edrúpottinn. Árlegur fundur með skólastjórnendum var undirbúinn og haldinn auk þess sem sem stjórnin átti fund með Forseta og Féhirði NFVÍ ásamt fleiri góðum gestum sem við boðuðum til okkar. Sú hefð hefur skapast að allir stjórnarmenn Foreldraráðsins eru boðaðir á alla fundi. Fundargerðir stjórnarfunda eru settar inn á síðu foreldrafélagsins á vef skólans. Mikil samskipti og ákvarðanatökur áttu sér stað rafrænt allt árið bæði í gegnum tölvupósta og lokaðan spjallþráð foreldraráðsins.

Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund voru nýir stjórnarmeðlimir boðnir velkomnir, þeim kynnt starfsemi Foreldraráðsins í grófum dráttum auk þess sem stjórnin skipti með sér helstu verkum:

María Björk Óskarsdóttir – formaður
Hafsteinn Sv Hafsteinsson - gjaldkeri
Helga Sverrisdóttir – ritari
Svandís Sturludóttir - skipuleggjandi ballgæslu
Brynja Kristinsdóttir - meðstjórnandi
Helga María Rúnarsdóttir – meðstjórnandi
Hjördís Björgvinsdóttir – meðstjórnandi
Margrét Ármann – meðstjórnandi
María Fjóla Pétursdóttir – meðstjórnandi
Sæunn Gísladóttir - meðstjórnandi
Þórdís Guðmundsdóttir - meðstjórnandi

Í lok mars var haldinn jákvæður og góður fundur með skólastjórnendum þar sem farið var yfir starfsemi Foreldraráðsins það sem af var vetri og farið farið yfir fjölmörg málefni er snerta skólastarfið og skólalífið í heild sinni. Allir aðilar voru sammála að andinn í skólanum var mun betri þetta árið en það síðasta þegar meiri óeining ríkti. Það var mál manna að upphafsár 3ja ára námsins hafi að mestu farið vel af stað þó eitt og annað þurfi að slípa til. Fallið var minna um jólin en undanfarin ár og voru helst nefndar á því tvær skýringar annars vegar að nemendahópurinn væri mjög sterkur og að um 50 færri nemendur hefðu verið teknir inn í skólann.

Innritunarmál næstu nýnema voru rædd en skólinn var að skipuleggja nýja aðferðafræði í þeim efnum tengt mati og samræmi einkunna þar sem nú var komið bókstafakerfi í grunnskólunum. Ballgæsla og edrúpotturinn voru tekin fyrir en þar hafði foreldraráðið margt til málanna að leggja að vanda. Við höfðum m.a. tekið eftir því að vinningar í edrúpottinum höfðu þynnst út eftir að foreldrafélagið fór að gefa vinninga og sammælst var um að skólinn tæki sig á í þeim efnum til að styrkja pottinn fremur en hitt. Foreldraráðið lagði að endingu fram ályktun þess efnis að framlengja skyldunni að blása í áfengismæla þ.e.a.s. að krakkarnir myndu blása fram að sjálfræðisaldri sem svo oft hefur verið rætt.

Formaður Foreldraráðsins sótti á skólaárinu alla fundi skólanefndar utan fjárhagslega fundi hennar. Það er þakkavert að fulltrúi Foreldraráðsins fái þetta tækifæri en um leið mjög mikilvægt fyrir alla aðila því þannig fær foreldraráðið skýrari yfirsýn yfir það sem er í gangi í allar áttir auk þess sem rödd foreldraráðsins heyrist beint til yfirstjórnar skólans. Viðfangsefni Skólanefndar voru fjölmörg ekki síðst 3ja ára námið, innra starf og stefnumótun og skipulagsmál, gengi nemenda, einkunnaverðbólga grunnskólanna, nýtt inntökukerfi og fræðsla um innviðina.

