5. ágú. 2020 : Upphaf skólastarfs í skugga Covid-19

Skrifstofa skólans er nú opin á ný að loknu sumarleyfi og próf á sumarönn í fjarnámi hefjast í dag, 5 ágúst. Til þess að uppfylla skilyrði yfirvalda um fjöldatakmarkanir og tveggja metra reglu, verða próf lögð fyrir í íþróttahúsi skólans. Próftöflu fjarnáms á sumarönn má nálgast hér.

Núverandi fjöldatakmarkanir á samkomum gilda til og með 13. ágúst og mun það hafa áhrif á fyrirhugað undirbúningsnámskeið í stærðfræði. Námskeiðið hefur reynst nemendum mjög góður undirbúningur fyrir krefjandi nám og í stað þess að fella það niður mun námskeiðið fara fram í fjarnámi. Eins og gafst vel í vor mun samskiptaforritið TEAMS notað til gagnvirkrar kennslu og samskipta kennara við nemendur. Nemendur munu á næstu dögum fá frekari leiðbeiningar sendar í pósti frá kennurunum.

Enn er óljóst með hvaða hætti skólahald hefst á þessu skólaári en ljóst má vera af fréttum undanfarið að kapp verður lagt á að skólar taki til starfa að nýju að loknu sumarleyfi. Öll áform Verzlunarskólans lúta að því að kennsla muni hefjast samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 18. ágúst. Óskastaðan er vitanlega sú að framhaldsskólar fái sambærilega undanþágu frá reglum um fjöldatakmarkanir og grunnskólar. Þá gæti skólahald hafist með nokkuð eðlilegum hætti, með ríka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti. Komi til þess að skólum verði gert að loka húsnæði sínu, þá mun kennsla færast yfir í fjarnám líkt og í vor. Þriðji möguleikinn er að blanda saman staðnámi og fjarnámi innan þeirra takmarkana sem landsmönnum er gert að fara eftir á hverjum tíma. Verið er að skoða mögulegar útfærslur á slíku fyrirkomulagi. Verði niðurstaðan sambland af fjarnámi og staðnámi mun áhersla verða lögð á að nýnemar hafi forgang inn í skólann, a.m.k. fyrstu vikurnar.

Líkt og með annað skólahald mun nýnemakynningin sem fyrirhuguð er mánudaginn 17. ágúst taka mið af þeim reglum um sóttvarnir sem skólanum verður gert að hlíta. Nýnemar eru því beðnir um að fylgjast með fréttum á heimasíðu skólans.

Nemendur eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingafundum og fréttum af þróun mála næstu daga.

22. jún. 2020 : Lok innritunar vorið 2020

Nú er innritun í Verzlunarskólann lokið. Alls bárust 703 umsóknir, 522 sem val 1 og 181 sem val 2. Í ár voru 361 nemandi innritaður á fyrsta ár. Það er alltaf sárt að þurfa að hafna góðum nemendum en vonandi eru allir, sem ekki komust í Verzló, sáttir við sinn varaskóla, enda eru allir framhaldsskólar landsins góður valkostur.

Eins og áður þá fengu nemendur einkunnir gefnar í bókstöfum: A, B+, B, C+, C og D við lok grunnskóla. Þegar umsóknir nemenda voru metnar þá var reiknaður út stigafjöldi fyrir hvern og einn umsækjanda þar sem notast var við tölur frá Menntamálastofnun, sbr. það sem sjá má hér að neðan:

A B+ B C+ C D
4 3,75 3 2,75 2 1

Þetta er eingöngu gert til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna. Þær greinar sem horft var á við innritun voru: stærðfræði, íslenska, danska (eða eitthvert annað Norðurlandamál), enska, samfélagsfræði og náttúrufræði. Stigafjöldi var síðan reiknaður út með eftirfarandi hætti: stærðfræði og íslenska með tvöfalt vægi og síðan voru valdar tvær hæstu einkunnir af hinum fjórum. Allir nemendur með hærra en B í öllum greinum voru skoðaðir. Hámarksstigafjöldi var 24, þ.e. nemandi með A í öllum greinum og lágmarkstigafjöldi 18, þ.e. nemandi sem var með B í öllum greinum. Í mörgum tilvikum var erfitt að velja á milli nemenda og var þá eftirfarandi haft í huga:

· kynjahlutfall
· þátttaka í félagsstarfi
· einkunnir í öðrum greinum
· annað sem gat skipt máli varðandi umsóknina.

