Starfsfólk VÍ
Kíktu á próftöfluna
Komdu í heimsókn á bókasafnið
Fjarnám
1.1. Starfsmenn og nemendur skulu virða markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta í hvívetna að varpa ekki rýrð á heiður hans. Gagnkvæm virðing skal ríkja milli starfsmanna og nemenda.
1.2. Sýna ber háttvísi og prúðmennsku í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans.
1.3. Ósæmileg hegðun nemanda gagnvart kennurum og öðru starfsfólki skólans, skólafélögum eða öðrum, innan skóla sem utan, getur varðað brottvísun úr skóla.
1.4. Almennt gildir sú regla að foreldrum eða forráðamönnum ólögráða nemenda skal gert viðvart svo þeir geti nýtt sér andmælarétt sinn ef um brottvísun er að ræða. Þó getur til þess komið að vísa þurfi nemanda úr skóla fyrirvaralaust.
2.1. Nemendur skulu ganga snyrtilega um skólann og lóð hans og stuðla að því að kennslustofur og aðrar vistarverur séu ávallt snyrtilegar. Enginn má skilja eftir sig rusl, hvorki innan dyra né utan.
2.2. Neysla á mat og sælgæti skal fara fram í mötuneyti nemenda (Matbúð) eða á Marmaranum. Heimilt er þó að neyta þess nestis sem komið er með að heiman í kennslustofu í frímínútum ef fullkomins hreinlætis er gætt. Bannað er að neyta matar á meðan kennsla fer fram.
2.3. Í kennslustundum skulu nemendur vera vakandi, virða verkstjórn kennara og gæta þess að valda ekki ónæði. Notkun farsíma og annarra tækja sem valdið geta truflun að mati kennara er óheimil.
2.4. Kennara er heimilt að vísa nemanda úr kennslustund að gefnu tilefni, t.d. fyrir að spilla vinnufriði. Síendurtekin brot skal tilkynna skólayfirvöldum.
2.5. Nemendur sem vitandi vits vinna tjón á eigum skólans geta þurft að bæta fyrir skemmdir sem þeir hafa valdið.
2.6. Í tölvustofum, sérgreinastofum og á bókasafni gilda umgengnisreglur sem birtar eru þar.
3.1. Nemendur skulu mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
3.2. Tilkynningar um fjarvistir fara í gegnum INNU, sjá hér.
3.3. Skólastjóri getur vikið nemendum úr skóla í lengri eða skemmri tíma virði þeir ekki reglur skólans um skólasókn.
4.1. Nemandi sem hefur 95,5 –100% mætingu fær eina einingu fyrir mætingu eftir hverja önn. Þessar einingar, sem að hámarki geta orðið sex, eru þá umfram hinar hefðbundnu 207/205 feiningar sem þarf til stúdentsprófs af bóknámsbraut.
4.2. Mætingaskráning fer fram í upphafi kennslustundar í vefkladda. Nemendur sem ekki eru mættir við skráningu en mæta áður en 10 mín. eru liðnar af kennslustund fá seint. Nemendur sem mæta eftir þann tíma eða mæta ekki fá fjarvist. Ef kennari er ekki mættur þegar 5 mínútur eru liðnar af kennslustund skulu nemendur hafa samband við skrifstofu skólans og athuga hverju þessi fjarvera sætir. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við fjarvistaskráninguna þá verða þeir að koma athugasemdum til umsjónarkennara eða viðkomandi kennara innan tveggja vikna.
4.3. Skólasókn, að frádregnum veikindum og leyfum skal vera 87% hið minnsta. Að öðrum kosti eiga nemendur ekki vísa skólavist á næsta skólaári. Sé skólasókn undir 87% í lok skólaárs getur skólinn ákveðið að bjóða nemendum skólasóknarsamning á næsta skólaári með skilyrðum um betri skólasókn en almennar reglur segja til um. Sé skólasókn ábótavant er veitt skrifleg áminning.