Önnur verkefni:

Félagsgjöld:

Valfrjálsir greiðsluseðlar voru í annað sinn sendir í heimabanka foreldra sl. haust og var upphæðin sú sama og fyrsta árið eða 1500 kr. pr. barn. Það er ánægjulegt að segja frá því að langflestir foreldrar greiddu félagsgjaldið. Sá sjóður sem myndaðist gaf foreldrafélaginu í fyrsta sinn tök á því að standa straum að viðburðum. Í mars og apríl buðum við nemendum og foreldrum upp á fyrirlesturinn “Er unga fólkið að bugast undan álagi?” með Örnu Steinsen, félags- og tómstundafræðingi með meiru. Fyrirlesturinn fjallaði um kvíða og streitu hjá ungu fólki sem er vaxandi vandamál og sífellt fleiri krakkar sem upplifa slíkar tilfinningar. Foreldrar fylltu bláa salinn á foreldrakvöldinu og gerðu góðan róm að fyrirlestrinum sem og nemendurnir sem hlýddu á fyrirlesturinn á skólatíma. Félagsgjöldin stóðu ennfremur straum að veitingum fyrir foreldra á foreldrakvöldum og í ballgæslu auk þess sem við bættum verulega í vinninga í edrúpottinn en það hefur verið mjög hvetjandi fyrir nemendur og margir blásið til að setja nafn sitt í pottinn. Stjórnin leggur til hækkun félagsgjaldsins á nýju skólaári eða í 2000 kr. til að tryggja fjárhagslegt svigrúm og geta bætt um betur.

Ballgæsla:

Stór hluti af starfi foreldrafélagsins snýst um að aðstoða skólastjórnendur og félagslífsfulltrúa við gæslu á skólaböllum á vegum nemendafélagsins. Böllin sem voru 6 á síðasta ári gengu í flestum tilvkum mjög vel og krakkarnir voru alla jafna til fyrirmyndar. Foreldraráðið hefur verið mjög ákveðið í skoðunum sínum varðandi það sem betur má fara við öryggisgæsluna og inngöngu krakkanna á böllin. Við höfum lagt fram ítarlegar greinargerðir byggt á reynslu okkar og upplifun í gæslunni og ýtt á að eftir þeim væri farið. Þó allt samstarf sé hið besta þá hefur okkur stundum fundist að ekki sé nægjanlega vel brugðist við. Við gáfumst hins vegar ekki upp og má segja að þegar að Nemendamótið var haldið í vonskuveðri að hlýtt hafi verið á ráðleggingar okkar og allir tóku höndum saman en gekk allt vonum framar miðað við sama ball á sama stað árinu áður. Við munum að sjálfsögðu halda ábendingum okkar áfram á nýju skólaári með von um að allir mikilvægir þættir verði að endanum að venju.

Þátttaka foreldra í ballgæslunni hefur þótt mjög afar jákvæð og til fyrirmyndar. Í gegnum árin hefur þó gengið misvel að fullmanna gæsluna og fjöldinn þynnst út eftir því sem liðið hefur á hvert skólaár. Á síðasta ári tókum við upp nýja aðferð sem virkaði frábærlega allt skólaárið en við buðum foreldrum í upphafi skólaárs að skrá sig á lista með það að markmiði að taka
þátt í ballgæslu á kannski einu balli eða svo. Fyrir hvert ball var foreldrum svo bæði boðið að skrá sig í ballgæslu í gegnum FB en listinn var sömuleiðis notaður sem úthringilisti og voru það þá ekki síst pabbarnir sem voru í markhópnum enda mömmurnar oftast fyrri til að bjóða sig fram þegar auglýst er. Ég vil nota tækifærið hér til að þakka öllum fyrir þeirra framlag. Við munum hafa sama háttinn á, á þessu ári og vonum svo sannarlega að foreldrar taki jafnvel við sér núna líka ... allt árið enda létt verk ef margir skipta með sér verkum – aðkoma foreldra skiptir öllu máli eins og hefur sýnt sig auk þess sem það er bara stemning í gæslunni

Facebook:

Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu í rúm 3 ár. Markmið hennar er að gera störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Ennfremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra. Það er mismunandi hvað ratar þarna inn en foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni krakkanna, skólans og foreldra.

Lokaorð:

Það er merkilegt hvað allt slípast til með tíma og reynslu. Fyrir tveimur árum kom stór hluti okkar sem skipum Foreldraráðið nýr inn í ráðið þegar fjölmennur kjarni sem fyrir var hætti. Rétt eins og nýnemarnir sem þurfa tíma til að læra að fóta sig í nýju umhverfi í nýjum skóla tók það okkur tíma að ná áttum á nýjum vettvangi á vetri sem var fyrir margra hluta sakir óvenjulegur í Versló. En við slípuðumst auðvitað til eins og nýnemarnir og okkur gekk ágætlega en það má samt segja að síðasta starfsár Foreldraráðsins hafi verið bæði afslappaðara og markvissara en árið þar á undan. Við urðum öruggari og ákveðnari með okkar hlutverk sem og með verkefnin sem við vildum hrinda í framkvæmd. Öflugir liðsmenn bættust í hópinn á síðasta aðalfundi og hefur samvinnan verið uppbyggileg og ótrúlega skemmtileg auk þess sem mikill fjöldi frábærra foreldra lagði sitt af mörkum með því að mæta galvösk í ballgæslu.

