Hópur frá Tékklandi í heimsókn

Vikuna 16.-20. janúar tóku 15 nemendur í 2-S á móti jafnstórum hópi frá Hello framhaldsskólanum í Ostrava í Tékklandi. Verkefnið er styrkt af EES menntasjóðnum og er tvíhliða samstarf skólanna tveggja. Viðfangsefni verkefnisins er notkun á stafrænum miðlum í fjölbreyttu samhengi og ber það yfirskriftina Digital technologies without borders.

 

Nemendur og kennarar sóttu tíma og unnu ýmis verkefni, meðal annars leiki á borð við Action bound og unnu bók um verkefnið í Book creator. Jafnframt var farið í fjölbreyttar ferðir, m.a. skoðunarferð um Reykjavík og eins var Háskóli Íslands skoðaður.

Um miðja vikuna var gestunum ásamt NGK bekknum boðið að fara Gullna hringinn sem var einstaklega vel lukkuð ferð þar sem hópurinn upplifði  fjölbreytta náttúru Íslands undir frábærri leiðsögn Sigurðar Hlíðar. Að endingu skellti hópurinn sér í Bláa lónið sem vakti mikla hrifningu þeirra.

Næsti liður verkefnisins er svo heimsókn íslenska hópsins til Ostrava og verður spennandi að fylgjast með ævintýrum þeirra þar.

Aðrar fréttir