9. okt. 2018 : Námsmatstímar

Dagana 10. og 11. október næstkomandi verður skólastarf brotið upp með námsmatstímum.

 Með auknu símati hefur vægi verkefna á önninni aukist auk þess sem breyttir kennsluhættir hafa fært stór hlutapróf í einstaka greinum inn á miðja önnina. Tilgangurinn með þessu uppbroti er að leggja fyrir stór hlutapróf, gefa færi á að kalla nemendur í sjúkrapróf eða verkefnavinnu sem þeir hafa misst af á önninni. Einnig nýtast þessir tímar til vettvangsferða og í einstaka tilvikum fer fram kennsla ef bekkir hafa misst út marga tíma, t.d. vegna alþjóðaverkefna.

Þeir nemendur sem hafa lokið öllum sínum verkefnum á önninni og eru ekki kallaðir til sérstaklega af kennurum sínum eru hvattir til að nýta tímana til þess að sinna námi sínu með einum eða öðrum hætti.

 Kennt verður skv. stundaskrá til kl. 11:17 miðvikudaginn 10. okt en tímana eftir hádegi hafa deildir möguleika á að hafa sjúkrapróf eða kennslu, allt eftir þörfum. Kennarar í hverju fagi munu tilkynna nemendum hvaða fyrirkomulag verður í þeirra grein.

 Fimmtudaginn 11. október verður prófað:

·         fyrir hádegi í tölvum TÖLV2RT05 hjá 1. ári (nánari tímasetningar koma í INNU)

·         í náttúrfræði NÁTT1EJ05 hjá 2. ári (próf hefst kl.8:15) – Upplýsingar um í hvaða stofur nemendur eiga að mæta verður sendur út á miðvikudag.

Að öðru leyti hafa kennarar tök á að kalla einstaka nemendur í sjúkrapróf eða verkefnavinnu.

 Kennsla hefst aftur skv. stundaskrá kl. 12:55 fimmtudaginn 11. október.

28. sep. 2018 : Franskir nemendur í heimsókn

Dagana 26. september – 3. október taka 18 nemendur á 2. ári með frönsku sem 3.mál á móti jafnöldrum sínum úr menntaskólanum Le Lycée Polyvalent Privé Demotz de la Salle frá borginni Rumilly í frönsku ölpunum. Er verið að endurgjalda heimsókn íslenskra ungmenna til Frakklands frá því  í byrjun september. Nemendurnir dvelja hjá íslenskum fjölskyldum og kynnast við það íslenskum háttum, siðum og venjum.  Auk þess að sitja í tímum mun hópurinn fara Gullna hringinn, heimsækja „Lava Centre“ á Hvolsvelli, fara um Reykjanesið, heimsækja Hellisheiðavirkjun og að lokum Þjóðminjasafnið.

26. sep. 2018 : Úttekt á 3. ára náminu - skýrsla

Á vorönn 2018 var gerð ítarleg úttekt á nýju 3. ára námi til stúdentsprófs. Úttektin var fjölþætt og innihélt samræmd próf, rýnihópa nemenda og kennara ásamt viðhorfskönnunum. Í kjölfarið var unnin skýrsla og er hún nú aðgengileg á vef skólans. Skólinn þakkar öllum þeim sem að úttektinni komu.

21. sep. 2018 : Landsráðstefna Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi

Verzlunarskóli Íslands hýsir fyrstu landsráðstefnu Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi dagana 21. og 22. sept. á jarðhæð skólans.
Evrópska ungmennaþingið eða European Youth Parliament eru samtök sem hafa það að markmiði að fræða ungmenni um málefni sem snerta Evrópubúa. Samtökin eru starfrækt í 40 löndum álfunnar og eru þau hugsuð fyrir aðildalönd Evrópuráðsins. Unnið er að því að hvetja til virkrar samfélagsþátttöku innan Evrópu og jafnframt að brúa bilið á milli mismunandi menningarheima og skapa umræðuvettvang þar sem ungt fólk fær tækifæri til að koma fjölbreyttum hugmyndum sínum á framfæri og ræða framkvæmd þeirra.
Nemendum, kennurum og öðrum eru velkomið að koma við til að kynna sér starfsemi þessara merkilegra samtaka. Alþjóðlegur andi ríkir í Versló þegar þátttakendur frá 15 evrópulöndum ræða alþjóðleg stjórnmál þessa daganna!
Þessi ráðstefna er fyrsti viðburður samtakanna sem er haldinn á Íslandi, og allir mjög velkomir að kynna sér starsemina okkar og taka þátt í þessu með okkur!

