Jarðfræðiferð til Grindavíkur

Í lok apríl fóru nemendur úr bekkjunum 1-R og 1-Y í jarðfræðiferð til Grindavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að skoða aðstæður á svæðinu og fá innsýn í áhrif jarðhræringa á bæinn.

Nemendur fengu fróðlega kynningu frá fulltrúum björgunarsveitanna, þar sem fjallað var um viðbrögð við eldgosum og hvernig daglegt líf íbúa mótast af óvissuástandi milli eldgosa. Nemendur fengu einnig að skoða þær breytingar og skemmdir sem orðið hafa á umhverfinu og mannvirkjunum í kjölfar síðustu atburða.

Að því loknu var haldið út fyrir bæinn, að Nátthaga, þar sem hraunið rann niður úr Geldingadölum. Þar gátu nemendur séð með eigin augum hvernig hraunið hefur breyst með tímanum vegna veðrunar.

Ferðinni lauk í Krýsuvík, þar sem nemendur skoðuðu jarðhitasvæði og sprengigíga. Nemendur lýstu ferðinni sem bæði fræðandi og áhrifamikilli. Að fá að sjá og upplifa jarðfræðileg fyrirbæri á vettvangi veitti þeim dýpri skilning á þeim náttúruöflum sem móta landið okkar.

Aðrar fréttir