Sérúrræði á prófum

Verzlunarskóli Íslands leggur sig fram um að koma til móts við nemendur sem þurfa á sérúrræðum að halda. 

Nemendur þurfa í upphafi fyrstu annar að skila inn vottorði um greiningu til námsráðgjafa skólans á rafrænu formi. Námsráðgjafi tekur í kjölfarið faglegt viðtal við nemendur og fer yfir hvaða úrræði eiga við hverju sinni.

Umsókn um sérúrræði þarf að berast eigi síðar en 25. nóvember fyrir haustannarpróf og  25. apríl fyrir vorannarpróf. Nemendur skrá sjálfir óskir um sérúrræði í Innu og fara námsráðgjafar yfir beiðnir og samþykkja.

Nemendum stendur til boða að fá að taka lokapróf í rólegum aðstæðum, taka próf á tölvu, fá upplesin próf, taka munnleg próf, fá próf á lituðum pappír eða með stækkuðu letri.   

Verzlunarskólinn kemur til móts við nemendur með sértæka lestrarörðugleika og nemendur sem glíma við prófkvíða með lengdum próftíma. Ekki þarf að sækja sérstaklega um þetta úrræði þar sem allir fá viðbótartíma: 

60 mín lokapróf, allir fá 90 mín til að ljúka prófinu.
90 mín lokapróf, allir fá 120 mín til að ljúka prófinu.
40 mín skyndipróf tekin i kennslustund, allir fá 50 mín til að ljúka prófinu.  

Nemandi sem hefur annað heimamál en íslensku og nemendur sem eru að koma erlendis frá geta tekið með sér í próf hugtakalista sem vottaður er af kennara áfanga. Listinn þarf að berast kennara a.m.k. sólarhring fyrir próf.