20.04.2023 Nemendahópur heimsótti Gaia í Portúgal Vikuna 17.-21. apríl voru 11 nemendur úr 2.A ásamt kennurum sínum, Ingunni, Óla Njáli og Ármanni í Erasmus+ verkefnaviku í Gaia í Portúgal, en Gaia er systurborg Porto. Vikan hófst með þátttöku í mikilvægum menningarviðburði heimamanna – stórleik Porto gegn Santa Clara – sem okkar menn unnu 2-1! Í forrétt þann dag var boðið upp á handboltaleik gegn ABC Braga, sem heimamenn unnu að sjálfsögðu örugglega. Stemmingin á leiknum var algjörlega frábær og bæði grjótharðir fótboltaaðdáendur og hinir sem hafa minni þekkingu og reynslu á því sviði skemmtu sér konunglega. Gestgjafarnir í EGAS framhaldsskólanum tóku vel á móti hópnum, en auk Íslendinga eru nemendur og kennarar úr framhaldsskóla í Tolmin í Slóveníu þátttakendur í verkefninu. Viðfangsefni vikunnar eru ýmsar pælingar um menningartengsl og hefðir, og í þessari viku var litið til heimsminjaskrár Unesco. Lokaverkefnið fólst í að hanna ferð um löndin þrjú með heimsóknum á staði sem eru á heimsminjaskránni. Ferðin gekk mjög vel, íslenskir nemendur til sóma og þetta var frábært tækifæri til að kynnast þessu fallega svæði og því góða fólki sem þar býr.