19. nóv. 2019 : Nemendur heimsóttu Cordoba á Spáni

Í síðustu viku dvöldu fjórir nemendur í 3-A ásamt tveimur kennurum í Cordoba á Spáni. Ferðin var liður í 3ja ára Erasmus+ verkefni sem byrjaði fyrir tveimur árum. Verkefnið fjallar um fólksflutninga til og í Evrópu, aðallega á okkar tímum. Efni fundarins í Cordoba var „Stories of Success.“ Okkar nemendur kynntu þar viðtal sem þeir tóku við fimm manna fjölskyldu frá Ungverjalandi sem fluttist búferlum til Íslands fyrir fimm árum og hefur vegnað vel hér. Lokafundur verkefnisins verður svo haldinn í Reykjavík í febrúarlok á næsta ári.

15. nóv. 2019 : Foreldraviðtöl 19. nóvember

Og þá er komið að meginefni þessarar umfjöllunar og það er nýtt fyrirkomulag foreldraviðtala með það að leiðarljósi að grípa inn í hjá þeim nemendum sem þurfa þykir. Að þessu sinni verða einungis foreldrar/forráðamenn þeirra nemenda, sem ástæða þykir til, kallaðir á fund með umsjónarkennara. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga, t.d. vegna mætinga, niðurstöður miðannarmats, dalandi áhugi nemandans á náminu eða líðan í bekk.

Foreldraviðtölin fara fram 19. nóvember og munu þeir foreldrar/forráðamenn, sem óskað er eftir að mæti, fá tölvupóst þar að lútandi frá umsjónarkennara. Þeir foreldrar/forráðamenn sem ekki fá boð geta haft samband við umsjónarkennara í gegnum tölvupóst ef þeir vilji koma einhverju á framfæri.

14. nóv. 2019 : Landsráðstefna Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi

Dagana 16-20. október var önnur landsráðstefna Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi haldin í Verzlunarskóla Íslands. Á ráðstefnunni tóku fjögur ungmenni frá skólanum þátt auk 60 annarra ungmenna. Mikill alþjóðlegur andi ríkti í Versló þessa daga því ungmennin voru frá 20 mismunandi Evrópulöndum og fengu þátttakendur að kynnast fjölbreyttri menningu og eignast vini frá allri Evrópu.

13. nóv. 2019 : Heimsókn til Gribskov Gymnasium í Danmörku

Dagana 23. og 24. október var haldinn fundur í Gribskov Gymnasium í Danmörku fyrir 43 kennara og skólastjórnendur frá löndunum fjórum sem taka þátt í Norður- Atlandshafsbekknum (NGK) . Skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru framhaldsskólarnir, Gribskov Gymnasium í Danmörku, GUX Sisimiut í Grænlandi, Miðnám í Kambsdal í Færeyjum og Verzlunarskóli Íslands. Nemendurnir munu stunda nám við alla þessa skóla. Fyrst í Danmörku síðan í Færeyjum og svo Íslandi og enda svo á Grænlandi. Námsframboð og kennsla er samkvæmt danskri námskrá og stúdentsprófið verður eins og frá dönskum framhaldsskóla.
Á fundinum var meðal annars farið yfir skipulag námsins, kennarar og skólastjórnendur fóru í skoðunarferðir um stúdentagarðana þar sem nemendur dvelja og skoðuðu skólasvæðið. Kennarar fengu að fylgjast með kennslustundum hjá bekknum og kynntust lítillega nemendum bekkjarins. Þetta var vel heppnuð ferð og hlakkar starfsmenn Verzlunarskólans mikið til að fá NGK bekkinn hingað í Ofanleitið.

8. nóv. 2019 : Frumsýning - Back to the Future

Á hverju ári setur Listafélag Verzlunarskóla Íslands upp leiksýningu og verkið sem varð fyrir valinu að þessu sinni er ekki í verri kantinum en það er Back to the Future! Frumsýning verður föstudaginn 8. nóvember og hægt er að nálgast miða á miðasölu NFVÍ.

Frekari upplýsingar um sýninguna er að finna á Facebook-síðu Listó.

6. nóv. 2019 : Vinningshafar í Edrúpotturinn

Búið er að draga úr Edrúpottinum en rúmlega 50% ballgesta blés á ballinu. Vinningshafar eru eftirfarandi:

1. bekkur
Sólveig Sigurðardóttir 1-X. Gjafabréf fyrir 2 á Hamborgarafabrikkuna
Stefán Björn Skúlason 1-E. Bankakort frá foreldrafélagi VÍ 15.000 kr.
Nótt Benediktsdóttir 1-D. 10 máltíðakort í Matbúð
Kári Daníel Alexandersson 1-R. Bankakort frá foreldrafélagi VÍ

31. okt. 2019 : Fagnám - verslunar og þjónustu

Verzlunarskóli Íslands, býður upp á nýtt fagnám fyrir starfandi verslunarfólk í samstarfi við Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks. Námið er 90 einingar og er blanda af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjunum. Umsækjendum stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga og styttingar á námi sínu. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.

