3. apr. 2020 : Tilkynning frá skólastjóra

Kæru nemendur.

Í dag hefst páskaleyfi eftir þriggja vikna skólahald þar sem skólinn hefur verið lokaður og nemendur og kennarar haft sína starfsstöð heima. Eftir því sem við best vitum hefur það gengið vel þessar síðustu vikur og eiga bæði kennarar og nemendur hrós skilið fyrir hversu vel hefur tekist að umbreyta náms- og kennsluaðferðum á mjög skömmum tíma.

Nú liggur fyrir að samkomubann mun vara til a.m.k. 4. maí sem þýðir að skólinn verður áfram lokaður. Kennsla mun því hefjast aftur eftir páskafrí í rafrænum heimi þann 15. apríl. Öll okkar plön lúta að því að kennslu ljúki 30. apríl. Til þess að auðvelda ykkur að skipuleggja annarlokin munu kennarar setja inn upplýsingar um yfirferð námsefnis, verkefnaskil og próf sem lögð verður fyrir eftir páska.

Samkvæmt sóttvarnarlækni mun samkomubanni verða aflétt í áföngum og fyrirsjáanlegt að framhaldsskólar verði síðastir til þess að opna aftur. Af þeim sökum hefur verið tekin ákvörðun um að lokapróf fari fram sem heimapróf. Prófdagar munu halda sér en tímasetningar einstakra prófa gætu breyst. Útfærsla á prófum í hverjum áfanga er í höndum fagstjóra og kennara. Fyrirkomulag prófs getur til dæmis verið munnlegt, rafrænt í INNU eða skriflegt. Nemendur sem taka rafræn heimapróf geta átt von á því að kennarar hafi samband og prófi munnlega úr einstökum þáttum prófsins. Nánari útfærslur verða tilkynntar eftir páska.

Vegna þessara breytinga má búast við að námsmat einstakra áfanga geti tekið breytingum og hafa kennarar heimild til að hnika til vægi einstakra einkunnaþátta. Einnig mun námsmat í einhverjum áföngum færast yfir í símat og mun þá lokapróf falla niður. Allar upplýsingar um breytingar á námsmati koma frá kennurum.

Páskaleyfi er kærkomið frí en þeir nemendur sem hafa dregist aftur úr eða eiga eftir að ljúka verkefnum í einstökum áföngum eru hvattir til að nýta tímann vel.

Skólinn sendir bestu páskakveðjur til ykkar allra og fjölskyldna ykkar. Farið vel með ykkur og fylgið leiðbeiningum Almannavarna í einu og öllu.

Kveðja,
Ingi Ólafsson
skólastjóri

3. apr. 2020 : NFVÍ í sóttkví

Á alvarlegum tímum er nauðsynlegt að huga vel að heilsu sinni, sinna smitgát og vanda sig í hvívetna í samskiptum. En það þarf líka að sinna geðheilsunni og sjá björtu hliðarnar á tilverunni. Ekki er verra ef hægt er að blanda þessu öllu saman. Nemendafélag skólans settist niður fyrir framan vefmyndavélarnar og funduðu um þetta mál á Teams. Erindið var brýnt og markmiðið aðeins eitt, að koma mikilvægum skilaboðum til nemenda og lyfta geði þeirra í leiðinni. Niðurstaðan gat aðeins orðið ein … REYNIR!!!
NFVÍ þakkar foreldrafélaginu fyrir stuðninginn og öðrum þeim sem sáðu frjóum fræjum.

27. mar. 2020 : Vegna Covid-19 hefur dagsetningum á Peysufatadeginum og Galakvöldi verið breytt

Ákveðið hefur verið að færa Peysufatadag 2. árs nemenda yfir á haustönnina en upphaflega átti hann að vera þann 29. apríl. Galakvöldi útskriftarnemenda hefur einnig verið frestað frá 30. apríl til 20. maí. Nánari upplýsingar síðar.

26. mar. 2020 : Stærðfræðikennari

Verzlunarskóli Íslands óskar að ráða stærðfræðikennara í 100% starf fyrir skólaárið 2020-2021. Hæfnikröfur:

  • Háskólapróf í stærðfræði.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.

Við bjóðum:

  • Góða vinnuaðstöðu.
  • Góðan starfsanda á framsæknum vinnustað.

25. mar. 2020 : Viltu spjalla?

Ekki hika við að hafa samband við okkur:

1. árs nemar, Sóley s:8634393- soley@verslo.is
2. árs nemar, Kristín Huld s: 8611913 - kristinh@verslo.is  
3. árs nemar, Berglind Helga s: 6978772 - berglindhelga@verslo.is

 

24. mar. 2020 : Stúdentafagnaði frestað

Fyrirhuguðum stúdentafagnaði sem vera átti 15. maí 2020 hefur verið frestað til haustsins. Nánari dagsetning verður auglýst síðar.

