17.10.2025 Myndir frá 120 ára afmæli Verzlunarskólans Verzlunarskóli Íslands hélt upp á 120 ára afmæli sitt í gær, fimmtudaginn 16. október og lagði fjöldi gesta leið sína í skólann til að fagna þessum merka áfanga í sögu hans. Í tilefni dagsins var afhjúpuð tímalína á annari hæð skólans sem sýnir sögu Verzlunarskólans frá stofnun árið 1905 til dagsins í dag. Skólakórinn flutti nokkur lög og nemendur á þriðja ári sungu við notalega stemningu sem fyllti húsakynni skólans af lífi og gleði. Gestum gafst tækifæri til að prófa sig áfram í vélritun, sem vakti bæði forvitni og nostalgíu. Listafélag skólans hélt opna æfingu á verkinu Týnd á tveimur stöðum og bókasafnið setti upp sýningu á skólablöðum sem nemendur hafa gefið út í gegnum tíðina. Einnig voru flutt hlýleg og skemmtileg ávörp þar sem minnst var sögu skólans og samfélagsins sem hann hefur skapað. Við þökkum öllum þeim sem sáu sér fært að mæta og samgleðjast með okkur á þessum skemmtilega degi. Hér má lesa smá brot úr sögu skólans: Skólinn var stofnaður árið 1905 að frumkvæði Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og var markmiðið að efla verslunarstétt bæjarins. Það endurspeglast í námsgreinum sem kenndar voru fyrstu árin: reikningur, bókfærsla, íslenska, enska og danska. Skólinn var fyrst til húsa í Vinaminni við Mjóstræti 3 og fór kennslan aðallega fram milli klukkan 8 og 10, sex daga vikunnar, áður en verslanir opnuðu. Daglegur skólatími var orðinn sex klukkustundir eftir fimm ára starf. Skólinn flutti í núverandi húsnæði að Ofanleiti 1 árið 1986 en fram að því hafði skólinn verið til húsa á nokkrum stöðum í miðborg Reykjavíkur, meðal annars í Vinaminni við Mjóstræti, í Melsteðshúsi við Austurstræti, á Vesturgötu 10A en lengst af við Grundarstíg. Þar starfaði skólinn árin 1931 til 1986 og frá 1962 einnig í nýbyggingu við Þingholtsstræti. Viðbygging við skólahúsið að Ofanleiti var tekin í notkun árið 2003. Verzlunarskólinn hefur frá upphafi lagt áherslu á jafnrétti kynjanna til náms. Stofnárið 1905 innrituðust jöfnum höndum piltar og stúlkur, nokkuð sem var óvenjulegt á þeim tíma og markaði framfaraskref í jafnréttisbaráttunni. Fyrsti dúx skólans árið1907 var Lovísa Ágústsdóttir Fjeldsted. Fyrstu stúdentar skólans útskrifuðust árið 1945. Árið 2021 var heldur farið að halla á drengi meðal innritaðra nemenda en þá var, í anda jafnréttissjónarmiða, tekin ákvörðun um að tryggja að ekki yrðu fleiri en 60% af einu kyni meðal nýnema. Nám í skólanum miðaði í fyrstu eingöngu að undbúningi verslunarfólks en lærdómsbraut til stúdentsprófs bættist við árið 1943 og fyrstu stúdentarnir útskrifuðust árið 1945. Grunnurinn var lagður að núverandi brautaskiptingu árið 1997 þegar alþjóðabraut og viðskiptabraut bættust við hagfræði-, mála- og stærðfræðibraut. Listgreinar fengu svo aukið vægi í skólanum þegar nám á nýsköpunar- og listabraut hófst árið 2015, sama ár og námstíminn var styttur úr fjórum árum í þrjú. Þá hefur á starfsárum skólans verið starfrækt við Verzlunarskólann öldungadeild, nám í tölvufræði, verslunarfagnám og kennsla í Norður-Atlantshafsbekknum í samstarfi við skóla í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. Á þessum tímamótum, þegar skólinn fagnar 120 ára afmæli sínu, eru nemendafjöldinn 1120 í þremur bekkjardeildum og starfsmenn skólans 125 talsins.