Kennsla að loknu páskaleyfi
Nú hefur ný reglugerð um takmarkanir í framhaldsskólum tekið gildi. Það ánægjulegt að geta tilkynnt að skólahald mun hefjast að fullu miðvikudaginn 7. apríl og allir tímar stundatöflu kenndir í staðnámi í skólanum.
Meginbreytingin er sú að nú er grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra á milli aðila. Þetta á við í öllum kennslustofum skólans og á göngum hans.
Þar sem allir árgangar eru að koma í skólann á sama tíma er mikilvægt að nemendur noti þá innganga sem þeirra heimastofa hefur fengið úthlutað. (sjá frétt )
Þá hvetjum við nemendur til að koma með nesti til að minnka sem mest umferð á göngum skólans og við innganga.
Heitur matur verður áfram seldur í gegnum vefverslun Matbúðar. Maturinn er sóttur í Matbúð þegar þið hafið fengið sms um að varan sé tilbúin til afhendingar.
Íþróttakennsla verður áfram í formi útikennslu á meðan núgildandi reglur gilda.
Við gerum okkur öll grein fyrir því að COVID-19 er ekki búið og enn eru smit í samfélaginu okkar. Haldið áfram að fylgjast með fréttum því ófyrirsjáanleikinn er mikill og breytingar geta orðið með stuttum fyrirvara. Við uppfærum heimasíðuna samhliða þeim reglum sem gilda á hverjum tíma.
Stöndum saman og sinnum persónubundnum sóttvörnum með það að leiðarljósi að skólahald geti haldið áfram í staðnámi á þessari önn.
Þá ítrekum við að þeir sem finna fyrir einhverjum einkennum haldi sig heima og fari í sýnatöku.
Við hlökkum til að sjá ykkur í skólanum, alla daga, allan daginn.
Gleðilega páska,
Skólastjórnendur