Sumarleyfi
Nú líður senn að sumarlokun skrifstofu Verzlunarskólans. Endurtektarprófum er lokið og nemendur hafa fengið einkunn birta á INNU.
Þeir nemendur sem ekki náðu markmiðum sínum í endurtektarprófunum eða gátu ekki þreytt endurtektarpróf hafa tækifæri til að ljúka áföngum vetrarins í fjarnámi skólans í sumar en sumarönn er þegar hafin.
Skráning fer fram hér á heimasíðu skólans auk þess hægt er að nálgast próftöflu sumarannar.
Þá viljum við benda á að Verzlunarskólinn er bekkjarskóli og nemendur fylgjast að í námi við skólann. Því er ekki heimilt að nemendur taki einstaka áfanga í fjarnámi á sumrin sem eru skilgreindir á braut viðkomandi nemanda til að fækka áföngum á komandi skólaári.
Við minnum einnig á 5. kafla í skólareglum skólans hvað varðar námsmat og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að færast upp á næsta ár.
Kennsla haustannar hefst mánudaginn 22. ágúst. Nýnemar koma í skólann föstudaginn 19. ágúst og fá kynningu á skólanum. Skóladagatal næsta skólaárs er aðgengilegt hér á síðunni.
Við biðjum forráðamenn að skipuleggja frí barna sinna þannig að það hafi ekki áhrif á mætingu þeirra í skólann.
Stundatöflur verða aðgengilegar á INNU í byrjun ágúst.
Bókalistar eru aðgengilegir á heimasíðunni og verða einnig aðgengilegir í INNU í ágúst.
Greiðsluseðlar vegna skólagjalda verða sendir út í lok júní. Ef nemendur sem eru að færast á milli ára fá ekki greiðsluseðla getur það verið vegna ólokinna áfanga sem þarf að ljúka til að fara upp á næsta ár.
Skrifstofa skólans verður lokuð frá 17. júní til og með 2. ágúst.
Fyrsti prófadagur á sumarönn og jafnframt fyrsti opnunardagur skrifstofu skólans verður miðvikudaginn 3. ágúst.
Erindum til skólans utan opnunartíma skrifstofu er best að beina á netfang skólans, verslo@verslo.is, sem vaktað er í sumar.
Starfsfólk skólans óskar nemendum skólans og forráðamönnum þeirra gleðilegs sumars.