Hópurinn VON krúsir afhenti Krabbameinsfélaginu 1.000.000 kr.

Í síðustu viku hittist hópurinn VON krúsir í húsnæði Krabbameinsfélagisns til að ljúka með formlegum hætti áfanganum Frumkvöðlafræði frá því á vorönn 2018. Hópurinn er skipaður fimm stelpum, þeim Önnu Maríu, Páldísi, Arndísi, Elfu og Valgerði.
Þegar hugmyndavinnan hófst í janúar sl. voru þær staðráðnar í því að þær vildu láta eitthvað gott af sér leiða. Fljótlega fengu þær þá frábæru hugmynd að hanna og gera sjálfar keramikbolla og ákváðu að allur ágóði af sölunni myndi renna til Krabbameinsfélagsins. Upphaflega var markmiðið þeirra að selja um 100 bolla og gefa Krabbameinsfélaginu 500.000 kr. en það er skemmst frá því að segja að þær náðu að selja yfir 400 bolla og gefa Krabbameinsfélaginu hvorki meira né minna en 1.000.000 kr. Það má með sanni segja að stelpurnar hafa lagt mikið á sig til að ljúka því verkefni sem þær lögðu af stað með og þær hafa ekki setið auðum höndum eftir að skóla lauk í vor.

 

Það voru því stoltar stelpur sem afhentu Krabbameinsfélaginu kr. 1.000.000 og skólinn er ekki síður stoltur að eiga nemendur sem standa sig jafn vel og þær hafa gert. Til hamingju stelpur með frábæran árangur.

Aðrar fréttir