Heimsókn til Færeyja

Norður- Atlantshafsbekkurinn okkar, 2N NGK, var heimsóttur í Miðnám í Kamsdal nú fyrr í mánuðinum og voru móttökurnar vægast sagt frábærar. Bekkurinn kemur til Íslands í janúar 2022 og hefur þá nám í Versló. Því næst heldur hann til Grænlands haustið ‘22 og útskrifast með danskt stúdentspróf þar í landi vorið ‘23. Lífið í Færeyjum er töluvert ólíkt því sem þau kynntust í Danmörku þar sem fyrsta námsárið fór fram. Þá er að sögn hópsins allt miklu rólegra og yfirvegaðra í Færeyjum. Við sem heimsóttum hópinn, Ármann alþjóðafulltrúi og Berglind Helga náms- og starfsráðgjafi getum með sanni sagt að þarna er á ferðinni virkilega flottur og vel samsettur nemendahópur frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þau eru mjög spennt að koma til okkar í Versló og við ekki síður spennt að taka á móti þeim. Eftir stutta og góða samveru með krökkunum myndum við helst vilja taka sjálf á móti hverjum einasta nemanda inn á okkar eigið heimili en það má víst ekki. Um þessar mundir er því leitað eftir fjölskyldum til að hýsa þau. Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig til leiks hjá Ármanni Halldórssyni, verkefnastjóra í alþjóðasamskiptum.

Aðrar fréttir