Af þeim sem voru teknir inn voru 58 nemendur með 24 stig (A í öllu). Allir nemendur með 22,5 stig (B+) eða hærra fengu inngöngu. 12 nemendur með undir 22,5 stig innritast einnig og réð þar línuval mestu um ásamt ofangreindum þáttum. Væntanlegir nýnemar koma frá 64 mismunandi grunnskólum af öllu landinu. Tekið var inn á brautir og línur og niðurstaðan var eftirfarandi:

 

 • alþjóðabraut - 1 bekkur
 • nýsköpunar- og listabraut - 1 bekkur
 • náttúrufræðibraut
  eðlisfræðilína - 2 bekkir
  líffræðilína - 4 bekkir
 • viðskiptabraut
  hagfræðilína - 2 bekkir
  stafræn viðskiptalína - 1 bekkur
  viðskiptalína - 3 bekkir

 

Starfsfólk Verzlunarskólans óskar öllum ánægjulegs sumars.

19. jún. 2020 : Lokað vegna sumarleyfa

Skrifstofur skólans verða lokaðar vegna sumarleyfa frá og með föstudeginum 19.06.2020 til og með þriðjudeginum 04.08.2020.

Fjarnámspróf verða 5. - 12. ágúst. Sjá próftöflu hér.

Mánudaginn 17. ágúst milli 11:00 - 15:00 verður nýnemakynning og mæta þá einungis nýnemar í skólann. Eldri nemendur mæta þriðjudaginn 18. ágúst og þá hefst kennsla samkvæmt stundaskrá. Bókalistinn er kominn á heimasíðuna. Nemendur munu geta nálgast stundaskrá sína og bókalista á INNU fyrir skólabyrjun. Skóladagatal næsta skólaárs er hægt að skoða hér .  

19. jún. 2020 : Undirbúningsnámskeið í stærðfræði fyrir nýnema

Til þess að tryggja sem jafnastan undirbúning nemenda í stærðfræði verður boðið upp á sérstakt undirbúningsnámskeið (STÆR-Undirbúningur) fyrir nýnema.

Námskeiðið fer fram í húsnæði Verzlunarskólans 11.-13. ágúst (þri-fim). Nemendur geta valið að vera frá 9 til 12 eða 13 til 16. Kennt er alla dagana og gert er ráð fyrir að nemendur læri líka heima.

Námskeiðið endar á skriflegu prófi, þeir sem ná prófinu fá eina einingu fyrir námskeiðið.

Námskeiðið verður í umsjá stærðfræðikennara skólans. Farið verður yfir brotareikning, þáttun, jöfnur, rúmfræði og prósentur. Námskeiðið er valfrjálst en sem viðmið eru hér nokkur dæmi  sem eru sambærileg þeim sem farið verður í á námskeiðinu.

Skráning fer fram með því að smella hér og fær viðkomandi þá tölvupóst um leið. Síðasti dagur til að skrá sig á námskeiðið er fimmtudagurinn 6. ágúst. Mánudaginn 10. ágúst fá nemendur sendan póst með upplýsingum um hópaskiptingu og nánari útfærslu námskeiðsins.

Námskeiðið er nemendum að kostnaðarlausu.

11. jún. 2020 : Bókalisti haustönn 2020

Bókalistann fyrir haustönn 2020 má finna undir flipanum „Námið“ - Bókalistar, en einnig er flýtivísun hér 

29. maí 2020 : Kynningarefni til nemenda 10. bekkjar í grunnskólum

Vegna óviðráðanlegra orsaka urðum við að hætta við opna húsið okkar sem átti að vera þann 10. mars sl. Hér má nálgast ýmsar upplýsingar um skólann og námið fyrir nemendur og forráðarmenn þeirra.

