Tveir nemendur frá Verzlunarskólanum fluttu erindi á ráðstefnunni "Velferð barna"

Dagana 19.-21. september s.l. var haldin ráðstefna í Reykjavík með yfirskriftinni ,,Velferð barna“. Að ráðstefnunni stóðu Samtök norrænna og írskra stjórnenda í menntamálum, frá sveitarfélögum, ráðuneytum menntamála og háskólum þátttökulandanna. Samtök þessi kallast Kurs21Nord og hefur það að markmiði að fjalla um það sem efst er á baugi í menntamálum hverju sinni og miðla nýjungum og reynslu á milli aðildarlandanna. Ráðstefna þessi er haldin árlega og skiptast löndin á að halda hana. Þetta er í annað sinn sem hún er haldin á Íslandi. 

Auk fjölmargra áhugaverðra erinda héldu þau Bára Katrín og Brynjar Bragi áhugavert erindi þar sem þau fjölluðu um þeirra sýn á skólastarf, samskipti milli nemenda og á milli nemenda og kennara. Einkar áhugavert var að hlýða á þeirra innlegg og augljóst að við sem stjórnendur og kennarar í skólum þurfum að vera duglegri að hlusta á raddir unga fólksins og jafnframt tileinka okkur skilning á ýmsum nýjum samskiptaaðferðum, nýju tungutaki og fleiru. Að erindum þeirra loknum fóru þau á milli borða í hópavinnu og ræddu við þátttakendur. Skemmst er frá því að segja að þau fengu afar lofsamlegar viðtökur, standandi lófaklapp og voru sinni kynslóð til mikillar fyrirmyndar í allri sinni framgöngu.

Skólinn er virkilega stoltur af nemendum sínum.

Aðrar fréttir