10. sep. 2021

Grunnþættir menntunar í Verzló

  • Grunnthaettir-menntunar

Mikilvægur þáttur í skólastarfi Verzlunarskóla Íslands er að meta starfið og sjá hvað vel er gert og gera umbætur þar sem þurfa þykir. Síðastliðið vor var efnt til starfsdags meðal starfsmanna skólans til að rýna í hvernig og hversu mikið unnið er með grunnþætti menntunar. Grunnþættir menntunar birtast í menntastefnu Aðalnámskrá framhaldsskólanna frá 2011 sem reist er á sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og loks sköpun. Þessum sex grunnþáttum er ætlað að fléttast inn í allt skólastarfið. Við gerð námskrár skólans sem tók gildi árið 2015 var sérstaklega tekið mið af grunnþáttunum og þótti því áhugavert að sjá hvernig til hefði tekist nokkrum árum síðar. Fyrir áhugasama má lesa nánar um grunnþætti menntunar á blaðsíðu 14 í Aðalnámskrá framhaldsskólanna.

Á starfsdeginum rýndu fögin í áfanga sína og stoðdeildir skólans í skólastarfið sem birtist fyrir utan skólastofurnar. Þátttakendur voru beðnir um að skrifa með hvaða hætti unnið væri með hvern og einn grunnþátt í áföngunum eða í öðru sem sneri að skólastarfinu og gefa hverjum þætti einkunn frá einum til fimm. Einkunnir sem starfsfólk skólans gaf grunnþáttunum sést á kökuritinu hér fyrir neðan.

Grunnthaettir-kakaÁnægjulegt var að sjá að í skólastarfinu í heild er öllum grunnþáttum sinnt með sóma eða frá 3,69 (sjálfbærni) og upp í 4,46 (læsi). Nánara er hægt að sjá um vinnuna með grunnþættina ásamt fleiru sem lýtur að innra mati skólans í Sjálfsmatsskýrslu 2020-2021.

 

 

Fréttasafn