Heimsókn frá Frakklandi, Spáni og Austurríki

Dagana 22. -29. september voru 15 nemendur Verzlunarskólans á 2. ári gestgjafar 15 nemenda frá Frakklandi, Spáni og Austurríki í verkefni á vegum Erasmus+. Heimsóknin var sú síðasta í þessu fjögurra landa samstarfi en íslensku nemendurnir höfðu áður farið til hinna landanna.

Meginmarkmið Erasmus+ verkefnisins var að fræða nemendur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvetja þá til að tengja þessi markmið við sitt eigið daglega líf.

Dagskrá vikunnar var fjölbreytt og fengu nemendur m.a. fræðslu um sjálfbærni áherslur Bláa lónsins, þeir heimsóttu Hellisheiðavirkjun, fengu fyrirlestur frá Landvernd um stöðuna á Íslandi og hvað er verið að gera til að vernda landið og auðæfi þess. Fyrirlestur um stöðu Íslands í að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna svo eitthvað sé nefnt. Einnig fengu nemendur að skoða náttúruperlur Íslands eins og Seljalandsfoss, Skógarfoss, Sólheimajökul og Reynisfjöru.

Síðast en ekki síst fengu gestirnir að upplifa menningu og siði hér á landi með dvöl sinni inni á íslensku heimilunum og þökkum við nemendum og foreldrum fyrir að taka vel á móti gestunum.

Aðrar fréttir