31. mar. 2023 : Páskaleyfi

Skólinn verður lokaður í páskafríinu, frá 1 apríl til 11. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 12. apríl.

Gleðilega páska!

28. mar. 2023 : Sýning hjá 1.B

Þessa vikuna sýna 15 nemendur í 1.B afrakstur síðustu mánaða í hönnun í Gallerí FabLab á 4. hæð. Þar má nefna laserskorin verk í bland við fatnað með vínylfilmum. Þau hafa unnið með marga miðla og sýningin er mjög fjölbreytt. Kennarinn þeirra er Kristín Dóra Ólafsdóttir.

Snæfríður Eva Eiríksdóttir

27. mar. 2023 : Sigurvegari Þýskuþrautar 2023

Þýskuþraut framhaldsskólanna var haldin nú í mars og gaman er að segja frá því að Snæfríður Eva Eiríksdóttir nemandi í 2-Y sigraði þyngdarstig 1, en 112 nemendur víðs vegar af landinu tóku þátt.

Í verðlaun hlaut hún 10 daga dvöl í Þýskalandi í sumar á Eurocamp í Dessau- Rosslau, en þar hittist ungt fólk frá 44 löndum í Evrópu og upplifir ævintýri saman. 

26. mar. 2023 : Skráning á auka opið hús

Auka opið hús verður miðvikudaginn 29. mars fyrir þá sem ekki gátu heimsótt skólann 9. mars.

Boðið verður upp á klukkutíma heimsókn í skólann þar sem nám skólans og félagslíf verður kynnt og boðið verður upp á Verzlólestina sem fer um skólann. Þá verður hægt að ná tali af starfsmönnum skólans og kynna sér sérstaklega einstaka námslínur.
Boðið verður upp á tvær kynningar þennan dag. Sú fyrri klukkan 16:00 og sú seinni klukkan 17:00. 

23. mar. 2023 : Slóveníuferð

Þrettán nemendur úr 2-A héldu á vit ævintýranna fyrr í mánuðinum og heimsóttu Slóveníu. Förinni var heitið til bæjarins Tolmin, krúttlegt fjallaþorp, staðsett mitt í dal umkringt fjöllum, skógum og ósnertri náttúru. Ferðin heyrir undir starfsemi Erasmus+ og er samstarfsverkefni þriggja landa, Slóveníu, Íslands og Portúgal. Höfðu íslensku nemendurnir tekið á móti þeim slóvensku fyrir jól og var nú komið að endurgjalda greiðann og upplifa þeirra heimahaga.

Martin Halldórsson, Nói Pétur Á. Guðnason og Steinar Sverrir Ragnarsson.

20. mar. 2023 : Nemendur VÍ unnu til verðlauna í frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla

Í marsmánuði er hátíð franskrar tungu haldin hátíðleg um allan heim og af því tilefni var haldin um helgina hin árlega frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla í húsakynnum Alliance française, Tryggvagötu.

Keppnin var haldin í samvinnu Félags frönskukennara á íslandi, Sendiráðs Frakklands á Íslandi og Alliance française á Íslandi.

Þema keppninnar í ár var "Qu‘est-ce que la France, le français et la francophonie pour toi ?" eða "Hvað er Frakkland, franska og frönskumælandi samfélag fyrir þér?"

Var keppnin tvískipt, 8 myndbönd komu úr grunnskólum og 12 úr framhaldsskólum.

Keppendur tóku flutning sinn upp á myndband og mátti leika sér með formið að vild; myndskreyta, leika, syngja og dansa. Myndbandið mátti ekki vera styttra en 3 mínútur og ekki lengra en 5 mínútur.

Þrír nemendur úr 2.D unnu til verðlauna fyrir framúrskarandi myndband en það voru þeir Martin Halldórsson, Nói Pétur Á. Guðnason og Steinar Sverrir Ragnarsson.

Voru þeir vel að verðlaununum komnir og óskum við þeim innilega til hamingju. 