29. okt. 2019 : Vaktmaður fasteignar

Verzlunarskóli Íslands óskar að ráða til starfa vaktmann fasteignar skólans.

Starf vaktmanns felst í daglegri umsjón á húseign og lóð skólans í samstarfi við húsvörð. Vinnutími vaktmanns er frá klukkan 13 til 19 alla virka daga.

Hæfnikröfur:

·Þekking á framkvæmdum og viðhaldi.

· Reynsla sem nýtist í starfi.

· Hæfni í mannlegum samskiptum.

· Sjálfstæði í vinnubrögðum.

· Almenn tölvukunnátta.

Við bjóðum:

· Góða vinnuaðstöðu.

· Góðan starfsanda á framsæknum vinnustað.

Nánari upplýsingar gefur Guðrún Inga Sívertsen starfsmanna- og þróunarstjóri gunninga@verslo.is eða í síma 5 900 600. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember og skal senda umsóknir ásamt ferilskrá á netfangið gunninga@verslo.is

Verzlunarskóli Íslands er framhaldsskóli með um 940 nemendur. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92 frá 2008 er ekki heimilt að ráða einstakling til starfa sem hlotið hefur dóm fyrir brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og því er beðið um sakavottorð áður en ráðið er í starfið.

28. okt. 2019 : Erasmus+ verkefnið S.W.I.M

Verzlunarskólinn er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu, S.W.I.M sem er alþjóðlegt verkefni um styrk- og veikleika fjölmiðla. Ísland, Ungverjaland, Þýskaland, Búlgaría og Króatía taka þátt í verkefninu. Hópurinn sem tekur þátt í verkefninu ferðast til landanna ásamt kennurum sínum, funda þar og leysa ýmis verkefni sem öll snúa að fjölmiðlum. Nú þegar hefur hópurinn heimsótt Ungverjaland en þar var unnið með prentmiðla, í Búlgaríu var áherslan á útvarpsmiðla og í Króatíu var unnið með falsfréttir og sviðsettar atburðarrásir og myndir þannig að þær virki samt sannfærandi í pólitískum tilgangi. Á Íslandi mun­ hópurinn vinna með kvik­myndina Nig­htcrawler en myndin fjallar um þegar fjöl­miðlafólk geng­ur of langt og fer að sviðsetja frétt­ir til að vekja at­hygli á sér. 

23. okt. 2019 : Kynning á UAL skólunum 28. október klukkan 12:17 í græna sal

Tony Alson frá University of the Arts í London ætlar að heimsækja nemendur Verzlunarskólans n.k. mánudag þann 28. október í hádegishléinu (kl. 12:17), í græna sal. Þar mun hann kynna námsframboð UAL skólanna en UAL skólarnir eru: Central Saint Martins, London College of Communication, London College of Fashion, Chelsa College of Arts, Camberwell Colleg of Arts og Wimbledon College of Arts.

23. okt. 2019 : Lingó námskynning og LIPA Acting Workshop

Námskynning Lingó verður haldin í Tjarnarbíói 26. október milli kl. 12:00 og 16:00. Sjá dagskrá hér: http://bit.ly/2kp67Cb Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Þarna gefst tækifæri til kynna sér fjölbreytt úrval námsleiða hjá 14 viðurkenndum háskólum sem bjóða nám í hönnun, sjónlistum, stafrænni miðlun, leiklist, tónlist, kvikmyndagerð, stjórnun, tísku, veitinga- og ferðaþjónustu, viðskiptum og fleiri spennandi greinum.

22. okt. 2019 : Skólaráð

Við skólann starfar skólaráð. Hlutverk þess er samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 92 12.júní 2008. Skipa skal í skólaráð við upphaf hvers skólaárs.

Skólaráð Verzlunarskóla Íslands er skipað tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum kennara. Auk þeirra eiga sæti í skólaráðinu tveir skólastjórnendur sem boða til funda og stýra þeim. 
Hlutverk skólaráðs er að fjalla um skólareglur, félagslíf nemenda, umgengni í skólanum, vinnu- og félagsaðstöðu nemenda, stefnumótun skólans auk annarra mála sem vísað er til skólaráðs. 

Síða 1 af 54