Samstarf okkar við skólastjórnendur og fulltrúa nemendafélagsins var afar gott eins og áður og andinn í skólanum sjálfum var allur áberandi jákvæðari, meiri vinátta ríkti meðal nemenda. En ekkert er sjálfgefið og ekkert gerist af sjálfu sér, til að ná árangri þarf að leggja sig fram og vinna markvisst í málum – setja mörk og búa til stemningu eftir því sem við á. Það var að okkar mati til fyrirmyndar hjá nemendafélaginu að setja sér það sem markmið að bæta skólaandann eftir þá óeiningu sem ríkti árið áður. Þau náðu klárlega árangri því krökkunum virtist almennt líða betur, öll samskipti einkenndust af meiri virðingu og færri fjölmiðlamál.

Að vera jákvæð fyrirmynd og að vera til fyrirmyndar er eitthvað sem við hljótum öll að sammælast um að er verðmætt og það að setja skýr mörk skiptir máli. Þetta á t.d. við um það að krakkarnir byrji sem seinast drekka, ef þeir þá byrja. Hvert ár skiptir þar máli. Það er pressa að takast á við þær breytingar sem fylgja lífinu í framhaldsskóla, nýjum vinum, auknu sjálfstæði og frelsi. Skýr mörk og samstaða foreldra og skóla skiptir því öllu máli ekki síst varðandi það að bjóða hvorki upp á áfengi né eftirlitslaus partý – samráð foreldra getur veitir því gríðarlegan stuðning í því að setja þessi nauðsynlegu mörk sem krakkarnir vilja oftar en ekki hafa.

Nýtt og spennandi skólaár er framundan og ætlum við flest öll sem erum í foreldraráðinu að gefa kost á okkur aftur, fáum við til þess kosningu. Hvers vegna gæti einhver spurt ... ekki síst börnin okkar. Svarið er í raun einfalt en það er gaman að starfa í sterku teymi að málefnum sem snerta mann beint. Við erum með ýmsar hugmyndir sem við viljum gjarnan koma í framkvæmd á þessu ári ekki síst tengt kvíða og streitu sem er eitt af því sem ungt fólk glímir við í síauknu mæli. Við buðum í fyrra upp á fyrirlestur fyrir foreldra og nemendur sem sló í gegn og höfum í framhaldi átt samtöl við Forseta NFVÍ bæði í fyrra og núna sem og utanaðkomandi ráðgjafa. Við skynjum þörfina og áhuga nemenda á því að opna enn frekar umræðuna með það að markmiði að þau læri sjálf að takast á við tilfinningarnar og neikvæða upplifun þessu tengt – snúa málum sér í hag, styrkja sig og efla. Við viljum því gjarnan taka málin lengra í samstarfi við skólann og nemendur á þessu ári en þetta passar vel við áherslur nýrrar stjórnar NFVÍ. Við viljum einnig skoða hvort foreldrafélagið getur ekki aukið tengingar á milli nemenda og atvinnulífisins til dæmis í formi raunhæfrar fræðslu, eitthvað sem krakkarnir hafa kallað eftir á fundum með okkur. Við teljum ennfremur tímabært að móta stefnu í kringum áherslur foreldrafélagsins og fá til þess innlegg frá foreldrum t.d. í gegnum spurningakönnun.

Það er því verk að vinna og hlakka ég til þess að takast á við nýtt starfsár foreldrafélagsins með því kraftmikla fólki sem mun halda áfram í stjórninni. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem nú eru hætt fyrir samstarfið og bíð spennt eftir því að kynnast og starfa með þeim foreldrum sem ætla að gefa kost á sér hvort sem er í foreldraráðið eða í ballgæsluna. Nú er tækifærið að bætast í hópinn – við tökum öllum opnum örmum.


Seltjarnarnesi 27. September 2016
María Björk Óskarsdóttir, formaður Foreldraráðs Verzlunarskólans.