16. mar. 2023 : Stór nemendahópur frá Danmörku kíkti í heimsókn

26 nemendur og tveir kennarar þeirra frá Gymnasiet HHX i Skjern og Gymnasiet HHX i Ringkøbing í Danmörku hafa verið í heimsókn hjá 1-S á mánudag og þriðjudag. Þetta er Erasmusverkefni þar sem nemendur vinna saman ýmis verkefni, bæði á ensku og dönsku. Einnig fóru nemendur í hópum á hina ýmsu staði í Reykjavík og kynntu svo afrakstur ferðarinnar í máli og myndum hér í skólanum.

Dönsku nemendurnir gistu heima hjá okkar íslensku nemendum eina nótt og síðan er stefnt að því að 1-S fari í heimsókn til Danmerkur í haust. 1-S hélt glæsilegt Pálínuboð í lok dags í gær þar sem boðið var upp á gómsætar veitingar. Allir kvöddust saddir og sælir og fullir tilhlökkunar fyrir endurfundum í haust. 

15. mar. 2023 : Myndir frá LÚVÍ - listahátíð útskriftarnema Verzlunarskóla Íslands

Hér má sjá skemmtilegar myndar frá LÚVÍ hátíðinni.

14. mar. 2023 : Stýrihópur NGK námsins fundaði í Versló

Stýrihópur NGK námsins fundaði í Verzlunarskólanum þann sjötta og sjöunda mars, farið var yfir stöðu námsins og framtíð þess tekin til skoðunar. Fulltrúar frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi voru á fundinum sem gekk vel.

Fundurinn fékk heimsókn frá Vestnorræna ráðinu, Steinunni Þóru Árnadóttur þingkonu Vinstri grænna og formanni ráðsins sem og Lárusi Valgarðssyni starfsmanni ráðsins.

Vestnorræna ráðið eru samtök þingmanna frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Sýndu þau verkefninu mikinn áhuga. Að loknum fundi með stýrihópnum heimsóttu þau NGK bekkinn og fengu að heyra beint frá nemendunum hvernig lífið í flökkubekknum er. Farið var yfir málefni ungs fólks á norðurslóðum, loftslagsamál og mismunandi fjárhagslegar aðstæður nemenda frá löndunum varðandi þátttöku. Þetta var vel heppnuð og skemmtileg heimsókn og liður í að vekja athygli á þessu spennandi verkefni.

Um vestnorræna ráðið: Vestræna ráðið

LÚVÍ

13. mar. 2023 : LÚVÍ - listahátíð útskriftarnema Verzlunarskóla Íslands

Listahátíð útskriftarnema VÍ er haldin hvert ár þar sem nemendur nýsköpunar-og listabrautarinnar sýna listaverk sín sem þeir hafa unnið að síðan í janúar. Listahátíðin Listahátíðin er staðsett á Marmaranum (2. hæð). Listahátíðin stendur yfir dagana 13-14. mars frá 16-18 báða dagana.

9. mar. 2023 : Takk fyrir komuna á opna húsið

Verzlunarskólinn þakkar 10. bekkingum kærlega fyrir heimsóknina. Við erum mjög þakklát fyrir þann mikla áhuga sem þeir sýndu skólanum og vonum að þeir hafi notið heimsóknarinnar og fengið góða tilfinningu fyrir því sem skólinn hefur upp á að bjóða, bæði í námi og félagslífi.

 

9. mar. 2023 : Foreldrakvöld þriðjudaginn 21. mars 2023

Foreldraráð minnir á foreldrakvöldið þriðjudaginn 21. mars 2023 í bláa salnum í Verzlunarskólanum. Mæting hefur verið mjög góð undanfarin ár þar sem foreldrar hittast, fræðast um mál sem tengjast ungmennum og eiga skemmtilega kvöldstund.

 

Dagskrá kvöldsins:

 

19:30-20:15 Hinsegin 101
20:15-20:30 Femínistafélag Versló
20:30-20:45 Kaffipása
20:45-21:15 Saga Garðars - uppistand

Síða 1 af 2