4.4. Skólasóknareinkunn og fjarvistarprósenta reiknast eins og sýnt er í töflunni hér að neðan:
5.1. Til þess að standast áfanga þarf nemandinn að ná lokaeinkunn 5,0 eða hærra í hverjum námsáfanga. Lokaeinkunn í áfanga byggist ýmist á lokaprófi ásamt vinnueinkunn í áfanganum eða símati sem er án lokaprófs. Vægi hvers matsþáttar er breytilegt milli einstakra áfanga og skal vægið tilgreint í námsáætlun. Í námsáætlun kemur einnig fram ef nemendur þurfa að ná lágmarkseinkunn á lokaprófi til þess að vinnueinkunn gildi. Lokapróf eru haldin í lok annar, þ.e. í desember og á vorin.
5.2. Ef um símatsáfanga er að ræða skal þess getið í kennsluáætlun hvernig námsmati er háttað. Ef nemandi stenst ekki kröfur áfangans og lokaeinkunn hans er undir 5,0 skal þess getið í kennsluáætlun hvernig endurtekt áfangans skal háttað.
5.3. Nemendur sem falla á haustönn (desember) eiga rétt á endurtekningarprófi og verða próf haldin í janúar. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka janúarprófin eða ekki. Hins vegar er hér um „tækifæri“ númer 2 hjá nemandanum að ræða hvort sem hann tekur prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn og skal það gert í fjarnámi Verzlunarskólans og verða próf haldin í maí. Nemendur sem falla á vorönn (maí) verða að endurtaka áfangann og verða próf haldin í júní. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka júníprófin eða ekki. Hins vegar er hér um „tækifæri“ númer 2 hjá nemandanum að ræða hvort sem hann tekur prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn og skal það gert í fjarnámi Verzlunarskólans og verða próf haldin í ágúst. Nemendur sem endurtaka áfanga í fjarnámi verða sjálfir að skrá sig í áfangann á heimasíðu skólans. Þegar um símatsáfanga er að ræða geta aðrar reglur gilt og er þeirra þá getið í námsáætlun viðkomandi áfanga.
5.4. Nemandi má að hámarki endurtaka 3 áfanga á önn. Ef nemandi er með fall í fleiri áföngum en 3 á önn þá telst hann fallinn út úr skólanum og á hvorki rétt á endurtektarprófum né frekari skólavist. Ef nemandi fellur þrisvar í sama áfanga telst hann endanlega fallinn og á ekki rétt á frekari skólavist. Nemendur sem falla í bekk geta sótt til skólastjóra um að fá að setjast aftur í sama bekk. Þeir eiga þá rétt á að fá metna þá áfanga þar sem einkunn er 7,0 eða hærri. Þetta á þó ekki við um íþróttir.
5.5. Nemandi getur útskrifast sem stúdent með lægri einkunn en 5,0 í einum eða tveimur áföngum, en þó má einkunn í þeim ekki vera lægri en 2,0. Þetta gildir bara um lokaáfanga eða staka áfanga og nemandinn fær ekki einingar fyrir viðkomandi áfanga. Einingafjöldinn til stúdentsprófs má þó aldrei verða minni en 140/207.
5.6. Skólanum ber ekki skylda til að halda endurtekningarpróf nema fyrir þá sem eru að ljúka lokaprófi frá skólanum. Ef annað er ákveðið þurfa nemendur að greiða hluta kostnaðar.
5.7. Til að færast milli bekkja þarf nemandi að ná að minnsta kosti 5,0 í öllum áföngum. Hins vegar má nemandi hafa undir 5,0, en þó ekki undir 2,0, ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Nemandi fær ekki einingar fyrir þá áfanga þar sem einkunn er lægri en 5,0 og verður að eiga aukaeiningar á móti til að ná 140/207 eininga lágmarki til stúdentsprófs.
