Brautskráning stúdenta

 

Verzlunarskóla Íslands var slitið í 105. sinn laugardaginn 22. maí og var það fjölmennasta brautskráning í sögu skólans. Alls brautskráðust 297 nýstúdentar og þar af 15 úr fjarnámi skólans. Í útskriftarhópnum voru 169 stúlkur og 128 piltar. Dúx skólans var Erna Björg Sverrisdóttir með aðaleinkunnina 9,6. Næstir voru fjórir nemendur með aðaleinkunnina 9,2 en það voru þau Sævar Már Atlason, Sigrún Lína Pétursdóttir, Kristín María Gunnarsdóttir og Harpa Sif Gísladóttir og síðan kom Heiða Lind Sigurbjörnsdóttir með aðaleinkunnina 9,1.

Á útskriftinni var einnig úthlutað úr VÍ 100 sjóðnum sem stofnaður var í tilefni af aldarafmæli skólans. Fyrrum nemendur skólans og velunnarar hans lögðu fé í sjóðinn og skal hann m.a. verðlauna afburða nemendur og þá sem lagt hafa mikið af mörkum til félagslífs skólans.  Merkúrstyttan er gjöf til Verzlunarskólans frá fyrrverandi nemanda skólans. Hún er veitt sem heiðursviðurkenning fyrir m.a. dáð og afrek sem varpar ljóma á skólann, eins og segir í skipulagsskrá. Að þessu sinni var það Góðgerðarráð Verzlunarskólans sem hlaut styttuna en meginverkefni ráðsins hefur verið m.a. að stofna "Litla Verzló" í Úganda og sinna nærsamfélagi hans í samvinnu við Barnahjálp ABC.

Á næstunni halda síðan nýstúdentar í útskriftarferð til Spánar.

Aðrar fréttir