Reglur skólanetsins

Verzlunarskóli Íslands ver miklum fjármunum á hverju ári til þess að geta boðið nemendum sínum nútímalega vinnuaðstöðu. Tölvur og annar vélbúnaður er endurnýjaður reglulega, notaðar eru nýjustu útgáfur af skrifstofu- og viðskiptahugbúnaði og öllum nemendum er veittur einstaklingsbundinn aðgangur að neti skólans og pláss til að geyma þar nauðsynleg tölvuskjöl.

 

Ákveðnar reglur gilda um notkun tölva í Verzlunarskólanum. Sumar eru settar af skólastjórninni til þess að tryggja áfallalausan rekstur tölvunetsins og öruggan aðgang nemenda að því. Aðrar eru settar af umsjónaraðilum Internetsins hérlendis og erlendis og er öllum sem tengjast Internetinu skylt að hlíta þeim. Brot á þessum reglum varða sviptingu aðgangs að tölvunetinu um lengri eða skemmri tíma og alvarleg eða ítrekuð brot geta leitt til brottvikningar úr skólanum. Í meginatriðum eru reglurnar þessar:

 • Nemendur eiga að tengjast netinu með eigin notendanafni en ekki nota notendanöfn annarra. Þetta er alþjóðleg regla. Nemendur mega því hvorki lána öðrum afnot af notendanafni sínu né nota nöfn annarra til að tengjast netinu.
 • Nemendur hafa með skólagjöldum keypt sitt notandanafn og afnot af heimasvæði á netinu og hafa einir afnotarétt af því. Tilraunir til að stela aðgangorðum eru litnar sömu augum og annar þjófnaður innan skólans.
 • Mikil vinna liggur á bak við uppsetningu hverrar tölvu. Þeir sem gera sér leik að því að reyna að skemma uppsetninguna eða spilla með öðrum hætti notagildi tölvubúnaðarins fyrir öðrum nemendum eru ekki æskilegir skólafélagar.
 • Umgangist aðra tölvunotendur með sömu kurteisi og þið viljið sjálf mæta í lífinu. Sýnið vinnandi fólki tillitssemi í tölvustofum, gætið þess að vera hvorki ruddaleg né illkvittin í umræðum og tölvupósti og verið ekki með dónaskap á netinu.
 • Virðið höfundarrétt, eignarrétt, afnotarétt og önnur slík réttindi á netinu. Sú staðreynd að auðvelt er að afrita efni þýðir ekki að það sé endilega almenningseign.
 • Réttur nemenda til einkaaðgangs að heimasvæði sínu gildir eingöngu gagnvart öðrum nemendum, en ekki gagnvart skólanum. Til að mynda hafa umsjónarmenn tölvunetsins fullan aðgang að öllum notendasvæðum og skólinn áskilur sér allan rétt varðandi gögn og notendanöfn.

 

Reglur um notkun skólanets Verzlunarskóla Íslands

 1. Tölvubúnaður skólans er eign skólans og ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annarra þátta er samræmast markmiðum skólans. Nemendur, sem eru að vinna verkefni vegna náms, hafa forgang í tölvur skólans.
 2. Handhafi notandanafns er ábyrgur fyrir allri notkun þess. Aðeins einn nemandi hefur heimild til að nýta hvert notandanafn. Óheimilt er að lána öðrum notandanafn sitt og óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem nemandi hefur fengið úthlutað.
 3. Óheimilt er að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra og einnig er óheimilt að sækja, senda, geyma eða nota á neti skólans forrit sem hægt er að nota til innbrota eða annarra skemmdarverka.
 4. Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn í eigu annarra notenda nema leyfi þeirra sé fyrir hendi og almennt er óheimilt er að afrita hugbúnað eða gögn í eigu annarra án leyfis eiganda. Um allan hugbúnað gilda ákvæði höfundarréttarlaga og því er meginreglan sú að óheimilt er að afrita hugbúnað nema það sé tekið fram í notendaleyfi.
 5. Óheimilt er að villa á sér heimildir í samskiptum á Netinu, svo sem með því að koma fram undir fölsku nafni í tölvupósti. Óheimilt er að senda keðjubréf og annan ruslpóst.
 6. Óheimilt er að setja forrit- eða gögn sem ekki tengjast náminu inn á gagnasvæði eða diska sem notendur hafa aðgang að.
 7. Óheimilt er að reyna að breyta eða hafa áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda. Óheimilt að gera breytingar eða hafa áhrif á uppsetningar eða skjáborð tölvu, svo sem því að fjarlægja eða breyta kerfisskrám, breyta bakgrunni, táknmyndum eða skjáhvíld sé það hægt.
 8. Skólinn áskilur sér rétt til að meðhöndla gögn og notendanúmer eftir því sem þurfa þykir svo sem að fara yfir, skoða og eyða efni á gagnasvæðum.
 9. Meðferð hvers konar matvæla eða drykkja er bönnuð í tölvuverum skólans. Nemendur skulu ganga vel um allan tölvubúnað og taka til eftir sig í tölvustofum eins og í öðrum stofum.

Verzlunarskólinn tengist Internetinu gegnum FSnetið með 10 Gbita sambandi. Internetaðgangur er ætlaður til að bæta námsaðstöðu nemenda og skal notkunin miðast við það. Notendur skólanetsins eru skuldbundnir til að fylgja almennum notkunarreglum Internetsins sem eru í stuttu máli þessar:

 • Umferð frá almenningsnotendanöfnun eða fjölnotendanöfnum sem ekki er unnt að auðkenna er óleyfileg.
 • Notkun sem truflar vinnu annarra á netinu eða netið sjálft eða veldur því að notendur eða tölvur tapa gögnum er óleyfileg.
 • Efni sem almennt telst ærumeiðandi eða illfýsið er óleyfilegt.
 • Hvers kyns óumbeðin fjöldadreifing á upplýsingum svo sem auglýsingar, stjórnmálaáróður og „keðjubréf“ eða dreifing efnis á póstlista sem ekki viðkemur viðfangsefni listans er óleyfileg.
 • Notkun sem veldur umferð á neti og fer í bága við notkunarskilmála þess nets er óleyfileg.