5.8 Nemandi sem ekki mætir í lokapróf, aðalpróf eða sjúkrapróf, telst ekki hafa lokið skólaárinu og hefur þar með skráð sig úr skólanum. Nemandinn telst fallinn og verður tekinn út af nemendaskrá skólans.
5.9. Ákveðnir áfangar telja til verslunarprófs en þeir eru mismunandi eftir brautum. Á stúdentsprófi reiknast aðaleinkunn sem vegið meðaltal allra námsáfanga sem nemandinn hefur tekið og staðist.
5.10. Til að fá verslunarpróf, verða nemendur að ná 5,0 eða hærra í aðaleinkunn og sama gildir um stúdentspróf.
5.11. Vinna skal verkefni samkvæmt fyrirmælum sem kennari gefur. Verkefnum ber að skila innan tilskilins frests. Virða ber viðurkenndar reglur um heimildanotkun og með öllu er óheimilt að skila verkefni sem að hluta til að öllu leyti hefur verið fengið frá öðrum.
5.12. Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans geta þeir snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
5.13. Skólastjóri getur veitt undanþágu frá einstökum reglum ef veigamiklar röksemdir eru fyrir hendi.
6.1. Nemendum er skylt að hafa meðferðis að prófborði öll nauðsynleg ritföng og leyfileg hjálpargögn, en skólinn leggur þeim til pappír. Óheimilt er að taka yfirhafnir, töskur, poka eða pappír inn að prófborði. Þó skal heimilt að hafa meðferðis nesti í gegnsæjum umbúðum.
6.2. Nemendum er skylt að vera um kyrrt í sætum sínum fyrstu 40 mínútur próftímans.
6.3. Þurfi nemandi að fara frá prófborði að 40 mínútum liðnum og áður en prófi er lokið, skal það því aðeins heimilt að prófvörður sé til staðar að fylgja honum.
6.4. Að 40 mínútum liðnum gengur kennari/prófvörður, í því fagi sem prófað er í, á milli stofa og svarar spurningum nemenda. Prófvörðum er óheimilt að svara spurningum einstakra nemenda á annan hátt en í heyranda hljóði og skal spurningin og svarið endurtekið í öllum stofum sem prófað er í. Kennarar koma einungis einu sinni í hverja stofu.
6.5. Prófverðir skulu sinna prófvörslu í samræmi við fyrirmæli skólastjóra og er þeim óheimilt að lesa eða sinna öðru en vörslu meðan á yfirsetu stendur.
6.6. Verði nemandi uppvís að alvarlegu misferli í prófi, skal prófvörður taka prófgögn hans í sína vörslu og vísa nemanda frá prófi. Minniháttar brot nægir að tilkynna prófstjóra.
6.7. GSM-símar eru stranglega bannaðir að prófborði. Að öðru leyti er tilgreint sérstaklega hvaða hjálpartæki nemendur mega hafa með sér. Reglur í heimaprófum (bætt við í nóvember 2020):
6.8. Heimapróf samkvæmt reglum þessum er rafrænt próf sem nemanda er ætlað að leysa á stað sem hann sjálfur kýs.
6.9. Nemanda er skylt að leysa prófið í einrúmi. Honum er óheimilt að þiggja nokkra aðstoð annars aðila og óheimilt að veita nokkrum öðrum aðstoð eða ráð við úrlausn prófsins.
6.10. Nemandi ber ábyrgð á því, að úrlausn hans komist til skila frá þeim stað, sem hann leysir verkefnið/prófið.
6.11. Nemandinn ber sjálfur ábyrgð á því, að einungis gögn sem heimilt er að nota séu honum tiltæk á þeim stað, þar sem hann þreytir prófið.
6.12. Nemanda, sem er veikur og getur þess vegna ekki tekið prófið, er óheimilt að skoða verkefnið/prófið sem leysa á. Opni nemandi próf sem hann er skráður veikur í, telst hann hafa þreytt prófið og á ekki rétt á sjúkraprófi.
