Andlát

Kirsten Friðriksdóttir, fyrrum dönskukennari og deildarstjóri alþjóðadeildar, lést þann 30. október síðastliðinn.

Kirsten átti mjög farsælan hálfrar aldar starfsferil við Verzlunarskólann. Hún útskrifaðist sem stúdent vorið 1963 og þá strax um vorið var hún ráðin á skrifstofu skólans samhliða námi sínu í dönsku og mannkynssögu við Háskóla Íslands. Árið 1967 var Kirsten ráðin dönskukennari við skólann og starfaði óslitið við hann til ársins 2017. Kirsten lét til sín taka á ýmsum sviðum skólans og þá gjarnan þar sem nýjungar þurfti að festa í sessi. Hún var framsækin í sinni kennslu og tók fagnandi allri nýbreytni í kennsluháttum. Árin 1986-1997 var Kirsten kennslustjóri öldungadeildar, sem þá var starfrækt við skólann. Frá 1997 til 2010 var Kirsten deildarstjóri alþjóðadeildar og lagði þar grunninn að því öfluga alþjóðasamstarfi sem nemendum skólans býðst að taka þátt í ár hvert. Hin síðustu ár var Kirsten fjarnámskennari við skólann og kenndi þá efstu áfangana í dönsku.
Við minnumst Kirstenar Friðriksdóttur með hlýhug og erum þakklát fyrir það mikla brautryðjendastarf sem hún vann fyrir Verzlunarskólann. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sigrúnu Ölbu, Erni og fjölskyldunni allri.

Aðrar fréttir