
Ítalíuferð
Þann 18. október héldu 76 hressir nemendur ásamt kennurum í listasöguferð til Ítalíu. Ferðin hófst í Flórens þar sem nemendur sáu meðal annars Davíðsstyttu Micaelangelos, mörg af stórvirkjum endurreisnarinnar á söfnunum kenndum við Uffizi og Bargello, og nutu útsýnisins yfir borgina úr hvelfingu Brunelleschis á Santa Maria del Fiore. Eftir þrjá daga í Flórens var haldið til Rómar, en þar hófust leikar með ferð í Vatíkanið þar sem bar að líta Páfahöllina, Sixtínsku kapelluna og Péturskirkjuna. Eftir það gekk hópurinn um Róm og sá Panþeon, Trevi-brunninn og aðra merka staði sem vert er að skoða í borginni eilífu. Síðasta daginn í Róm var haldið í Borghese-safnið, í Colosseum og um kvöldið fór hluti hópsins í pílagrímsför á Stadio Olympico, þar sem heimamenn í Roma létu í lægra haldi fyrir sterku liði Napoli í 1-0 tapi. Síðasta sólarhring ferðarinnar var varið í Feneyjum, þar sem hluti hópsins kíkti í Hertogahöllina á meðan aðrir kusu frekar að kynnast borginni með því að versla og sigla um kanala á gondólum. Samhliða þessu naut hópurinn alls þess besta sem Ítalía hefur upp á að bjóða, borðaði góðan mat og labbaði yfir 100 kílómetra, allt í blíðskaparveðri.

Quidditch mót
Hið árlega Quidditch mót Versló var haldið í fyrsta skipti í hádeginu miðvikudaginn 26. október. Keppnin var hörð. Fyrsti leikurinn var milli Slytherin og Ravenclaw og höfðu þeir fyrrnefndu sigur, eftir að þeir náðu gullnu eldingunni, 40-10. Leikmenn Slytherin gengu nokkuð hart fram og einhverjir höfðu á orði að þeir hefðu beitt svartagaldri, en dómarinn varð ekki var við neitt slíkt.

Poppmenning í Madríd
Hópur af nemendum í spænska valfaginu Popp menning fór til Madrídar í vetrarfríinu.
Ferðin hófst á göngutúr um Madríd þar sem kennararnir Sigrún Björk og Eva Ösp sýndu nemendum miðbæinn og kenndu á metro. Einnig var farin dagsferð til Toledo, þar sem leiðsögumaður frá svæðinu leiddi hópinn um bæinn og fræddi um þann suðupott menningar sem borgin var fyrr á öldum, en þar bjuggu saman kristnir, múslimar og gyðingar. Nemendur gæddu sér á tapas, churros og paella sem eru frægustu réttir spænskrar matarmenningar og kom það þeim á óvart hvað maturinn smakkaðist vel.

Nemendur VÍ stóðu sig vel í forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema
Þriðjudaginn 4. október fór fram forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema. Ragna María Sverrisdóttir í 2X náði góðum árangri og lenti í 3. sæti keppninnar og hefur henni verið boðið að taka þátt í Eystrasaltskeppninni sem haldin verður 10. – 14. nóvember í Noregi. Jón Snider og Alexander K. Bendtsen í 3Y stóðu sig einnig með prýði og eru þau öll þrjú komin áfram í lokakeppnina sem fer fram í mars 2023.
Við óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn.

Vetrarleyfi
Vetrarfrí Verzlunarskóla Íslands verður dagana 21.-24. október og er skólinn því lokaður þann tíma. Skólinn opnar aftur þriðjudaginn 25. október.

