Kynningarfundur á NGK – Norður Atlantshafsbekknum

Mánudaginn, 22. febrúar klukkan 17:00 munu nemendur í Norður-Altantshafsbekknum ásamt forsvarsmönnum skólans bjóða áhugasömum 10. bekkingum og forráðamönnum þeirra  á kynningarfund í húsnæði skólans.

Þá verður einnig boðið upp á rafrænan kynningarfund fyrir þá sem ekki geta mætt á mánudeginum. Sá kynningarfundur verður fimmtudaginn 25. febrúar klukkan 17:00. Skráning á þann fund fer fram hér.

Fjórir framhaldsskólar, Gribskov Gymnasium í Danmörku, GUX Sisimiut á Grænlandi, Miðnám á Kambsdali í Færeyjum og Verzlunarskóli Íslands, standa saman að framsæknu samstarfsverkefni um 3ja ára nám til stúdentsprófs af náttúrufræðibraut. Um er að ræða einstaka námsbraut með sérstaka áherslu á norðurskautstækni. Verkefnið felur í sér að mynda blandaðan framhaldsskólabekk með nemendum frá öllum fjórum löndunum. Í þennan bekk innritast nemendur sem ljúka 10. bekk nú í vor. Nemendur útskrifast með fullkomlega gilt danskt stúdentspróf og fer kennslan fram á dönsku.

Nemendur sem hófu nám í fyrsta árgangi námsins eru nú staddir á Íslandi og stunda nám sitt við Verzlunarskólann. Hópurinn setti saman kynningarmyndband ætlað nemendum í 10. bekk til að kynna námið og þetta einstaka tækifæri að stunda nám í fjórum löndum.

Allir 10. bekkingar eru hvattir til að kynna sér námið með því að horfa á myndbandið, lesa nánari lýsingu á náminu á heimasíðu skólans og mæta á kynningarfund.

Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. mars 2021. Íslenskir nemendur senda inn umsókn á verslo@verslo.is og post@gribskovgymnasium.dk. Umsóknin þarf að vera á dönsku og þar segja nemendur frá sjálfum sér, hvað þeir hafa gert fyrir utan námið og láta fylgja með einkunnir og umsagnir ef einhverjar eru fyrir hendi. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans: Norður Atlantshafsbekkurinn
Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið verslo@verslo.is

Einstakt tækifæri til náms

Aðrar fréttir