6.13. Nemanda er skylt að sanna próftöku sina með því að hafa kveikt á myndavél á meðan hann leysir prófið þannig að kennari sjái skýrt og greinilega nemandann og aðstæður hans. Geti nemandi ekki sannað próftöku sína telst próftaka hans ógild.
6.14. Geti nemandi ekki uppfyllt ofangreindar reglur hvað varðar rafrænt heimapróf hefur hann kost á að þreyta prófið í húsnæði skólans. Nemandi ber ábyrgð á því að láta prófstjóra vita með 24 klukkustunda fyrirvara vilji hann nýta sér aðstöðu skólans.
7.1. Tölvubúnaður skólans er eign skólans og ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annarra þátta er samræmast markmiðum skólans. Nemendur, sem eru að vinna verkefni vegna náms, hafa forgang í tölvur skólans.
7.2. Handhafi notandanafns er ábyrgur fyrir allri notkun þess. Aðeins einn nemandi hefur heimild til að nýta hvert notandanafn. Óheimilt er að lána öðrum notandanafn sitt og óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem nemandi hefur fengið úthlutað.
7.3. Óheimilt er að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra og einnig er óheimilt að sækja, senda, geyma eða nota á neti skólans forrit sem hægt er að nota til innbrota eða annarra skemmdarverka.
7.4. Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn í eigu annarra notenda nema leyfi þeirra sé fyrir hendi og almennt er óheimilt að afrita hugbúnað eða gögn í eigu annarra án leyfis eiganda. Um allan hugbúnað gilda ákvæði höfundarréttarlaga og því er meginreglan sú að óheimilt er að afrita hugbúnað nema það sé tekið fram í notendaleyfi.
7.5. Óheimilt er að villa á sér heimildir í samskiptum á Netinu, svo sem með því að koma fram undir fölsku nafni í tölvupósti. Óheimilt er að senda keðjubréf og annan ruslpóst. Óheimilt er að setja óþarfaforrit eða -gögn inn á gagnasvæði eða diska sem notendur hafa aðgang að.
7.6. Óheimilt er að reyna að breyta eða hafa áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda. Óheimilt að gera breytingar eða hafa áhrif á uppsetningar eða skjáborð tölvu, svo sem því að fjarlægja eða breyta kerfisskrám, breyta bakgrunni, táknmyndum eða skjáhvíld sé það hægt.
7.7. Skólinn áskilur sér rétt til að meðhöndla gögn og notendaaðgang eftir því sem þurfa þykir svo sem að fara yfir, skoða og eyða efni á gagnasvæðum.
7.8. Meðferð hvers konar matvæla eða drykkja er bönnuð í tölvuverum skólans. Nemendur skulu ganga vel um allan tölvubúnað og taka til eftir sig í tölvustofum eins og í öðrum stofum.
7.9. Frekari upplýsingar er að finna hér og í reglum þeim sem gilda í tölvutímum. Eru þær hluti af skólareglum og ber nemendum að fara eftir þeim í hvívetna.
8.1. Nemendum er heimilt að hafa snjalltæki meðferðis í skólann og tengjast skólanetinu. Tækin skulu geymd afsíðis í kennslustundum, t.d. ofan í tösku, og stillt á hljóðlaust nema kennari ákveði annað.
8.2. Kennari stýrir vinnu í kennslustundum og stjórnar notkun á snjalltækjum. Kennari ber ábyrgð á verklagi í sínum kennslustundum og hefur því fullt umboð skólans til að leyfa eða banna notkun snjalltækja.
8.3. Kennslustofur eru ekki opinber svæði. Upptaka og myndataka á einstaklingi án leyfis viðkomandi í kennslustofunni brýtur gegn opinberum reglum um persónuvernd. Slík notkun snjalltækja er því óheimil með öllu og telst alvarlegt agabrot.
