Fyrsta brautskráning NGK-bekkjarins

Fyrsta brautskráning Norður-Atlantshafsbekkjarins fór fram í blíðskaparveðri í Sisimiut á Grænlandi í dag, 28. júní. Alls brautskráðust 22 nemendur með danskt stúdentspróf og þar á meðal voru fimm íslenskir nemendur, Björn Rafnar Ólafsson, Freydís Glóð Viborg, Markus Halfdan Haar, Svava Þóra Árnadóttir og Valtýr Elliði Einarsson. Þau hafa verið verðugir fulltrúar Íslands í þessu einstaka samvinnuverkefni fjögurra skóla í jafnmörgum löndum.

Með þessari útskrift hefur fyrsti hópurinn klárað þá ævintýralegu vegferð sem námið í Norður – Atlantshafsbekknum er, en nemendur dvelja fyrsta árið sitt í Gribskov í Danmörku. Annað námsárið skiptist í tvennt, annars vegar haustönn í Færeyjum og hins vegar í Verzló á vorönn. Lokanámsárið er svo á Grænlandi. Önnin í Verzló var sérlega ánægjuleg og gaman að hafa þennan merkilega nemendahóp hjá okkur og kynnast þeim vel.

Nemendur bekkjarins eru einstaklega samheldin hópur og hafa tekið út mikinn þroska á vegferð sinni. Námið gekk mjög vel hjá þeim og það voru stoltir nemendur sem tóku við skírteinum sínum við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu í Sisimiut að viðstöddum fjölskyldum sínum og fulltrúum Verzlunarskólans.

Einn NGK bekkur er á hverju námsári og munu því íslenskir NGK nemendur vera við nám í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi núna í haust. Hægt er að lesa meira um NGK-bekkinn hér .

Aðrar fréttir