20. sep. 2018 : #egabaraeittlif

#egabaraeittlif er minningarsjóður fjölskyldu Einars Darra sem lést langt um aldur fram aðeins 18 ára, hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í maí sl. vegna lyfjaeitrunar. Minningasjóðurinn er í nafni Einars Darra og er ætlaður fyrir ungmenni í fíknivanda. Ákveðið hefur verið af forsvarsmönnum sjóðsins að byrja á því að einblína á forvarnir og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er hér og þá sérstaklega á meðal ungmenna, allt niður í grunnskóla. Algengt er að almenningur og sér í lagi ungmenni geri sér ekki grein fyrir því hversu skaðleg, ávanabindandi og lífshættuleg slík lyf eru og hversu algeng misnotkun á þeim er.

19. sep. 2018 : Edrúpotturinn

Fyrsta Verzlóball vetrarins var haldið í Hörpu í gærkvöldi. Eins og venjan er þá er dregið úr hinum vinsæla og glæsilega edrúpotti að balli loknu. 
62% ballgesta blésu og skráðu sig þar með í edrúpottinn. Þessi góða þátttaka er besti árangur sem náðst hefur í blæstrinum á þeim 9 árum sem starfsmenn skólans og þá sérstaklega námsráðgjafarnir, hafa staðið vaktina með mælana. Við erum virkilega stolt af edrúpottinum okkar.

Vinningshafar í edrúpottinum hljóta eins og vanalega glæsilega vinninga. Til hamingju vinningshafar !

18. sep. 2018 : Nordplus junior nemendaskipti Versló og Rysensteen

Það tóku eflaust margir eftir því að danskir nemendur fjölmenntu um ganga Verzlunarskólans í síðustu viku. Um var að ræða hin árlegu nemendaskipti okkar við Rysensteen gymnasium í Kaupmannahöfn. Verkefnið er styrkt af Nordplus junior og nemendum að kostnaðarlausu.

Dönsku nemendurnir dvöldu á íslenskum heimilum í viku og unnu ýmis verkefni með gestgjöfum sínum. Farið var í vettfangsferðir t.d. í Hellisheiðavirkjun og Deildartunguhver og Decode. Á næstunni munu Verzlingar endurgjalda heimsóknina og dvelja í viku í Kaupmannahöfn hjá dönskum gestgjöfum.

Img_1487

18. sep. 2018 : Nemendur í frönsku skiptast á heimsóknum við frönsk ungmenni frá Rumilly í Frakklandi

Dagana 5. – 12. september dvaldi 18 manna nemendahópur ásamt tveimur kennurum í Rumilly í frönsku ölpunum. Dvöldu nemendur hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum, siðum og venjum.  Auk þess að sitja í tímum í Le Lycée Polyvalent Privé Demotz de la Salle var farið í fjölda skoðunarferða, m.a. til Lyon, Annecy og Chamonix.

Vel var tekið á móti hópnum og munu frönsku ungmennin koma hingað til lands 26. september og dvelja á íslenskum heimilum til 3. október.

31. ágú. 2018 : Útskrift

Föstudaginn 31. ágúst voru 4 nemendur útskrifaðir með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Það eru þau  Alfons Sampsted, Gísli Már Guðmundsson, Kristín Líf Örnudóttir og Ólöf Þórunn Hafliðadóttir. Skólinn óskar þeim innilega  til hamingju með áfangann.

Utskrift2018h1

27. ágú. 2018 : Útskrift

Föstudaginn 24. ágúst 2018 var Bogi Benediktsson útskrifaður með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Skólinn óskar honum innilega  til hamingju með áfangann. 

20. ágú. 2018 : Kynningarfundur með foreldrum og forráðamönnum nýnema

Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema verður haldinn í skólanum (Bláa sal) fimmtudaginn 23. ágúst nk. kl. 20:00.  Dagskráin hefst á því að skólastjóri fer yfir ýmis atriði sem lúta að námi við skólann. Að því loknu munu fulltrúar frá stjórn NFVÍ og foreldrafélagsins segja frá því sem þar ber hæst á árinu.

Eftir dagskrá í Bláa sal verður foreldrum og forráðamönnum boðið að hitta umsjónarkennara í kennslustofum. Hér er ekki um einstaklingsviðtöl að ræða heldur hitta umsjónarkennarar hvers bekkjar alla foreldra/forráðamenn samtímis.

Síða 2 af 5