Hópmynd

28. nóv. 2021 : Nemendur heimsóttu Grojec í Póllandi

Fjórir nemendur á 2. ári á alþjóðabraut fóru ásamt tveimur kennurum til bæjarins Grojec í Póllandi í síðustu viku. Var ferðin farin á vegum Erasmus+ nemendaskiptaáætlunarinnar sem er í boði Evrópusambandsins. Verzló hefur verið ötull þátttakandi í Erasmus+ verkefnum undanfarin ár og er þetta einungis eitt af mörgum sem eru í gangi í skólanum þessa dagana. Yfirskrift þessa verkefnis er Digital Competence and eSafety og er markmiðið að stuðla að bættri þekkingu nemenda á internetinu og sérstaklega þeim hættum sem notkun þess fylgja. Í samstarfinu eru sex skólar frá jafn mörgum löndum í Evrópu.

Nemendur hjá Sahara

25. nóv. 2021 : Nemendur í starfsnámi

Nemendur í 3D eru nú að ljúka fyrri önninni af tveimur í starfsnámi, en þau eru fyrsti árgangurinn sem tekinn var inn á nýja stafræna viðskiptalínu skólans. Samstarfsfyrirtækin okkar í starfsnáminu eru Aha, Nova, Sahara, Samkaup og 66North. Nemendur hafa fengið góða kynningu á viðkomandi fyrirtækjum og hafa verið að vinna þar margvísleg og fjölbreytt verkefni. 

20. nóv. 2021 : Heimsókn í Seðlabanka Íslands

Nemendur á þriðja ári í vali í þjóðhagfræði og á hagfræðibraut heimsóttu Seðlabanka Íslands í þessari og síðustu viku. Þar var tekið einstaklega vel á móti þeim með léttum veitingum og frábærum kynningum. Starfsmenn af skrifstofu seðlabankastjóra, fjármálaeftirlits og fjármálastöðugleika fræddu nemendur um starfsemi og hlutverk bankans.

Allir höfðu gagn og gaman af.

19. nóv. 2021 : Aðstoðarmatráður og starfsmaður í kvöldræstingar óskast

Verzlunarskóli Íslands auglýsir laus til umsóknar eftirfarandi störf:

Aðstoðarmatráður
Um er að ræða 100% starf í mötuneyti skólans sem þjónar bæði nemendum og starfsmönnum. Umsækjendur þurfa að búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum og skipulagshæfileikum. Matartækninám æskilegt eða starfsreynsla í mötuneyti.

Kvöldræstingar
Um er að ræða hlutastarf við ræstingar skólans eftir klukkan 17:00 á daginn. Umsækjendur þurfa að búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum og samviskusemi.

Nánari upplýsingar má sjá h

19. nóv. 2021 : Kennari í efnafræði óskast

Verzlunarskóli Íslands auglýsir laust til umsóknar 100% starf efnafræðikennara á vorönn 2022.

Hæfnikröfur:  

  • Háskólapróf í raungreinum 
  • Kennsluréttindi 
  • Reynsla af kennslu í framhaldsskóla er kostur

Við bjóðum:  

  • Góða vinnuaðstöðu  
  • Góðan starfsanda á framsæknum vinnustað

Nánari upplýsingar má sjá hér: Auglýsing

NGK

19. nóv. 2021 : Er þín fjölskylda NGK fjölskylda?

Norður-Atlantshafsbekkurinn (Nord-Atlantisk gymnasiumklasse), NGK, er nýjung fyrir ungmenni á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og í Danmörku, sem hafa áhuga á að mennta sig á Norður-Atlantshafssvæðinu. Nemendur mynda bekk sem á þremur árum fær bæði faglegt og menningarlegt framlag frá fjórum löndum. Að auki fá þeir aðgang að einstakri námsbraut sem inniheldur meðal annars líftækni, stærðfræði og norðurskautstækni. Kynntu þér NGK frekar og skoðaðu bæklinginn.

Nemendur á Bókasafni VÍ

18. nóv. 2021 : Bókasafnið opið á laugardögum

Laugardagana 13. og 20. nóvember verður bókasafnið opið frá kl. 12-16. Gengið er inn hjá vaktmanni (hjá íþróttahúsi).