23. mar. 2020 : Forritunarkeppni framhaldsskólanna 2020

Forritunarkeppni framhaldsskólanna fór fram í tuttugasta sinn sl. laugardag 21. mars. Um það bil 100 keppendur í 36 liðum frá 11 framhaldsskólum tóku þátt í keppninni sem í fyrsta sinn, af ástæðum sem líklega hvert mannsbarn gerir sér grein fyrir, fór í ár eingöngu fram í gegnum netið. Stemningin var því kannski ekki alveg sú sama og venjulega þegar nemendur mæta í Háskólann í Reykjavík og félagslegi þátturinn blómstrar í leiðinni.

20. mar. 2020 : Í vikulok

Mikið hefur verið í gangi þessa fyrstu viku í skólalokun hjá okkur. Starfsmenn eru að takast á við þá áskorun að sinna starfi sínu að heiman. Þá eru nemendur að færa nám sitt úr skólastofunni heim í tölvurnar. Allir eiga hrós skilið hvernig tekist hefur til. Samstarf kennara og nemenda hefur verið gott og margar nýjar kennsluaðferðir hafa litið dagsins ljós. Rafrænir samskiptamátar eru fjölmargir og hafa þó nokkrar kennslustundir farið fram þar sem kennarinn hittir bekkinn sinn í fjarfundi. Þá hafa kennarar verið duglegir að taka upp talglærur og skýringarmyndbönd við dæmum svo eitthvað sé nefnt. Álag á kennara og nemendur hefur aldrei verið meira. Í vikulok eru allir þreyttir. Við hvetjum því kennara, jafnt sem nemendur til að taka sér helgarfrí. Hlúið vel að ykkur, farið út í göngutúr og passið upp á ykkar nánustu. Á mánudaginn setjumst við öll aftur við tölvuna og tökum upp þráðinn og hittumst í netheimum.

Við minnum á spurt&svarað.

17. mar. 2020 : Spurt og svarað vegna Covid-19

Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá bæði nemendum og forráðamönnum þeirra varðandi skólastarf í kjölfar samkomubanns. Á heimasíðunni má sjá svör við algengum spurningum sem hafa komið upp síðustu daga eins og til að mynda hvernig verður námsmati háttað og hvernig geta nemendur haft samband við kennara sína.

13. mar. 2020 : Fyrstu viðbrögð vegna skólalokunar

Nú hefur verið tilkynnt um samkomubann og lokun framhaldsskóla í 4 vikur. Það er mikilvægt að bæði nemendur og foreldrar séu meðvitaðir um að nám og kennsla heldur áfram þótt til lokunar skólans hafi komið. Um fordæmalausa aðgerð er að ræða og er litið svo á að bæði kennarar og nemendur færi starfsstöðvar sínar heim. Kennarar munu halda áfram að sinna sínum nemendum, setja fyrir, miðla efni og taka á móti verkefnum eins og kostur er.

Kennarar munu vera í sambandi við nemendur sína í gegnum INNU og þaðan beina þeim inn á aðra samskiptamiðla, eftir því sem hentar best.

Lögð verður áhersla á að tryggja að sama námsefni verði aðgengilegt öllum nemendum í sama áfanga.

Nemendur mega eiga von á að kennarar óski eftir að þeir séu tiltækir, t.d. á fjarfund eða í próf, á ákveðnum tímum eða eftir því sem stundatafla þeirra segir til um. Það er því mikilvægt að fylgjast mjög vel með fyrirmælum kennara á INNU.

Allar aðgerðir munu miðast við að annarlok verði samkvæmt skóladagatali.

Nýjar upplýsingar verða settar á heimasíðuna, eftir því sem þurfa þykir.

Hægt er að senda fyrirspurnir á thorkell@verslo.is eða gunninga@verslo.is ef einhverjar spurningar vakna.

13. mars 2020

13. mar. 2020 : Fleiri fundum í Evrópusamstarfsverkefnum frestað

Ákveðið hefur verið að fresta fundum í eftirfarandi Evrópusamstarfsverkefnum sem Verzlunarskóli Íslands er aðili að:
Reykjavík, 29. mars – 4. apríl.
Rize, Tyrklandi, 19. – 25. apríl.

Gert er ráð fyrir að ofangreindir fundir verði haldnir í upphafi næsta skólaárs á hausti komandi í ágústlok og október.

10. mar. 2020 : Breyttur opnunartími skólans vegna Covid19- veirunnar

Frá og með deginum í dag mun opnunartími skólans breytast og þar með bókasafnsins. Skólinn lokar klukkan 17:00 í stað 19:00. Þetta eru tímabundnar aðgerðir vegna neyðarstigs almannavarna vegna Covid19-veirunnar.

Síða 1 af 3