Spurt og svarað vegna Covid-19

Hvernig geta nemendur haft samband við kennara sína?

Best er að hafa samband við kennara í hverjum áfanga í gegnum INNU en einnig er hægt að senda tölvupóst á kennara. Netföng þeirra eru á heimasíðu skólans.

Ef nemendur hafa ekki aðgang að tölvu heima, hvað er hægt að gera?

Nemendur geta sent póst á klarah@verslo.is og fengið lánaða tölvu á bókasafninu á meðan á lokun stendur.

Er eitthvert sérstakt kerfi sem kennarar nota? Og þá hvaða kerfi?

INNA er áfram það kerfi sem notað er til þess að halda utan um nám nemenda og þangað skila nemendur inn verkefnum. Einnig munu kennarar nota INNU til að vera í sambandi við nemendur og þaðan vísa þeim á önnur kerfi, ef þeir nota þau. Dæmi um önnur kerfi er Moodle og Teams.

Hvernig verður námsmati háttað?

Þrátt fyrir lokun skólans heldur nám nemenda áfram undir leiðsögn kennara. Kennarar munu meta vinnuframlag nemenda út frá verkefnaskilum og virkni. Ljúki samkomubanni fyrir 1. maí er gert ráð fyrir að nemendur þreyti lokapróf skv. próftöflu. Námsmat í símatsáföngum verður samsett af frammistöðu nemenda á fyrri hluta annarinnar og vinnuframlagi, verkefnum og prófum í rafrænu námsumhverfi. Ef skólinn verður áfram lokaður í maí má gera ráð fyrir að námsmat allra áfanga verði svipað og lýst er í símatsáföngum hér að ofan. Frekari upplýsingar um fyrirkomulag námsmats verður gefið út ef framlenging verður á samkomubanninu.

Ef þetta dregst á langinn hvernig verður þá með útskrift í vor?

Nemendur munu útskrifast í vor en í versta falli verður engin formleg útskrift í Háskólabíói. Nemendur munu þá fá skírteini sín í pósti … en vonandi kemur ekki til þess.

Hvað með Peysufatadaginn?

Enn er of snemmt að segja til um það en margt bendir til þess að peysufatadagur falli niður og verða nemendur að vera undir það búnir. Sá möguleiki er fyrir hendi að færa peysufatadaginn til haustsins ef áhugi er á því meðal nemenda.

Hvað með dimisso?

Það gildir það sama með dimissio og peysufatadaginn, nemendur verða að vera undir það búnir að dagurinn falli niður. Ákvörðun um dimissio verður tekin í samræmi við leiðbeiningar Almannavarna ef samkomubanni lýkur fyrir 30. apríl.

Fyrirhugaðar nemendaferðir, verða þær farnar?

Búið er að aflýsa öllum nemendaferðum út þetta skólaár. Útskriftarferð 3. bekkinga er ekki á vegum skólans og því hefur skólinn ekki með þá ákvörðun að gera.

Hvað gerist þegar samkomubanninu lýkur eftir fjórar vikur?

Okkar plön gera ráð fyrir að skóli hefjist að nýju samkvæmt stundaskrá. Hins vegar gætu aðrar leiðbeiningar komið frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og munum við þá hlíta þeim.

Hvað með nemendur sem þurfa að sækja bækur/annað í skápana sína?

Skólinn er lokaður með öllu og því þurfa þeir sem eiga eitthvað erindi í skólann að óska eftir því að opnað sé í gegnum verslo@verslo.is