Prófaopnun hefst síðan laugardaginn 27. nóvember og verður auglýst fljótlega.

Vælið

16. nóv. 2021 : Vælið

Vælið, söngkeppni skólans, fór fram í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. nóvember. Óhætt er að fullyrða að keppnin hafi verið glæsileg og tekist vel í alla staði. Á Vælinu komu fram 12 atriði með hæfileikaríkum nemendum skólans sem létu ljós sitt skína. Sigurvegari kvöldsins var Davíð Óttarsson. Í öðru sæti var Bára Katrín Jóhannsdóttir og í þriðja sæti Brynja Anderiman. 

 

Hópmynd

12. nóv. 2021 : Nemendur heimsækja Hamborg

Þann 4. nóvember síðastliðinn fóru 22 nemendur af 3. ári ásamt tveimur kennurum til Hamborgar og dvöldu þar til 11. nóvember. Um er að ræða Etwinning verkefni á milli Verzlunarskólans og Ida Ehre skólans í Hamborg. Nemendur unnu að sameiginlegu verkefni þar sem þeir kynntu sér sögulegar byggingar og staði í Hamborg. Íslensku nemendurnir unnu einnig sjálfstætt að verkefni þar sem þeir kynntu sér nýja hverfið „Hafencity“ í Hamborg. Ýmsir þættir voru skoðaðir eins og t.d. arkitektúr, samgöngur og sjálfbærni. Fyrir utan verkefnavinnu í skólanum var t.d. farið í skoðunarferð um borgina, siglingu um höfnina og farið í skemmtigarð innanhúss.

Listsýning nemenda í valáfanganum sjónlistum/nýlistum

9. nóv. 2021 : Listsýning fyrir framan Bláa sal

Þessa dagana fer fram sýning á verkum nemenda á þriðja ári í valáfanganum sjónlistum/ nýlistum. Verkefnin eru innblásin af verkum listamannsins Matthew Ritchie og er hugmyndin að vinna á víxl með teikningar í tvívídd og þrívídd. 

2. nóv. 2021 : Listó kynnir: Kölski klæðist Prada

Listafélag Verzlunarskóla Íslands setur upp sýningu í hátíðarsal skólans á hverju ári og eru það nemendur skólans sem að sjá um allt sem viðkemur sýningunni eins og sviðsmynd, förðun, leikskrá og svo margt fleira. Listafélagið hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði við uppsetningu “Kölski klæðist Prada” og er nú loks kominn tími til að sýna almenningi afraksturinn.

Kölski klæðist Prada er leikrit byggt á hinni feikivinsælu bíómynd The Devil wears Prada sem að kom út árið 2006. Sagan fjallar um Andy Sachs sem er að reyna að fóta sig í lífinu eftir háskóla og byrjar, fyrir hálfgerða slysni, að vinna hjá tískutímaritinu Runway þar sem að Miranda Prestley er við stjórn. Áður en Andy veit af hefur líf hennar umturnast og hún þarf að takast á við alls kyns hindranir.

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna

1. nóv. 2021 : Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna

Forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema fór fram í lok september.

Nokkrir nemendur skólans tóku þátt í keppninni og stóðu sig mjög vel. Keppt var í tveimur flokkum, annars vegar á neðra stigi sem var opið nemendum á fyrsta ári og hins vegar á efra stigi sem var opið öllum framhaldsskólanemendum. Ragna María Sverrisdóttir nemandi VÍ á fyrsta ári gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina á neðra stigi og fær þar af leiðandi boð um að vera í liðinu sem keppir í Eystrasaltskeppninni sem haldin verður í nóvember.

Framundan er úrslitakeppni sem haldin verður í mars á næsta ári en til þeirrar keppni er boðið efstu nemendum á efra og neðra stigi forkeppninnar þar sem keppt er um sæti í ólympíuliði Íslands í stærðfræði. Verzlunarskólinn á nokkra fulltrúa í þessum hópi og óskar skólinn okkar fulltrúum til hamingju með árangurinn.