Listasöguferð til Ítalíu

Dagana 19. til 26. október fóru allir nemendur á 3. ári á lista- og nýsköpunarbraut ásamt nemendum í listasöguvali í námsferð til Ítalíu. Ferðin hófst í Róm þar sem m.a. var farið í Páfahöllina, Sixtínsku kapelluna, Péturskirkjuna, Panþeonhofið, Jesúítakirkjuna, hringleikahúsið Colosseum og Galleria Borghese þar sem margar af glæsilegustu höggmyndum barokktímans eru til sýnis. Þaðan lá leiðin til Flórens þar sem hópurinn fór í hið frábæra Uffizi listasafn sem hefur að geyma mörg af helstu verkum endurreisnarinnar sem og í Galleria Accademia sem hýsir Davíðsstyttu Michelangelos. Einnig fór stór hluti hópsins upp í hvelfingu dómkirkju borgarinnar sem er eitt helsta byggingarfræðilegt undur sögunnar. Ferðinni lauk svo með stuttu stoppi í Mílanó en miðpunktur borgarinnar, hin glæsilega gotneska dómkirkja Duomo, var heimsótt og farið saman upp á þak hennar. Óhætt er að segja að ferðin hafi heppnast einkar vel og voru þátttakendur skólanum til mikils sóma.

Aðrar fréttir