Nemendur heimsækja Rennes

Dagana 20. til 28. september dvaldi 23 manna nemendahópur ásamt tveimur kennurum í borginni Rennes á Bretagne skaga. Dvöldu nemendur sem flestir eru með frönsku sem 3. mál, hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum og siðum, auk þess sem þau þjálfuðu færni sína í tungumálinu.

Farið var í skoðunarferðir til Mont Saint Michel, sem er klaustur staðsett á lítilli eyju í Normandie, farið var á Omaha og Utah strendurnar þar sem ein frægasta og afdrifaríkasta innrás seinni heimsstyrjaldar var gerð. Þessi innrás er betur þekkt undir nafninu D-Day eða d-dagurinn, en þann 6.júní 1944 gengu sveitir bandabanna á land við strendur Normandie og olli landgangan þáttaskilum í stríðinu.

Miðaldabærinn Dinan var heimsóttur, farið var til Bayeux og hinn frægi Bayeux-refill skoðaður, en það er 70 metra langt og 50 cm breitt refilssaumað klæði sem segir frá orustunni við Hastings árið 1066, borgin Rennes var skoðuð auk þess sem nemendur sátu í frönskum kennslustundum.

Vel var tekið á móti hópnum en verið var að endurgjalda heimsókn franskra ungmenna til Íslands í mars 2019.

Nemendur voru sammála því að álag fylgir því að taka þátt í svona verkefni, en um leið eru svona heimsóknir lærdómsríkar og gefandi fyrir þátttakendur.

Aðrar fréttir