27. apr. 2017

Uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðjunnar

Fyrirtækið Meira úr Verzlunarskóla Íslands var valið fyrirtæki ársins í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla.

Þriggja mánaða vinnu Fyrirtækjasmiðjunnar lauk í gær miðvikudaginn 26.apríl með skemmtilegri uppskeruhátíð sem var haldin í Háskólanum í Reykjavík. Þar kynntu 15 fyrirtæki sem höfðu komist í úrslit vörurnar sína. Af þessum 15 fyrirtækjum voru 6 frá Verzlunarskólanum og hlutu þau 5 verðlaun af 7 sem veitt voru. Alls voru 64 fyrirtæki úr 11 framhaldsskólum sem tóku þátt í keppninni og komu margar góðar hugmyndir fram.

Fyrirtækið Meira sem hlaut verðlaunin fyrirtæki ársins var stofnað í janúar af fjórum nemendum í 6-H, þeim Einari Snæ Ásbjörnssyni, Einari Gylfa Harðarsyni, Einari Karli Jónssyni og Kára Kristni Bjarnasyni. Hugmynd fyrirtækisins er að búa til sparnaðarapp fyrir ungt fólk. Með því vilja þeir hvetja ungt fólk til að spara og setja markmiðin upp á sýnilegan og flottan hátt. Þeir vilja með þessu auka fjármálalæsi hjá ungu fólki. Fyrirtækið Meira hlaut einnig verðlaun fyrir mestu nýsköpunina. Meira mun fá aðstöðu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að þróa hugmyndina sína og svo mun fyrirtækið fara til Brussel í sumar og keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla.

Fleiri verðlaun voru veitt á uppskeruhátíðinni, fyrirtækið FÖNKÍ úr 6-E sem framleiðir engiferskot með kollageni hlaut verðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlunina, fyrirtækið FURA úr 6-I sem framleiðir bakka með krítartöflum lenti í 3.sæti í fyrirtæki ársins og fyrirtækið Kennaraspil úr 6-I sem framleiðir spil með myndum af kennurum skólans hlaut verðlaun fyrir söluhæstu vöruna.

Verðlaun fyrir bestu markaðsmál voru veitt fyrr á önninni og hlaut fyrirtækið Móðey úr 6-D þau verðlaun. Þau framleiða poka sem eiga að fjarlægja móðu úr bílum.

Önnur fyrirtæki stóðu sig ótrúlega vel og geta nemendur verið stoltir af frammistöðu sinni.

Fréttasafn