18. des. 2020 : Endurtektarpróf - próftafla

Próftafla endurtektarprófa liggur nú fyrir. Prófin fara fram dagana 4. til 7. janúar og verða lögð fyrir eftir að skóla lýkur á hverjum degi. Ráðgert er að prófin fari fram í húsnæði skólans.

Próftöfluna má finna með því að smella 7 .

18. des. 2020 : Útskrift

Fimmtudaginn 17. desember voru sjö nemendur útskrifaðir frá Verzlunarskóla Íslands. Ásdís Birta Alexandersdóttir, Elísabet Freyja Úlfarsdóttir, Helena Rut Héðinsdóttir og Sóley Arngrímsdóttir voru útskrifaðar með stúdentspróf og Aðalbjörg Valdimarsdóttir, Sara Líf Fells Elíasdóttir og Jón Steinar Brynjarsson luku Fagprófi í verslun og þjónustu. Jón Steinar lauk jafnframt stúdentsprófi. Þetta eru fyrstu nemendurnir sem útskrifast úr fagnámi verslunar og þjónustu en Verzlunarskóli Íslands hóf nýlega að bjóða upp á fagnám fyrir starfandi verslunarfólk í samstarfi við Starfsmennasjóð verslunar- og skriftstofufólks. 

17. des. 2020 : Birting einkunna og upphaf næstu annar

Nú er komið að annarlokum á önn sem hefur reynt á alla. Lokanámsmat hefur farið fram og niðurstöður liggja fyrir. Opnað verður á einkunnir nemenda í INNU klukkan 20:00 í kvöld. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára sjá einnig einkunnir á INNU.

Þeir nemendur sem ekki ná tilskildum árangri í einstaka greinum eru sjálfkrafa skráðir í endurtektarpróf sem lögð verða fyrir 4.-6.janúar. Próftafla endurtektarprófa mun birtast hér á heimasíðunni mjög fljótlega.

15. des. 2020 : Prófsýning

Einkunnir birtast í INNU fimmtudaginn 17. desember klukkan 20:00. Prófsýning verður rafræn að þessu sinni. Nemendur, sem óska eftir að sjá úrlausnir sínar í öðrum prófum en tekin voru í INNU, geta sent póst á kennara sína milli 8:30 og 10:00, föstudaginn 18. desember. Þeim póstum sem berast á réttum tíma verður svarað samdægurs en öðrum póstum munu kennarar svara við hentugleika.

Endurtektarpróf fara fram 4., 5. og 6. janúar.

4. des. 2020 : Sýning á Instagram á lokaverkefnum í Hönnun í stafrænni smiðju

Nemendur á 1. ári á Nýsköpunar- og listabraut standa fyrir sýningu á lokaverkefnum sínum í Hönnun í stafrænni smiðju. Verkin unnu nemendur á haustönninni og hvetjum við alla til að "skella" sér á þessu flottu sýningu: Hönnun í stafrænni smiðju

2. des. 2020 : Rafræn sjónlistasýning

Nemendur á öðru ári á Nýsköpunar- og listabraut standa fyrir rafrænni sjónlistasýningu þar sem verk þeirra eru til sýnis. Verkin unnu nemendur á haustönninni og hvetjum við alla til að "skella" sér á þessu flottu listasýninguna 

24. nóv. 2020 : Andlát

Guðbjörg Tómasdóttir, var dönskukennari við Verzlunarskóli Íslands um árabil. Guðbjörg naut mikillar virðingar innan skólans, bæði meðal samstarfsfólks og nemenda. Í góðum hópi dönskudeildarinnar fór fram einstaklega gefandi og uppbyggilegt samstarf og þar lagði Guðbjörg ætíð sín lóð á vogaskálarnar. Vinnuherbergi dönskudeildar umlukti víðfeðmt og skapandi samfélag, sem að mestu snerist um unglinga og kennslu, en líka innihaldsríkar samræður um áhugamál og einkalíf.

23. nóv. 2020 : Andlát

Steinunn I. Stefánsdóttir bókasafnsfræðingur er látin. Hún lést 12. nóvember síðastliðin 75 ára að aldri. Árið 1985 var Steinunn ráðin til starfa við Verzlunarskóla Íslands og fékk það hlutverk að byggja upp framtíðarbókasafn skólans. Henni tókst vel til verka og var mikil ánægja með safnið en fram að þessu höfðu nemendur viðhaft ýmsar tilraunir til að koma á bókasafni við skólann. Árið 2004 var síðan nýtt bókasafn tekið í notkun þar sem tæplega 400 fermetra viðbygging var byggð ofan á gamla safnið. Steinunn sá einnig um uppbyggingu þess safns og tókst afar vel til. Bókasafnið átti hug hennar allan og naut hún mikilla vinsælda meðal nemenda og starfsfólks. Steinunn kenndi jafnframt upplýsingatækni við skólann en hér var um brautryðjendastarf að ræða þar sem upplýsingatækni hafði ekki verið áður kennd við framhaldsskóla á Íslandi.