Kynningarmyndband

Hefur þú áhuga á að sækja um skólavist í Versló? Hér má nálgast algengar spurningar og svör

27. maí 2020 : Endurtektarpróf

Dagana 27.-29. maí  verða endurtektarpróf í dagskólanum og er próftaflan komin á heimasíðuna. Nemendur eru sjálfkrafa skráðir í próf í þeim áföngum sem þeir stóðust ekki. Þeir sem ekki ná endurtektarprófi, eða kjósa að þreyta þau ekki, þurfa að endurtaka áfangann í fjarnámi Verzlunarskólans. Mikilvægt er að þeir nemendur, sem ekki ná endurtektarprófi, skrái sig sjálfir í fjarnámið á heimasíðu skólans um leið og niðurstöður liggja fyrir.

Skráning í fjarnám VÍ er frá 19. maí –1. júní og er öllum opið. Nemendur VÍ geta skráð sig til 5. júní. 

Aðrar dagsetningar fjarnámsins:
2. júní: Nemendur fá send aðgangsorð að kennslukerfinu (Moodle), kennsla hefst.
16. júní: Próftaflan kemur á netið
5. - 12. ágúst: Sumarannarpróf.

26. maí 2020 : Verslingur sigraði Þýskuþraut 2020

Það er skólanum mikill heiður að sá sem sigraði í Þýskuþraut framhaldsskólanna var Stefán Þór Sigurðsson nemandi í 2-B. Óskar skólinn honum innilega til hamingju með árangurinn.

Í verðlaun hlaut hann mánaðardvöl í Þýskalandi í sumar, en vegna Covid – 19 verður því miður ekkert af ferðinni. Á myndinni má sjá Stefán Þór með viðurkenningu frá Félagi þýskukennara á Íslandi.

Þess má geta að Verzlunarskólinn átti nemanda 15. sæti en það er Hlynur Orri Gunnarsson í 2-U. Óskar skólinn honum einnig innilega til hamingju.

25. maí 2020 : Brautskráning 2020

Brautskráning stúdenta frá Verzlunarskólanum fór fram laugardaginn 23. maí við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Vegna ástandsins í landinu var ekki hægt að hafa brautskráningu stúdenta með hefðbundnum hætti. Útskriftarnemendur og foreldrar sátu úti í bílum á bílaplönum kringum skólann og hlustuðu á ræðu skólastjórans og fylgdust með athöfninni í gegnum símtæki sín. Engir gestir voru í salnum og aðeins einn bekkur í einu fór inn og tók við skírteinum sínum. Útskriftarnemendurnir fengu blíðskaparveður á útskriftardaginn og myndaðist skemmtileg stemning á bílaplönum skólans á meðan nemendur biðu eftir því að vera kallaðir inn í skólann í röð, með tvo metra á milli, að taka á móti skírteinum sínum.

22. maí 2020 : Brautskráning í beinni útsendingu laugardaginn 23. maí klukkan 14:00

Hér má fylgjast með beinni útsendingu brautskráningar þann 23. maí klukkan 14:00.

Dagskráin hefst á píanóleik Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar fyrrverandi nemenda skólans.  Því næst taka Jón Jónsson og Björg Magnúsdóttir við og kynna næstu atriði. Dagskráin verður glæsileg að vanda þar sem meðal annars má sjá, tónlistaratriði útskriftarnema, myndband úr skólalífi stúdentsefna og útskriftarræðu Inga Ólafssonar, skólastjóra. Hér má nálgast dagskrá brautskráningarinnar, Dagskrá

18. maí 2020 : Brautskráning í beinni útsendingu

Í ár verður söguleg brautskráning stúdentsefna Verzlunarskóla Íslands 2020 en athöfnin verður í beinni útsendingu á www.verslostudent.is. Á meðfylgjandi mynd má sjá boðskort til stúdentsefna frá Inga Ólafssyni, skólastjóra.

18. maí 2020 : Birting einkunna og prófsýning

Einkunnir birtast í INNU þriðjudaginn 19. maí klukkan 18:00. 

Prófsýning verður rafræn í ár. Nemendur, sem óska eftir að sjá úrlausnir sínar í öðrum prófum en tekin voru í INNU, geta sent póst á kennara sína milli 8:30 og 10:00, miðvikudaginn 20. maí. Þeim póstum sem berast á réttum tíma verður svarað samdægurs en öðrum póstum munu kennarar svara við hentugleika.

Endurtektarpróf fara fram 27., 28. og 29 maí. Próftaflan mun birtast á heimasíðunni í vikunni.

Síða 1 af 60