27.02.2014 Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands GVÍ, Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands, hefur látið margt gott af sér leiða í gegnum árin. Til að mynda stóð GVÍ að því að reisa barnaskóla í Úganda, í samstarfi við ABC barnahjálp, sem fékk nafnið Litli Verzló. GVÍ hefur einnig fjármagnað byggingu á vatnsbrunni við skólann og hafa nemendur þar af leiðandi aðgang að hreinu vatni. GVÍ var jafnframt í samstarfi við Tears for Children síðustu tvö ár og var afraksturinn bygging leikskóla í Kenýa. Í ár hefur ráðið ákveðið að aðstoða skóla sem heitir Faisalabad og er í Pakistan. Þegar hafa safnast 746,528 kr. og dugði sú fjárhæð fyrir borðum, stólum, tússtöflum, viftum og fleira. Í næstu viku verður góðgerðarvika GVÍ þar sem safnað verður fyrir skólabókum fyrir unga nemendur í Pakistan. Til upplýsingar má geta þess að bækur fyrir einn nemanda kosta 900 krónur. Að sjálfsögðu verða bollur seldar á bolludaginn og hvetjum við alla til að styrkja þetta góða málefni. Starfsmenn skólans eru afar stoltir af þessu flotta verkefni nemenda. GVÍ seldi ljúffengar bollakökur á Marmaranum.