16. nóv. 2020 : Nýtt kennslufyrirkomulag

Kennsla mun hefjast að nýju í húsnæði skólans miðvikudaginn 18. nóvember. Kennslufyrirkomulagið frá því í haust mun aftur taka gildi, þ.e. kennsla mun ýmist fara fram í skólanum eða heima í gegnum TEAMS.

Til þess að geta uppfyllt þau ströngu sóttvarnarsjónarmið sem nú eru í gildi er grímuskylda í skólanum og lögð áhersla á mikilvægi persónubundinna sóttvarna, handþvottar og sprittunar.

Nemendur nota eftirfarandi innganga eftir því í hvaða stofum þeir eru:

 

  • Hólf 1: stofur 4-5 og 6-7: Inngangur á Marmara og beint upp í stigahúsið á vinstri hönd.
  • Hólf 2: 406-401, 405-402, 404-403: Gengið inn hjá nemendakjallara og beint upp á 4. hæð.
  • Hólf 3: 306-305, 305-302, 304-303: Gengið inn hjá bílastæði kennara og þaðan inn í nýbyggingu.
  • Hólf 4: 206-201, 205-202, 204-203: Inngangur fyrir aftan hús, milli Versló og Verkís. Farið upp um brunastigann.
  • Hólf 5: Heimilistæki og Hagkaup, Hben og Hafskip, Eimskip-Flugleiðir: Gengið inn hjá íþróttahúsi/vaktmanni.

 

Próftafla annarinnar hefur þegar verið birt á heimasíðu skólans og mun hún standa. Þau próf sem þar eru kynnt sem heimapróf verða heimapróf.

Við minnum þá nemendur, sem búa langt frá skólanum, á að hægt er að panta aðstöðu á bókasafninu til að sinna heimatímum ef ekki vinnst nægur tími til ferðalaga í hádeginu.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur í skólanum og minnum á að stutt er eftir af önninni og þið eigið hrós skilið fyrir þrautseigju og dugnað í námi.

13. nóv. 2020 : Breytt fyrirkomulag kennslu í næstu viku

Verið er að vinna að breyttu skipulagi á skólastarfi miðað við nýja reglurgerð um sóttvarnir. Reglugerðin sem tekur gildi miðvikukdaginn 18. nóvember, hefur ekki verið kynnt formlega en skv. þeim upplýsingum sem fram hafa komið í fjölmiðlum þá verða reglur fyrir framhaldsskóla rýmkaðar. Þær breytingar sem kynntar hafa verið munu gera okkur kleift að hefja staðbundna kennslu að nýju í húsnæði skólans að einhverju leyti. Nánara fyrirkomulag verður tilkynnt á mánudaginn.

12. nóv. 2020 : 1-A í Erasmus+ verkefni

Eitt af þeim nýju Erasmus+ verkefnum sem Verzlunarskóli Íslands tekur þátt í frá og með haustinu 2020 er verkefnið Digitatal Competence and e-safety, sem fjallar um leikni í meðferð upplýsingatækni og ýmis mál sem varða öryggi á þeim vettvangi. Skólar frá Grikklandi, Ítalíu, Slóvakíu og Svíþjóð standa með okkur að verkefninu. Unnin verða verkefni og tekin til umfjöllunar margvísleg efni á þessu sviði sem varða svo miklu í samtímanum. 1-A sem er á alþjóðabraut mun taka þátt í verkefninu, en kennararnir sem vinna með þeim eru Ármann Halldórsson, Bertha Sigurðardóttir og Hallur Örn Jónsson. Vikufundir með kennurum og nemendum verða haldnir í hverju landi og vonast er til að hægt verði að hefjast handa um leið og rofar til í farsóttamálum.

6. nóv. 2020 : Er þín fjölskylda NGK fjölskylda?

Norður-Atlantshafsbekkurinn (Nord-Atlantisk gymnasiumklasse), NGK, er nýjung fyrir ungmenni á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og í Danmörku, sem hafa áhuga á að mennta sig á Norður-Atlantshafssvæðinu. Nemendur mynda bekk sem á þremur árum fær bæði faglegt og menningarlegt framlag frá fjórum löndum. Að auki fá þeir aðgang að einstakri námsbraut sem inniheldur meðal annars líftækni, stærðfræði og norðurskautstækni.

Síða 1 af 9