Upphaf skólaársins

Skrifstofa Verzlunarskóla Íslands er nú opin og undirbúningur fyrir komandi haustönn er kominn á fullt á sama tíma og sumarönn fjarnáms er senn að ljúka með síðasta prófadegi í dag, miðvikudag 10. ágúst.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga í upphafi skólaárs:

  • Nýnemar sem hefja nám á 1. ári nú í ágúst eru boðaðir á nýnemakynningu föstudaginn 19. ágúst klukkan 10:00. Nýnemar fá kynningu á skólanum og starfinu sem fram undan er auk þess sem bekkir hitta umsjónarkennara sinn.
  • Forráðamönnum nýnema er boðið á kynningarfund í skólanum mánudaginn 29. ágúst klukkan 20:00. Þar fá þeir kynningu á skólastarfinu, félagslífi nemenda auk þess sem tækifæri er til að hitta umsjónarkennara.
  • Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu mánudaginn 22. ágúst hjá öllum nemendum en stundatöflur eru nú aðgengilegar í INNU. Þá eru bókalistar einstaka áfanga aðgengilegir í INNU en heildarbókalista fyrir hvert námsár er einnig hægt að nálgast á heimasíðu skólans.
  • Bóksala skólans verður í formi vefverslunar og verður hægt að hefja bókakaup fimmtudaginn 18. ágúst eftir hádegi. Afhending á keyptum bókum fer fram í skólanum og hefst afhending föstudaginn 19. ágúst klukkan 12:00. Bóksala skólans verður opin fyrstu kennsluviku annarinnar og eru nemendur hvattir til að ljúka bókakaupum sem fyrst.
  • Skóladagatal ársins er aðgengilegt á heimasíðu skólans og eru nemendur og forráðamenn þeirra beðnir um að skoða það vel og skipuleggja frítíma sinn í samræmi við dagatalið.
  • Innritun nemenda af biðlista er lokið og ekki verða teknir fleiri nemendur inn í skólann á þessari önn. Upplýsingar um möguleika á skólavist um áramót er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.
  • Að gefnu tilefni bendum við nýnemum á að ekki er hægt að óska eftir flutningi á milli bekkja þar sem innritað var í öll pláss í öllum bekkjum sem þýðir að ekkert svigrúm er í bekkjum til að fjölga nemendum.

Það ríkir eftirvænting meðal starfsmanna skólans að taka á móti nýjum og núverandi nemendum skólans. Við horfum björtum augum til skólaársins og hlökkum til samstarfsins við nemendur og forráðamenn þeirra.

Aðrar fréttir