Skólaþróunarverkefni
Strax eftir vetrarfríið, þann 25. október, munu allir nemendur á 1. ári taka þátt í tveggja vikna þróunarverkefni. Um er að ræða samþættingarverkefni dönsku, ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkunar. Yfirskrift verkefnisins er samvinna og sjálfræði og grunnurinn er heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nemendur munu vinna í teymum og fá þeir tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður.
Hugmyndafræðin að baki verkefninu er meðal annars sótt í aðalnámskrá framhaldsskóla, stefnu Verzlunarskólans, skólaþing og nýlegar íslenskar og erlendar menntarannsóknir. Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.
Allir nemendur á 1. ári mæta í Bláa sal þriðjudaginn 25. október kl. 8:30 þar sem verkefnið verður kynnt og því formlega hleypt af stokkum.

Miðannarmat
Í dag, föstudag klukkan 15:00, verður opnað fyrir miðannarmat nemenda í INNU. Foreldrar og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri geta nálgast niðurstöður matsins með því að skrá sig í INNU en foreldrar og forráðamenn lögráða nemenda verða að fá aðgang í gegnum börnin sín. Við hvetjum ykkur til að skoða matið og notað niðurstöður þess til að eiga samræður um námið og væntingar til lokamats í hverjum áfanga. Námsráðgjafar skólans munu í framhaldi af miðannarmatinu heyra sérstaklega í þeim nemendum sem ekki koma vel út og ræða námsframvindu og hvernig megi bæta hana.

Bleiki dagurinn
Starfsfólk og nemendur Verzlunarskólans tóku þátt í bleika deginum og klæddust bleiku en október er mánuður Bleiku slaufunnar sem er til stuðnings þeim konum sem greinst hafa með krabbamein.

Nemendur og kennarar skelltu sér í bíó
Nemendur á þriðja ári í nútímabókmenntum skelltu sér ásamt kennurum á kvikmyndina Svar við bréfi Helgu en þau höfðu nýlokið við lestur samnefndrar bókar Bergsveins Birgissonar sem myndin er gerð eftir. Hversu ljúft að hafa tækifæri til að gera eitthvað menningarlegt og skemmtilegt með nemendum en tengja það samt skólastarfinu og námsefninu. Í kjölfarið skrifuðu nemendur ræður um efni bókarinnar sem voru vægast sagt litríkar og líflegar, enda tilfinningaþrungin og dramatísk saga.

Jón Gnarr í heimsókn í ritlistartíma hjá 3-B
Miðstöð íslenskra bókmennta býður framhaldsskólum upp á höfundaheimsóknir í vetur og við fengum frábæra heimsókn í vikunni frá Jóni Gnarr.
Jón Gnarr kom og hitti nemendur og kennara í ritlist þar sem hann sagði frá fjölbreyttum ritstörfum sínum og sköpun gegnum tíðina. Nemendur tóku mjög vel á móti honum og spurðu ótal spurninga um t.d. persónusköpun og innblástur.

Erasmus plús verkefni - DCES
Í lok septembermánaðar fóru fjórar stelpur úr 3-A, þær Ásdís Aþena, Dagbjört María, Iðunn og Hildur, í vikuferð til eyjarinnar Kos í Grikklandi ásamt kennurunum Hönnu Lilju og Sigrúnu Björk. Tilgangur ferðarinnar var þátttaka í Erasmus plus verkefni milli Verzlunarskóla Íslands og skóla í Svíþjóð, Póllandi, Grikklandi, Slóvakíu og Ítalíu.
Verkefnið heitir Digital Competence & e-Satety, sem gengur út á að nemendur læri um hættur á netinu, persónuvernd og samskipti á netmiðlum.

Nemendasýning í Gallerí FabLab
Nemendur á fyrsta ári á Nýsköpunar- og listabraut opnuðu sýningu á dögunum í Gallerí FabLab. Þau sýna nú afrakstur síðustu tveggja mánaða í hönnun þar sem þau unnu með vínylskera og laserskera. Þau hafa lært mikið og verið mjög áhugasöm enda er sýningin stórglæsileg. Hún stendur næstu tvær vikur á 4. hæð skólans. Kennarinn þeirra er Kristín Dóra Ólafsdóttir.
- Fyrri síða
- Næsta síða