Alþjóðabekkur í Brussel

Nemendur í 3-A heimsóttu Brussel dagana 5.-9. febrúar. Ferðin var í tengslum við LOK áfangann þar sem nemendur vinna að stóru lokaverkefni sem tengist námi þeirra á alþjóðabraut. Nemendur heimsóttu íslenska sendiráðið, höfuðstöðvar NATO og skrifstofu EFTA. Alls staðar fengu nemendur kynningar á starfsemi stofnananna og yfirleitt sköpuðust líflegar umræður um hin ýmsu alþjóðamálefni ásamt vangaveltum um hvað felst í starfi Íslendinga í utanríkisþjónustunni.

Einnig heimsóttu nemendur Montgomery International skólann í Brussel. Þar fengu nemendur tækifæri til að kynnast jafnöldrum sínum ásamt því að fylgjast með og dæma úrslit í ræðukeppni raungreinanemanda við skólann.

Listasafnið Musée Oldmasters var svo heimsótt ásamt safni um sögu súkkulaðigerðar. Óþarfi er að taka fram að ógrynni súkkulaðis og vaffla var innbyrt víða um borgina.

Nemendur stóðu sig með myndarbrag og spennandi verður að sjá hvort áhugi hafi kviknað á starfsferli í utanríkisþjónustunni eða innan alþjóðastofnana.

Aðrar fréttir