21. sep. 2016

Foreldrakvöld í Verzló - Bláa sal

Þriðjudaginn 27. sept. kl. 19:30

VERIÐ VELKOMIN Á FORELDRAKVÖLD Í VERSLÓ

Þriðjudaginn 27. sept. kl. 19.30 býður Foreldraráðið öllum foreldrum í Versló á foreldrakvöld með góðum veitingum, skemmtilegri samveru og fjölbreyttri dagskrá í Bláa sal sem er eftirfarandi:

AÐALFUNDUR Foreldrafélagsins
Hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum félagsins

NFVÍ – Hvað er að gerast í vetur?
Kynning stjórnar NFVÍ á því sem framundan er í félagslífinu í vetur

FRÍMÍNÚTUR (hlé)
Tækifæri til tengslamyndunar yfir kaffibolla, gosi og góðum veitingum

FYRIRLESTURINN „Verum ástfangin af lífinu“ – Þorgrímur Þráinsson
Stolt bjóðum við foreldrum upp á jákvæðan og uppbyggilegan fyrirlestur með Þorgrími Þráinssyni sem er flestum löngu landskunnur. Þorgrímur er afar eftirsóttur fyrirlesari, hefur haldið fyrirlestra fyrir ungmenni í fjölda ára og fyrir atvinnulífið undanfarin tvö ár. Sjálfur er hann þriggja barna faðir og hefur glímt við margvísleg ,,uppeldisleg“ vandamál. Þorgrímur hefur jafnframt unnið með landsliðinu í knattspyrnu í 10 ár og segir frá því hvað sterk liðsheild og jákvætt hugarfar skipta miklu máli eins og árangur Íslands á EM sýndi svo sannarlega. Hann fer einnig inn á það hversu miklu máli það skiptir að vera í góðu jafnvægi dags daglega, setja sér markmið og gera góðverk og ræðir hvað við foreldrarnir getum gert til að hvetja ,,börnin“ okkar til dáða? Er hreyfing og hollt mataræði lykillinn að vellíðan eða skipta ,,like“ meira máli?

DAGSKRÁRLOK – áætluð um kl. 22.00
Um leið og við hvetjum alla foreldra að fjölmenna á Foreldrakvöldið, fræðast og hafa gaman saman vekjum við athygli á því að „Foreldraráðsglugginn“ hefur nú verið opnaður.  Þetta þýðir að sjálfsögðu  frábært tækifæri fyrir hressa foreldra að gefa kost á sér í stjórnina í stað þeirra sem nú ljúka störfum.  Hægt er að senda okkur skilaboð í gegnum FB síðu Foreldrafélagsins, senda formanni Foreldraráðsins tölvupóst á netfangið mariabjorkoskars@gmail.com eða gefa sig fram á sjálfum aðalfundinum.  Þeir sem vilja hjálpa til við ballgæslu á einu balli eða svo í vetur geta gert það með sama hætti.

Bestu kveðjur og HLÖKKUM TIL  að sjá ykkur sem flest á Foreldrakvöldinu 

FORELDRARÁÐIÐ

 

Fréttasafn