8.4. Brjóti nemandi reglur skólans um notkun snjalltækja bregst skólinn við eins og um agabrot sé að ræða. Ítrekuð brot geta haft íþyngjandi afleiðingar fyrir viðkomandi nemanda.
9.1. Notkun tóbaks (reyktóbak, neftóbak og munntóbak) er stranglega bönnuð í húsakynnum skólans og á lóð hans.
9.2. Stranglega er bannað að hafa um hönd áfengi og önnur vímuefni eða vera undir áhrifum þeirra í húsnæði skólans og á lóð hans.
9.3. Neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð á öllum samkomum og ferðalögum sem eru í nafni skólans.
9.4. Notkun á rafrettum og nikótínvörum er bönnuð í húsakynnum skólans og á lóð hans. Þá eru nikótínvörur og rafrettur einnig bannaðar á samkomum og ferðalögum sem eru í nafni skólans.
10.1. Um útgáfustarfsemi nemenda gilda almennar skólareglur (sjá grein/kafla 1). Skólayfirvöld ætlast til að þar ráði heilbrigður metnaður ferðinni, framsetning efnis sé á góðu máli, myndefni sé valið af smekkvísi og fjallað sé um tímabær málefni.
10.2. Nemendur (ritstjórar, ritnefndir, greinahöfundar og aðrir hliðstæðir aðilar sem koma að gerð og birtingu efnis innan skólans) bera ábyrgð á útgáfustarfsemi sem þeir standa fyrir. Við alla fjölmiðlun, t.d. útvarpsstarfsemi og miðlun myndefnis, sem og á vefsíðum nemenda og nemendafélaga sem falla undir vefsvæði skólans, skal gæta velsæmis og almennrar háttvísi í gerð og framsetningu efnis og allri umfjöllun.
10.3. Óviðurkvæmilegt eða ærumeiðandi orðalag í útgáfu nemenda, í hvers kyns fjölmiðlun þeirra, sem og á vefsíðum tengdum skólanum getur varðað brottrekstri úr skóla.
11.1. Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skólans. Miðað er við að umsjónarkennarar og námsráðgjafi séu hafðir með í ráðum við meðferð ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra.
11.2. Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna skólans og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu má vísa því til skólastjóra. Uni málsaðilar ekki niðurstöðu skólastjóra má vísa málinu til skólanefndar.
11.3. Telji nemandi, eða forráðamenn hans sé nemandi yngri en 18 ára, að brotið hafi verið á rétti nemandans, sbr. þessar skólareglur, þannig að ástæða sé til að bera fram kvörtun skulu þeir snúa sér til viðkomandi kennara, sviðsstjóra, umsjónarkennara eða aðstoðarskólastjóra og námsráðgjafa. Takist ekki að leysa málið tekur skólastjóri það til umfjöllunar og ákvarðar um viðbrögð.
11.4. Brjóti nemandi skólareglur er honum veitt skrifleg viðvörun áður en til áminningar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum. Fái nemandi áminningu skal hún vera skrifleg þar sem fram kemur: ·tilefni áminningar og þau viðbrögð sem fylgja í kjölfarið brjóti nemandi aftur af sér, · að nemandanum sé gefinn kostur á að andmæla áminningu.
11.5. Brjóti ólögráða nemandi reglur skólans eru foreldrar/forráðamenn látnir vita um það. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga nr. 50/1996.
11.6. Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti.
12.1. Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Þeir fá ekki skotið sér undan brotum á skólareglum með skírskotun til vanþekkingar á þeim.
12.2. Skólastjórn fjallar um öll alvarleg brot á skólareglum.
12.3. Í samráði við skólastjórn ákveður skólastjóri hvaða viðurlögum skuli beitt vegna alvarlegra brota á skólareglum.
12.4. Viðurlög við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir því hve skólayfirvöld telja brotið alvarlegt: Viðvörun kennara eða umsjónarkennara, áminning skólastjóra, brottrekstur, tímabundinn eða endanlegur.